GRÍMSEYINGAR voru í hátíðarskapi þegar þeir tóku þátt í hátíðardagskrá í tilefni dagsins. Hún hófst með því að afhjúpaður var minnisvarði um Willard Fiske, en það gerðu bræðurnir Jóhannes og Bjarni Magnússynir.
Fjölmargir gestir tóku þátt í "þjóðhátíðardegi" Grímseyinga sem var haldinn hátíðlegur í gær Minnisvarði um

Willard Fiske afhjúpaður

Grímseyingar og góðir gestir þeirra, alls um 100 manns, gerðu sér dagamun í gær, en árlega hafa þeir haldið nokkurs konar "þjóðhátíðardag" 11. nóvember, á fæðingardegi Willards Fiske, mikils velgjörðarmanns eyjarskeggja. Meðal gesta voru þeir Halldór Blöndal samgönguráðherra og Day Olin Mount sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.

GRÍMSEYINGAR voru í hátíðarskapi þegar þeir tóku þátt í hátíðardagskrá í tilefni dagsins. Hún hófst með því að afhjúpaður var minnisvarði um Willard Fiske, en það gerðu bræðurnir Jóhannes og Bjarni Magnússynir. Báðir eru þeir á meðal stofnenda Kiwanisklúbbsins Gríms í Grímsey sem gaf minnisvarðann en klúbburinn átti 20 ára afmæli fyrr á þessu ári. Gunnar Árnason myndhöggvari gerði minnismerkið en texta sem á því er og hljóðar svo gerði Hreiðar E. Geirdal:

Willard Fiske í röðulrúnum

réði sérhvern staf.

Ærinn hlut af auði sínum

eyjarbúum gaf.

Minning hans skal ávallt eiga

æðsta sæti hér,

meðan ægir örmum vefur

okkar litla sker.

Donald Jóhannesson, skólastjóri Grunnskólans í Grímsey, stjórnaði athöfn í félagsheimilinu Múla og nefndi m.a. að veðrið léki við eyjarskeggja á þessum hátíðisdegi, en daginn áður höfðu allt að 9 vindstig mælst í eyjunni. Þá nefndi hann þá rausnarlegu gjöf sem Fiske færði Grímseyingum, en í erfðaskrá hans voru íbúum ánafnaðir 12.000 dollarar sem að núvirði eru um 20,4 milljónir króna. Fyrir peningagjöfina reistu Grímseyingar m.a. skóla, sem reyndar er nú búið að rífa, og bættu við bókasafn sitt. "Þetta var þó fyrst og fremst stuðningur við bætt mannlíf í Grímsey," sagði Donald.

Kom aldrei til Grímseyjar

Willard Fiske var Bandaríkjamaður, fæddur 1831 en hann lést árið 1904. Fiske kom aldrei til Grímseyjar. Hann kom fyrst til Húsavíkur og sá hann Grímsey aðeins af hafi er hann sigldi framhjá eyjunni. Hann ferðaðist vítt og breytt um Ísland og talaði jafnan íslensku er hann dvaldi hér á landi. Til er foss í Öxarfirði sem nefndur er eftir honum, Willardsfoss. Fyrir tilstuðlan hans fengu Íslendingar stóra bókagjöf árið 1874 og sendi hann bókagjafir til Íslands í 25 ár samfleytt. Þá bjó hann til skákbókasafn í Landsbókasafninu, stofnaði fyrsta skákblaðið sem gefið var út á Íslandi og í Bandaríkjunum og stóð að fyrstu heimsmeistarakeppni í skák. Gaf hann einnig tafl á hvert heimili í Grímsey. Síðustu æviár sín bjó hann í Flórens á Ítalíu, en hann lést sem fyrr segir árið 1904.

Kristján Karlsson, flutti ávarp í Grímsey í gær en hann var bókavörður við Fiske-safnið í Cornell í New York fylki í Bandaríkjunum í nokkur ár í kringum 1950. Aldrei var skrifuð ævisaga Fiske og sagðist Kristján hafa byggt sína umfjöllun á sögusögnum, bréfasafni og greinum sem um hann voru skrifaðar.

Merkilegur maður

"Fiske var mjög merkilegur og jafnframt sjálfstæður maður. Hann festi hvergi rætur og fór mjög víða. Fiske rækti sín áhugamál af dugnaði og krafti sem kom m.a. fram í áhuga hans á Íslandi og þá sérstaklega Grímsey. Hann sá Grímsey sem Ísland í hnotskurn og hreifst mjög af dugnaði og menningaráhuga eyjarskeggja, sem honum fannst skrýtið að færi saman þ.e. þessi mikla þörf fyrir æðra menningarlífi," sagði Kristján.

