6. nóvember 1998 | Minningargreinar | 413 orð

Hulda Dóra Jakobsdóttir Hulda Dóra Jakobsdóttir var fædd í Reykjavík 2

Hulda Dóra Jakobsdóttir

Hulda Dóra Jakobsdóttir var fædd í Reykjavík 21. október 1911. Hún lést á Sjúkrahúsi Reykjavíkur 31. október síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðrún Sesselja Ármannsdóttir, húsmóðir í Reykjavík, og Jakob Guðjón Bjarnason, vélstjóri. Þau eignuðust fimm börn; Huldu, Gunnar, f. 15. janúar 1913, d. 9. apríl 1928, Ármann, f. 2. ágúst 1914, lögfræðing, Halldór Bjarna, f. 1. janúar 1917, framkvæmdastjóra. Hulda gekk í Miðbæjarskólann í Reykjavík. Hún lauk gagnfræðaprófi 1928 og stúdentsprófi 1931 frá Menntaskólanum í Reykjavík og cand. phil.-prófi frá Háskóla Íslands 1932. Hún starfaði sem gjaldkeri og erlendur bréfritari hjá Efnagerð Reykjavíkur frá 1932 til 1940. Hulda giftist 16. apríl 1938, Finnboga Rúti Valdemarssyni, f. 24. september 1906 að Fremri-Arnardal við Skutulsfjörð, d. 19. mars 1989, alþingismanni og bankastjóra. Foreldrar hans voru Valdimar Jónsson og Elín Hannibalsdóttir. Hulda og Finnbogi Rútur eignuðust fimm börn. Þau eru: Elín, f. 12. janúar 1937, gift Sveini Hauk Valdimarssyni, Gunnar, f. 15. júní 1938, d. 22. febrúar 1993, Guðrún, f. 21. september 1940, Sigrún, f. 22. apríl 1943, gift Styrmi Gunnarssyni, Hulda, f. 13. mars 1948, gift Smára Sigurðssyni. Finnbogi Rútur átti eina dóttur fyrir hjónaband, Auði, f. 12. mars 1928. Hulda og Finnbogi Rútur hófu búskap í Reykjavík en fluttu að Marbakka í Kópavogi 10. maí 1940. Hulda var einn af stofnendum Framfarafélagsins Kópavogs árið 1945 og var upp frá því tengd sögu og uppbyggingu Kópavogs. Hún tók við starfi bæjarstjóra 1957. Hún var fyrsta konan á Íslandi sem kjörinn var í stöðu bæjarstjóra. Hún gegndi því starfi til ársins 1962. Hún var kjörinn bæjarfulltrúi Samtaka frjálslyndra og vinstri manna 1970 og sat í bæjarstjórn sem kjörinn fulltrúi í eitt kjörtímabil. Hún var formaður skólanefndar Kópavogshrepps frá 1945­1956 og Fræðsluráðs Kópavogskaupstaðar frá 1956­1962. Hún var stofnandi og formaður Kvenfélags Kópavogs frá 1952­1954. Hún var fyrsti formaður sóknarnefndar Kópavogsprestakalls og átti sæti í byggingarnefnd Kópavogskirkju. Hún fékk Gerði Helgadóttur til að teikna steinda glugga í Kópavogskirkju og stóð fyrir söfnun meðal Kópavogsbúa til að fjármagna gerð þeirra. Hún stóð fyrir byggingu sundlaugar á Rútstúni, sem teiknuð var af Högnu Sigurðardóttur. Þau hjónin Hulda og Finnbogi Rútur höfðu áður gefið Kópavogskaupstað túnið til að þar yrði skemmtigarður. Huldu var sýndur margs konar heiður fyrir störf að félags- og framfaramálum í Kópavogi. Þau hjónin voru kjörnir fyrstu heiðursborgarar Kópavogs 8. október 1976. Hún var heiðursfélagi í Kvenfélagi Kópavogs. Hún var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1994. Hulda bjó að Marbakka til dauðadags. Útför Huldu Jakobsdóttur fer fram frá Kópavogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.