MICHAEL Meyer býr í rúmgóðri íbúð í Highbury Place í London, skammt frá þar sem þeir Graham Greene deildu íbúð. "Á húsinu er platti þar sem á stendur hér bjó Graham Greene, en mitt nafn er þar ekki," segir hann og brosir.
Við

fótskör

skáldsnillinga

Michael Meyer hefur lifað og hrærst í bókmenntum. Hann var vinur Grahams Green og kynnti hann fyrir George Orwell. Þýðingar hans á verkum Ibsens og Strindbergs eru taldar grundvallarverk. Meyer er væntanlegur til Íslands nú í nóvember í boði Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands og heldur m.a. fyrirlestra um verk Ibsens og kynni sín af Graham Greene. Einar Þór Gunnlaugsson hitti Michael Meyer að máli í London nýverið. MICHAEL Meyer býr í rúmgóðri íbúð í Highbury Place í London, skammt frá þar sem þeir Graham Greene deildu íbúð. "Á húsinu er platti þar sem á stendur hér bjó Graham Greene, en mitt nafn er þar ekki," segir hann og brosir.

"Sestu í þennan stól, hann er um 200 ára gamall," segir hann.

"Tilheyrði hann fjölskyldunni?"

"Já, pabbi átti hann."

"Smíðaði hann kannski húsgögn?"

"Nei. Hann smíðaði ekki, en flutti inn timbur."

"Hvaðan?"

"Skandinavíu meðal annars."

"Var það þá sem þú heyrðir fyrst talað um Norðurlönd?"

"Ó nei, reyndar ekki, það var seinna. Ég man ekki hvenær það var nákvæmlega. Ég fór í skíðaferðalag til Geilo í Noregi 18 ára gamall og hitti þar unga stúlku ­ ég þorði ekki að kyssa hana. En ég varð strax hrifinn af Skandinavíu og átti eftir að eignast góða vini og góðar minningar þaðan. Það var hálfgerð tilviljun að ég leiddist inná þessa braut."

Michael skrifaði ævisögur Ibsens og Strindbergs sem kallaðar hafa verið "meiriháttar afrek" af gagnrýnendum, og þýðingar hans á verkum þeirra eru settar upp á hverjum fjórða til fimmta degi einhversstaðar í heiminum. Hann gaf út skáldsgöguna "The End of the Corridor", skrifaði tvö leikrit, "The Ortolan" og "Lunatic and Lovers", "Not Prince Hamlet", endurminningar af leikhús- og bókmenntalífi í London, og "Meeting in Rome", verk um ímyndaðan fund Ibsens og Strindberg. Sænska akademían veiti honum orðu fyrir þýðingar hans á verkum Strindbergs 1964. Hann var einn nánasti vinur Grahams Greene til 40 ára, sá eini eftirlifandi í dag, og fór stundum í heimsreisur með honum þegar Graham varð leiður á bæjarslúðrinu í London. Hann kynnti Graham einnig fyrir George Orwell.

"Eitt sinn þegar ég heimsótti George (Orwell) veturinn 1943-4 þá útskýrði hann fyrir mér plottið í nýrri en stuttri bók," segir Michael. "Einsog margir rithöfundar þá var hann vonlaus í að segja sögu úr einhverri bóka sinna. Samantekt hans var einhvern veginn svona; það er þessi bær, og dýrin fá nóg af því hvernig maðurinn rekur bæinn og þau gera uppreisn og reyna að reka þetta sjálf. En þau reka bæinn eins illa og maðurinn og verða eins miklir harðstjórar, þannig að þau fá manninn í lið með sér til að pína hin dýrin." "Já," sagði ég hvetjandi, en þetta hljómaði hræðilega óefnilegt. "Þetta er einhverskonar háð," sagði George þá. Í hvert sinn sem ég heimsótti hann heyrði ég að einhver útgefandi hafði hafnað sögunni. Í bréfi frá Faber & Faber sagði t.d. "við erum ekki sannfærðir um að þetta sé rétta sjónarhornið til að gagnrýna hið pólitíska ástand á okkar tímum". Og það var þrautaganga að fá bókina gefna út. Það var hinsvegar gaman að vita að Bill Collins, sem hafnaði bókinni og var alls ekki höfðinglegur nema gagnvart metsölubókum, skuli hafa séð Animal Farm koma út hjá öðru litlu forlagi og slá í gegn."

