Þessa dagana er þess minnst að hálf öld er liðin frá vígslu Fossvogskirkju eða Fossvogskapellu, eins og hún var í upphafi og lengi síðan kölluð í daglegu tali. Nánar tiltekið fór vígslan fram hinn 31. júlí 1948 og var framkvæmd af séra Bjarna Jónssyni vígslubiskupi. Kirkjan var þó ekki tilbúin fyrir athafnir almennt, en vegna andláts formanns Bálfararfélagsins, dr.
Fossvogskirkja 50 ára

Fossvogskirkja var byggð með það í huga, segir Ásbjörn Björnsson , að vera alfarið útfararkirkja.Þessa dagana er þess minnst að hálf öld er liðin frá vígslu Fossvogskirkju eða Fossvogskapellu, eins og hún var í upphafi og lengi síðan kölluð í daglegu tali. Nánar tiltekið fór vígslan fram hinn 31. júlí 1948 og var framkvæmd af séra Bjarna Jónssyni vígslubiskupi.

Kirkjan var þó ekki tilbúin fyrir athafnir almennt, en vegna andláts formanns Bálfararfélagsins, dr. Gunnlaugs Claessen, nokkrum dögum áður, þótti sjálfsagt að verða við bón hans um að útför hans yrði gerð frá Fossvogskapellu og bálför hans færi fram í hinni nýju bál- stofu, sem byggð var með kirkjunni.

Það var hins vegar ekki fyrr en 12. des. 1948, sem kirkjan var endanlega tilbúin og opnuð fyrir útfarir og kistulagningar.

Fossvogskirkja var þegar í upphafi byggð með það að markmiði að vera alfarið útfararkirkja. Hún var reyndar eina kirkjan á landinu, sem frá upphafi var ætluð eingöngu til útfararþjónustu með öllu sem það felur í sér, þ.e. aðstöðu til líkgeymslu, kistulagningarathafna og jarðarfara og síðast en ekki síst búin ofnum til líkbrennslu.

Knud Zimsen borgarstjóri, sem var ötull talsmaður nýrra útfararsiða og áhugamaður um byggingu útfararkirkju, fagnaði mjög þessari niðurstöðu. Byggingarnefndin, sem skipuð hafði verið, fól húsameisturunum Sigurði Guðmundssyni og Eiríki Einarssyni að gera tillögur að Fossvogskirkju.

Samstaða náðist um að ráðast í byggingu sérstakrar útfararkirkju í Fossvogskirkjugarði. Skyldi stefnt að því að kirkjan tæki allt að 300 manns í sæti og sambyggð við hana líkgeymsla með fullkomnum kælibúnaði.

Hópur áhugamanna um líkbrennslu var búinn að stofna félag um þetta áhugamál sitt, þegar hér var komið sögu, og nefndi Bálfararfélagið. Í þessum hópi voru margir framámenn í þjóðfélaginu og beittu þeir áhrifum sínum mjög til að koma upp aðstöðu til líkbrennslu, en fram til þessa höfðu þeir sem óskuðu líkbrennslu verið sendir með ærnum tilkostnaði til Danmerkur. Forsvarsmenn Bálfararfélagsins sáu í hendi sér hagræðið í því að koma á samvinnu við byggingarnefnd Fossvogskapellu. Er skemmst frá því að segja að þessir samstarfsaðilar urðu sammála um kosti þess að hafa bálstofuna sem næst eða í væntanlegri útfararkirkju.

Byggingarleyfi var úthlutað hinn 16. mars 1945 og var gerður samningur við Byggingarfélagið Brú hf. 13. apríl sama ár. Fyrstu skóflustunguna tók Knud Zimsen með mikilli ánægju. Ári síðar, nánar tiltekið 25. apríl, lagði forseti Íslands, herra Sveinn Björnsson, hornsteininn úr slípuðu íslensku gabbrói í kór Fossvogskirkju.