Við athöfn í félagsheimilinu Múla léku Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari og Gerrit Schuil píanóleikari fyrir gesti, m.a. lag eftir Atla Heimi Sveinsson, tónskáld, sem var viðstaddur. Guðný er barnabarn sr. Matthíasar Eggertssonar sem eitt sinn var prestur í Grímsey og bjó þar í 43 ár. Afi hennar var einn þeirra sem fékk manntafl að gjöf frá Fiske, en hann gaf á sínum tíma tafl á hvert heimili í eyjunni. Hélt sr. Matthías minningu Fiske ávallt á lofti.

Gagnkvæm virðing og samvinna

Day Olin Mount, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, tók einnig þátt í hátíðarhöldunum, ásamt konu sinni og fulltrúum Fiske-stofnunarinnar í Reykjavík. Í máli sendiherrans kom m.a. fram að nítjándu aldar maðurinn Willard Fiske hefði hvorki ráðið yfir tölvupósti né farsíma en með þeim takmörkuðu samgöngum sem þá stóðu til boða hefði honum tekist að mynda samband við Íslendinga sem stóð hjarta hans næst til æviloka.

"Samband hans við ykkur Grímseyinga er einkar ánægjulegt og alveg sérstakur þáttur í samskiptum hans við Íslendinga og mér er mikill heiður að standa hér á eyjunni sem honum var svo hjartfólgin en auðnaðist aldrei að sækja. Samband Fiske við land ykkar og þjóð hefur að vissu leyti endurspeglast í samskiptum þjóða okkar undanfarna áratugi. Þau hafa einkennst af gagnkvæmri virðingu, samvinnu á mörgum sviðum og af mikilli einlægni og vináttu. Samband Íslands og Bandaríkjanna er til eftirbreytni í viðsjálum heimi og ég vona að í framtíðinni muni öðrum þjóðum farnast eins vel og okkur," sagði Day Olin Mount.

Grímseyingum bárust gjafir frá sendiráði Bandaríkjanna og Fiske- stofnuninni í Reykjavík, 500 dollara peningagjöf og kassi af bókum frá Bandaríkjunum.

Lýsir samheldni og þrautseigju

Halldór Blöndal samgönguráðherra hefur áður tekið þátt í hátíðarhöldum með Grímseyingum á þessum degi. Sagði Halldór 11. nóvember þjóðhátíðardag Grímseyinga, þar sem ungir sem aldnir kæmu saman til að minnast velgjörðarmanns síns og væri það sérstök upplifun að taka þátt í þeirri hógværu gleði sem efnt væri til, en hún lýsti samheldni og þrautseigju eyjarskeggja. Var samgönguráðherra ekki í vafa um að minning Fiske væri heilög í hugum Grímseyinga, hvatning og áminning um samheldni og kjark. "Það er gaman að vera hér á þessum degi," sagði Halldór.

Tveir af þekktustu skákmeisturum landsins, Jóhann Hjartarson og Friðrik Ólafsson, settust að tafli, auk þess sem Friðrik flutti ávarp. Fram kom í máli Friðriks að framlag Fiske til skáklistarinnar á Íslandi væri ómetanlegt. Í raun hefði Fiske lagt grunninn að þeirri skákmennt sem við búum við nú.

Skólabörn í eynni fluttu einnig dagskrá, sungu nokkur lög og fluttu fróðleik um Fiske. Þá stóð Kvenfélagið Baugur fyrir kaffisamsæti, þar sem gestum var boðið upp á glæsilegar veitingar.

Morgunblaðið/Kristján BRÆÐURNIR Bjarni og Jóhannes Magnússynir t.v. afhjúpuðu í gær minnisvarða um Willard Fiske, velgjörðarmann Grímseyinga. Með þeim á myndinni er Þorlákur Sigurðsson, oddviti.GÓÐIR gestir á flugvellinum í Grímsey. Fremst standa Day Olin Mount, sendiherra Bandaríkanna á Íslandi, og Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari en þau tóku bæði virkan þátt í hátíðardagskránni.HALLDÓR Blöndal samgönguráðherra flytur ávarp í félagsheimilinu Múla í Grímsey.KRISTJÁN Karlsson, sem starfaði við Fiske-safnið í Cornell, flutti fróðlegt erindi um Willard Fiske.