"Graham skrifaði einnig kvikmyndahandrit að "The Third Man" á svipuðum tíma, og þú sagðir einhvern tíman að það hafi verið slök framsetning á því."

"Graham gekk vel að koma handritinu frá sér, en hann sjálfur lét hugmyndina hljóma leiðinlega."

"En hefur þetta breyst mikið í London í dag, að fá gefna út bók eða koma leikriti eða kvikmyndahandriti á framfæri miðað við fjórða og fimmta áratuginn, á tímum ykkar Orwells og Greene?"

"Á þessum árum voru engin "fringe" eða jaðarleikhús, aðeins West End leikhúsin svo það ætti að vera mun auðveldara að koma leikriti á framfæri, og auk þess las fólk þá meira af bókum held ég, þá var sjónvarp sjaldgæf eign en nú er samkeppni öll öðruvísi. Það er erfitt að segja, það er alltaf erfitt að koma verki að."

"Á Íslandi telst ágætt að selja yfir þúsund eintök af bók eftir byrjanda."

"Ég fékk gefna út "The End of the Corridor" 1951, mína fyrstu og einu skáldsögu og seldist hún í 4.500 eintökum, sem þótti ágætt. Í dag teldist það mjög gott, nú eru sumar bækur oft ekki að seljast meira en í um 600 eintökum."

"En hvernig var það fyrir þig sem ungan mann að umgangast þessi stóru nöfn svo náið, það hlýtur að hafa verið sérstakt fyrir þig á þessum tíma og kannski haft einhver áhrif á þig og þinn feril?"

"Mér fannst ég vera minni maður." Michael réttir nú hendina upp og heldur henni yfir höfðinu brosandi, "þeir voru hærri en ég og báðir vel yfir sex fet."

Á ferð og flugi

Michael segir að vinskapur hans við þá Orwell og sérstaklega Graham Greene hafi dregð úr metnaði hans til að gerast skáldsagnahöfundur, og hefði hann verið raunverulegt skáld eða ljóðskáld hefði hann líklega haldið áfram á þeirri braut. En hann hefur frá miklu að segja. Hann kynntist Graham Greene fyrst í London 1944, en samband þeirra varð ekki náið fyrr en 1955 þegar Michael dvaldi í Svíþjóð. Graham heimsótti hann þangað og hitti hina þekktu leikkonu Anitu Björk, sem varð að ástarsambandi og Graham mikið öfundaður af því, en varð þó til þess að Graham kom oftar til Svíþjóðar. Hann dvaldist mikið hjá Michael því Anita var oft að leika á kvöldin og stundum á daginn í sjónvarpi. Nokkru síðar fór Michael í sjö og hálfs mánaðar ferð um Austurlönd nær og Kína. Hann segir það hafa verið að undirlagi Grahams og hann hafi bent honum á "réttu' staðina til að heimsækja, því Michael kvartaði undan því að rithöfundastarfið gengi ekki nógu vel og hann þyrfti tilbreytingu.

Á næstu árum áttu þeir félagar hinsvegar eftir að ferðast saman um heim allan, fyrst til Havana þegar Graham undirbjó "Okkar maður í Havana" 1958, og síðar til Fiji, Tahiti, Sydney, Bandaríkjanna, Kanada og víðar. Michael segir einnig frá því í bók sinni "Not Prince Hamlet", að sumarið 1960 hafi blossað upp deilur í Svíþjóð vegna leikritsins "The Complaisant Lover" (Viðurkenndur elskuhugi), eftir Graham. Í síðasta þætti fremur eiginmaðurinn sjálfsmorð úti í bílskúr. Gamlir vinir fyrrum eiginmanns Anitu Björk, en hann framdi sjálfsvíg, töldu vera samband þar á milli og andúðin á Graham jókst. Graham reyndi að leiðrétta misskilninginn með hjálp Michaels, en án árangurs. Sá orðrómur gekk þá í Stokkhólmi í afbrýðisklíkunni að þar hafi Graham misst öll prik hjá sænsku akademíunni og hafi loks endað á listanum yfir þá sem hlutu ekki náð fyrir augum hennar, ásamt Ibsen, Tolstoy, Zola, Chekhov, Strindberg, Conrad, Gorki og Virginiu Woolf.