Segja má að það hafi verið vel við hæfi að þeir bjartsýnismenn sem hér réðu ferð skyldu velja þennan dag til þessarar athafnar, þ.e. sumardaginn fyrsta. Eins og fyrr var getið var Fossvogskirkja vígð tveimur árum síðar, hinn 31. júlí 1948. Með byggingu Fossvogskirkju var stigið mikið heillaspor og nú, hálfri öld síðar, er eðlilegt og sjálfsagt að minnast þessa merka áfanga á veglegan hátt.

Fyrir tíma Fossvogskirkju fóru langflestar jarðarfarir fram frá Dómkirkjunni, sem lengst af var eina sóknarkirkjan. Nokkuð var um jarðarfarir frá Fríkirkjunni eftir tilkomu hennar, en frá og með árinu 1949 verður mikil breyting með tilkomu Fossvogskirkju, sem síðan tók við æ stærri hluta útfara borgarbúa.

Lengi var það svo eftir að sóknum fjölgaði og jafnframt sóknarkirkjum, að áfram skiptust útfarir á milli Dómkirkju og Fossvogskirkju. Á þessu varð ekki veruleg breyting fyrr en um 1980, þegar greftranir hefjast í hinum nýja kirkjugarði í Gufunesi. Um það leyti var Fossvogskirkjugarður að mestu fullgrafinn, svo þeir sem létust og ekki áttu frátekinn legstað í Fossvogsgarði við hlið maka eða annars náins ástvinar hlutu legstað í Gufuneskirkjugarði. Það skal þó tekið fram að nóg pláss var og verður um allmörg komandi ár fyrir þá sem kjósa brennslu. Er þá um tvo kosti að velja, að svokallað duftker með jarðneskum leifum hins látna sé grafið í sérstökum duftreit eða sett í leiði ættingja eða maka, með leyfi leiðishafa.

Árið 1988 var efnt til hugmyndasamkeppni um endurbætur á Fossvogskirkju og hófust framkvæmdir af fullum krafti í mars 1990 í samræmi við verðlaunateikningu arkitektanna Árna og Sigbjörns Kjartanssona. Biskup Íslands, herra Ólafur Skúlason, endurvígði kirkjuna hinn 26. ágúst 1990.

Áhersla var lögð á að breyta útliti kirkjunnar sem allra minnst og var það vel leyst af arkitektunum og iðnaðarmönnunum, sem að verkinu komu. Á hinn bóginn má segja að gjörbreyting hafi orðið í kirkjunni hið innra. Upphaflega krossviðarklæðningin, sem kirkjugestir höfðu barið augum um fjörutíu ára skeið, var fjarlægð. Nýir bekkir fyrir 350 manns (í stað 300 áður) voru smíðaðir og gólf lagt gegnheilu parketi og steinflísum. Nýjar og stærri svalir voru steyptar með tröppum úr salnum, í stað þeirra sem lágu upp úr anddyri. Ný framúrstefnuleg altaristafla leysti af hólmi gamla, umdeilda altaristöflu eftir Eggert Guðmundsson. Þess má geta að áhugi er fyrir hendi hjá ráðamönnum Kirkjugarðanna að finna gömlu altaristöflunni framtíðarstað.

Tæpast er hægt að ljúka þessari lýsingu á umhverfi Fossvogskirkju að ekki sé nefnt nafn Einars E. Sæmundsen landslagsarkitekts, sem hannað hefir og haft yfirumsjón með öllum verklegum framkvæmdum í Fossvogskirkjugarði síðustu 2­3 áratugina. Honum til aðstoðar er garðyrkjudeild Kirkjugarðanna undir stjórn Karls Guðjónssonar garðyrkjustjóra. Verkin lofa meistarana og leyfi ég mér að óska þeim og öllum, sem þá hafa aðstoðað við framkvæmdina, til hamingju með frábæran árangur. Þar eiga sinn stóra þátt forstjóri, Þórsteinn Ragnarsson, og Sigurjón Jónasson rekstrarstjóri, sem báðir hafa gott auga fyrir fögru umhverfi og eru sífellt að gera góða hluti hjá Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma, utan húss sem innan.

Í dag verður þessara tímamóta minnst með hátíðardagskrá í Fossvogskirkju sem hefst klukan 17.Höfundur er fyrrverandi forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ásbjörn Björnsson