MAGDALENA SÆMUNDSEN

Magdalena Margrét Sæmundsen fæddist á Blönduósi 27. maí 1921. Hún var dóttir Evalds Sæmundsen, verslunarstjóra þar, og konu hans, Þuríðar Sæmundsen kennara, dóttur Sigurðar Sigurðssonar, bónda á Húnstöðum, og konu hans, Sigurbjargar Gísladóttur. Önnur börn Evalds og Þuríðar voru Þorgerður, f. 22. ágúst 1918, Ari, f. 23. des. 1923, d. 7. maí 1924 og Pétur, f. 13. feb. 1925, d. 5. feb. 1982. Magdalena giftist Þormóði Sigurgeirssyni 27. maí 1961. Hann fæddist 3. nóv. 1919 sonur hjónanna Sigurgeirs Björnssonar, bónda á Orrastöðum, og konu hans, Torfhildar Þorsteinsdóttur. Fósturdóttir þeirra er Sigríður Hermannsdóttir, systurdóttir Magdalenu, f. 3. mars 1955. Magdalena lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands vorið 1939. Strax eftir lokapróf réðst hún til Stjórnarráðs Íslands og vann þar í sex ár. Þá fór hún til framhaldsnáms í verslunarskóla í Stokkhólmi í eitt ár. Heim komin fór hún að vinna við verslun móður sinnar á Blönduósi ásamt öðrum störfum, kom meðal annars að stjórnun ýmissa fyrirtækja þar, s.s Blönduskálans, Húnakjörs, Blönduósbakarís o.fl. Lengst starfaði hún sem gjaldkeri Héraðshælisins á Blönduósi, eða allt til ársins 1988 og hafði þá unnið þar hátt á þriðja áratug. Útför Magdalenu verður gerð frá Blönduóskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.