En Michael Meyer varð ekki þekktur og viðurkenndur vegna vinskapar hans og Grahams Greene. Þýðingar urðu að ævistarfi. Þýðingar hans á Ibsen og Strindberg eru víða settar upp í bandarískum háskólum sem skýrir hve oft er notast við þýðingar hans, en í enskumælandi leikhúsheim er Meyer-þýðing merki um gæði. Michael hefur fylgst með uppsetningum á þýðingum sínum í London í áratugi og séð leikara sem seinna áttu eftir að ná langt taka sín fyrstu skref á sviði, s.s. Ralf Richardsson, Helen Mirren, Sir Laurence Oliver, Michael Gambon og Glendu Jackson. Hann hefur einnig haldið fjölda fyrirlestra um Ibsen, m.a. í heimalandi Ibsens sjálfs, fyrir tíu árum á aldarafmæli Ibsens.

Gömlu brýnin

"Hvernig tóku Norðmenn erlendum fyrirlesara um eigið skáld?"

"Vel. En ungur Norðmaður spurði mig, hvers vegna ertu ekki akademískur fyrirlesari (scholar). Ég hélt að ég væri "scholar", sagði ég. Þá spurði hann, en þú hefur ekki neina háskólanafnbót? Við í Englandi teljum það ekki nauðsynlegt til að halda fyrirlestra, ég kenndi á árum áður en hafði aldrei hugsað mér að gera það að lífsstarfi. Sjáðu til, á Norðurlöndum virðist það vera nauðsynlegt að vera með háskólanafnbót til að halda fyrirlestra."

"Eru viðbrögð Norðmanna og Norðurlandabúa við verkum þessara höfunda öðruvísi en hér í Englandi og kannski uppsetningar líka?"

"Oft furða Norðmenn sig á því hve mikið við setjum upp af verkum Ibsens hér í Englandi en næst á eftir Shakespeare er Ibsen vinsælastur af þeim klassísku, mikið meira en nokkur af erlendum leikskáldum, t.d. Chekhov, hann skildi eftir sig aðeins 4 eða 5 leikrit en Ibsen 16 mjög góð verk. Og ég spyr þá Norðmenn, hvers vegna eruð þið hissa á því? Jú, hann skrifar um Norðmenn fyrir meira en 100 árum og ég svara því til, það skiptir ekki máli. Á sínum tíma var Ibsen talinn vera samfélagslegur umbótasinni, með Brúðuheimilinu t.d. sem fjallar um rétt kvenna til að yfirgefa eiginmenn sína, en Ibsen mótmælti því stöðugt að þetta snerist um samfélagið, heldur var hann aðeins að skrifa um ástríðufullar konur og karla. Ástríður breytast ekki og hafa ekki breyst í þúsundir ára, samfélagið breytist. Norðmenn hafa líka átt við nokkur vandamál að stríða við uppsetningu á verkum hans, t.d. það að norskan hefur breyst töluvert og leikurum finnst þeir vera að tala gamaldags mál. Enskan aftur á móti hefur ekki breyst nærri eins mikið. Leikstjórar í Noregi vita líka að allir vita hvernig Ibsen leikrit enda. Svo þeir hugsa, hvernig get ég gert mína uppsetningu öðruvísi? Þetta er nákvæmlega sama spurning og enskir leikstjórar spyrja sjálfan sig þegar þeir leikstýra Shakespeare."

"Ef leikrit eru um ástríður og ástríður breytast ekki, heldur samfélagið, hversu mikið þarf þýðandi þá að skilja samfélag heimalands höfundarins sem hann er að þýða, og menninguna sem hann sprettur úr. Þarf þýðandi að vita eitthvað um það?"

"Ó, já, já, það held ég. Ibsen sagði eitt sinn, að enginn gæti skilið sig til fullnustu ef hann þekkti ekki Noreg. Og það er rétt, sama má segja um Strindberg. Ef ég hefði ekki búið í Svíþjóð, í næstum 20 ár, þá hefði ég ekki getað þýtt hann almennilega. Ég kynntist stórkostlegum leikhúsum og leikurum í Svíþjóð en fram að því átti ég erfitt með að skilja um hvað verk Strindbergs snerust."

