BANKAEFTIRLIT Seðlabanka Íslands mun kynna sér kaup Vilhjálms Bjarnasonar á 50 milljóna króna hlut í Landsbankanum, segir Jóhann Albertsson, yfirlögfræðingur Bankaeftirlits Seðlabankans. Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands stóð á bak við kaup Vilhjálms Bjarnasonar á hlutafé í Landsbankanum.
Bankaeftirlitið kannar hlutabréfakaup

BANKAEFTIRLIT Seðlabanka Íslands mun kynna sér kaup Vilhjálms Bjarnasonar á 50 milljóna króna hlut í Landsbankanum, segir Jóhann Albertsson, yfirlögfræðingur Bankaeftirlits Seðlabankans.

Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands stóð á bak við kaup Vilhjálms Bjarnasonar á hlutafé í Landsbankanum.

Í samtali við Morgunblaðið, þegar tilboð í Landsbankann voru opnuð og í ljós kom hver átti hæsta tilboðið, sagði Vilhjálmur að nokkrir fjárfestar stæðu að tilboðinu með sér. Hann vildi ekki gefa upp hverjir en sagði þá venjulega sparifjáreigendur sem vilji fá hlutdeild í hagnaði bankans og reikni með að það skili þeim hærri ávöxtun en vextir sem bankinn borgar.

Að sögn Jóhanns Albertssonar á Bankaeftirlitið eftir að skoða málið betur en ekki hafi náðst í þá aðila sem eiga hlut að máli.

Aðspurður segir Jóhann að almennt sé æskilegt ef menn eru að tjá sig á annað borð um hlutabréfakaup af þessu tagi að þeir gefi réttar upplýsingar. Í þessu tilviki hafi ekki þurft að gefa upp hverjir stæðu að baki kaupunum þar sem bréfin eru ekki skráð á VÞÍ. "En úr því að Vilhjálmur kaus að tjá sig þá er afar óheppilegt að villa um fyrir markaðnum," segir Jóhann.