"Og húmor Ibsens átti lengi vel erfitt með að komast til skila. Er það hugsanlega vegna lítillar þekkingar á heimahögum hans?"

"Já, í gömlum þýðingum vill húmor hans detta út, hann hafði ágætt skopskyn og það er misskilningur að hann hafi haft lítinn húmor og verk hans og persónur eru líka margar mjög sexý. Í Brúðuheimilinu t.d. er mikilvægt að það komi skýrt fram að hjónaband þeirra Nóru og Þorvalds gengur vel í svefnherberginu. Það gerir það að verkum að það er erfiðara fyrir Nóru að yfirgefa hann. Það eru margar uppsetningar á Brúðuheimilinu sem ég hef séð þar sem ekkert virðist vera í gangi í svefnherberginu og lítil áhersla lögð á það, ekkert sex, og þá er auðvitað miklu auðveldara fyrir konu að yfirgefa manninn sinn."

"Þannig að það er mikilvægt að kynferðislegri ástríðu á milli þeirra hjóna séu gerð skýr skil sem allra fyrst."

"Ég held að það sé verulega mikilvægt. Hedda Gabler var t.d. mjög kynæsandi kona en gat ekki þolað að láta snerta sig."

"Hedda Gabler endar á orðum höfuðsmannsins, "enginn gerir svona lagað". Einhver sagði að Ibsen hafi verið að leggja hugsanleg orð í munn áhorfenda sem ekki myndu skilja verkið, hvað finnst þér um það?"

"Þetta er bull, ef ég má vera hreinskilinn."

"En Hedda Gabler var nokkuð vanmetið leikrit í Noregi, framan af allavega."

"Já. En fyrir utan efni verksins sjálfs, þá voru samtölin í Heddu Gabler mjög frábrugðin því sem tíðkaðist. Það ruglaði fólk í ríminu. Áður gengu samtöl útá það að persónur voru að útskýra sjálfar sig, hver persóna átti oft langa einræðu eða eintal og þess háttar, en í Heddu Gabler voru engin eintöl, það er "vélbyssudíalóg". Og veistu, það var danskur leikstjóri Heddu Gabler, sem ég bara man ekki hvað heitir, sem sagði að karl-egóistar, einsog Napóleon, væru alltaf aðlaðandi, en kvenegóistar væru aldrei aðlaðandi. Er þetta ekki merkilegt íhugunarefni?"

"Jú, og hvernig á leikari að túlka þetta? Var þetta á meðan Ibsen var á lífi?"

"Ó, já, mjög svo. Sjáðu til, einsog Hamlet, allir karlleikarar vilja leika Hamlet einsog allar leikkonur vilja leika Heddu Gabler. En nærri öllum leikurum mistekst að leika Hamlet einsog flestum leikkonum mistekst að leika Heddu, jafnvel færustu leikkonum, og ég hef séð margar, meira að segja Glendu Jackson mistókst það, þó að mér hafi aldrei tekist að sjá hvers vegna. Eins er með Hamlet ­ Paul Scofield, Albert Finney og Laurence Olivier, þeir voru aldrei góðir í Hamlet."

"Kannski er samsetningin á leikurum mikilvæg, t.d. í hlutverk Loveborg og Tessmans í Heddu."

"Ég sé ekki að það ætti að vera, en leikritin virka þótt leikarar séu ekki góðir. Það eru til leikrit sem ganga ekki upp ef aðalpersónan er illa leikin, en Hamlet og Hedda Gabler eru einsog hús, þau standa þrátt fyrir lélegan leik, og þú getur ekki farið að hringla með "strúktúrinn".

"Eru verk Ibsens, líkt og mörg verka Strindbergs, ævisögur í dulargervi?"

"Nei, það held ég ekki. En ég held að Hedda hafi verið Ibsen sjálfur í pilsi, að hluta til. Það var áhugaverður norskur sálfræðingur, kallaður Arne Duve sem er nú látinn, sem sagði að Hedda hefði öll helstu persónueinkenni Ibsens, t.d. óttann við hneyksli og löngun eftir góðu kynlífi, en samt hræddist hann það. Og í Villiöndinni má segja að eitthvað af Ibsen sé í Greigos Veli, maður sem reynir að koma á réttlæti en fær alla upp á móti sér."

"Brúðuheimilið var mjög vinsælt og umdeilt þegar það var frumsýnt, ólíkt Heddu Gabler sem var lengur að komast upp á klassískt plan. En það hlýtur af hafa haft gífurleg áhrif og verið ögrandi á tímum þegar konur áttu erfitt með að fá inngöngu í háskóla og þar fram eftir götunum."

"Jú, og endirinn, þegar Nóra ætlar að yfirgefa manninn sinn og hann spyr; en hvað með börnin? Hún segist þá hafa æðri skyldum að gegna, það er skyldum gagnvart sjálfri sér, að vita hver hún er og að verða sú persóna áður en hún tekur ábyrgð á börnum. Það voru mjög illkvittnar þagnir á milli hjóna það frumsýningarkvöld í denn. Og þetta leikrit virkar enn stórkostlega vel um 120 árum síðar."

"Og sektarkenndin yfir að fara frá börnun er ennþá "mál". Þótt það sé ekki nema að skreppa í kaffi."

"Ó já. Ég hef séð í nokkrum litlum og fátækari leikhúsum að reynt er að skera niður þátt barnanna í verkinu, sem er ekki gott, en þau eru svo mikilvægur hluti af ímynd fjölskyldunnar, uppspretta hamingju, og dramanu að yfirgefa eiginmanninn. Ég hef séð þetta verk í Peking, þar sem allir voru dúðaðir upp og fengu viðeigandi make-up til að líta út einsog Evrópubúar, og kínversk svarthærð börn hlupu inná sviðið með ljósar hárkollur." (hlátur)

"Hefur þú séð margar ólíkar uppsetningar?"

"Ekki svo margar. Þú getur ekki hringlað með þetta, samtölin t.d. eru mjög "akkúrat". Þú getur sett persónur Shakespeare í nútíma klæðnað, en ekki persónur Ibsens, þær hæfa betur í sínum rétta tíma en eru ekkert lakari fyrir það."

"Hann skrifaði eftir beiðni, annan og jákvæðari endi á Brúðuheimilinu fyrir þýskt leikhús, sem svo virkaði ekki. Gerði hann það við fleiri leikrit, t.d. "Konan við hafið" sem hefur jákvæðan endi?"

"Nei, það gerði hann ekki, en hann vildi láta "Konuna við hafið" enda svona. En endirinn er ekki algjörlega jákvæður, þar er hjónaband með möguleika til að verða hamingjusamt, það er von, von sem er í endinum."

"Leikritið þitt, Meeting in Rome, fjallar um ímyndaðan fund Ibsens og Strindbergs. Hvers vegna hittust þeir aldrei?"

"Strindberg hélt því fram að Ibsen hafi hæðst að sér með Brúðuleikhúsinu. Kona Strindbergs hafði þá nýlega farið frá honum, og Strindberg hélt því jafnvel fram að Ibsen hafi byggt leikrit sitt á óförum hans. Strindberg taldi femínista hafa eyðilagt hjónaband sitt og Ibsen væri þ.a.l. óvinur. Hann hafði engan áhuga á að hitta hann eftir það."

"Eitt að lokum, nú ert þú að koma til Íslands, og ég verð að spyrja þig hvort þú hafir lesið Íslendingasögurnar og hvort einhver hafi lesið þær í þínum kunningjahópi hér í Englandi."

"Já, ég las þær eitthvað, en þær voru ekki svo mikið lesnar almennt. Ibsen gluggaði í þær. Frábærar bókmenntir. En þetta er ekki góður árstími á Íslandi eða hvað?"

"Ekki svo slæmur."

"Ég kem með húfu."

TEIKNING af Michael Meyer frá 1988 eftir Milein Crosmann.MEÐ Graham Green á Fiji-eyjum árið 1960.MEYER kynnti Graham Green fyrir George Orwell.LJÓSMYND sem Graham Green tók af Meyer á Tahiti á ferð þeirra 1960.MEÐ leikaranum fræga Trevor Howard á æfingu á Föðurnum eftir Stringberg 1964.