"ÞAÐ liggur ljóst fyrir að skoðanir Íslendinga eru ekki sérlega vinsælar í Washington og Bonn, en þar vilja menn bíða og sjá til," er haft eftir Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í Svenska Dagbladet í gær, en þar ræðir hann m.a. aðild Eystrasaltsríkjanna að Atlantshafsbandalaginu, NATO.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti í viðtali við Svenska Dagbladet

Bandaríkin eru mikilvægasta Evrópuríkið Stokkhólmi. Morgunblaðið. "ÞAÐ liggur ljóst fyrir að skoðanir Íslendinga eru ekki sérlega vinsælar í Washington og Bonn, en þar vilja menn bíða og sjá til," er haft eftir Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í Svenska Dagbladet í gær, en þar ræðir hann m.a. aðild Eystrasaltsríkjanna að Atlantshafsbandalaginu, NATO. "En á sérhverjum fundi er ég hef átt með erlendum stjórnmálamönnum hef ég lagt áherslu á nauðsyn þess að Eystrasaltsríkin fái tækifæri í NATO. Annað væri einungis viðurkenning á því að Sovétríkin séu enn við lýði."

Viðtalið er tekið af Elisabeth Crona, blaðamanni við Svenska Dagbladet , en Crona skrifar um málefni Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna fyrir blaðið. Crona kom til Íslands ásamt öðrum sænskum blaðamanni í tilefni af opinberri heimsókn forseta Íslands til Svíþjóðar og birtist viðtalið í gær, á fyrsta degi heimsóknar Ólafs Ragnars. Í viðtalinu byrjar Ólafur Ragnar á að ræða íslenska náttúru og þann kraft, sem í henni býr. Þeim krafti vilji hann gjarnan beina inn í norræn stjórnmál. Hann bendir á að í Norður-Evrópu ríki nú aðstæður, sem geti gert norræna samvinnu mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Í gegnum svæðaráðin þrjú, Barentshafsráðið, Eystrasaltsráðið og Norðurheimskautsráðið geti Norðurlönd myndað tengsl við Rússland og Bandaríkin á nýjum sviðum. Til að mynda sé augljóst að umhverfismál verði tekin fyrir á þessum vettvangi. Forseti Íslands lagði jafnframt, að sögn blaðsins, mikla áherslu á hlutverk Íslands í NATO. Í sumar heimsótti hann Eystrasaltslöndin þrjú, þar sem hann segir að boðskapur sinn hafi verið: "Þið eigið grundvallarrétt á að verða aðilar að NATO." Það er þetta sjónarmið Íslendinga, sem hann segir ekki njóta mikilla vinsælda hjá stjórnvöldum í Bandaríkjunum og Þýskalandi. Engin efnahagsleg rök fyrir aðild Íslands að ESB Forseti Íslands vísar því hins vegar aðspurður á bug að Noregur og Ísland séu utangarðs þar sem ríkin eigi ekki aðild að Evrópusambandinu. "Þetta eru pólitísk rök. Það eru hins vegar engin efnahagsleg rök sem mæla með aðild okkar að ESB. Íslendingar eiga aðild að innri markaðnum. Efnahagurinn stendur með blóma. Við eigum aðild að sjávarútvegsfyrirtækjum um allan heim. Það væri erfiðara ef við værum aðilar að ESB." "Mikilvægasta Evrópuríkið er Bandaríkin," segir Ólafur Ragnar, sem sænski blaðamaðurinn bendir á að sé "maðurinn, sem í átta ár var leiðtogi Alþýðubandalagsins". Ólafur Ragnar bendir síðan á málefni Balkanskaga, Norður-Írlands og Rússlands sem rök fyrir því að evrópskir raunsæismenn verði að viðurkenna mikilvægt hlutverk Bandaríkjanna. Lýðræðislegt umboð forseta til að ræða mál sem eru efst á baugi Blaðamaðurinn nefnir að tveggja tíma viðtal við forsetann hafi að miklu leyti snúist um stjórnmál. Crona spyr hvort forseti Íslands sé ekki samkvæmt stjórnarskránni hafinn yfir stjórnmál og bendir á að Ólafur Ragnar hafi verið gagnrýndur fyrir að þenja þau mörk til hins ýtrasta. "Ég er kosinn beinni kosningu af þjóðinni (eftir harða kosningabaráttu) og hef því lýðræðislegt umboð. Það er ekki til nein ein uppskrift að starfssviði mínu. En ef forseti tekur ekki þátt í þeim umræðum, sem snerta fólk gæti það spurt: Hvaða tilgangi þjónar hann?" Að sögn blaðsins álítur Ólafur Ragnar að önnur heimsmynd sé ríkjandi en þegar þrír fyrstu forsetar lýðveldisins gegndu embætti og það hafi einnig átt við um upphaf embættistíma Vigdísar Finnbogadóttur. Nú sé aukinn vilji fyrir því að forseti gegni víðtækara hlutverki. Blaðið bendir á að forsetinn geti stutt sig við síðustu skoðanakönnun, sem bendir til þess að 87 prósent landsmanna séu ánægð með embættisstörf forsetans. Í lokin víkur talinu að andláti Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar, þar sem Ólafur Ragnar segir að þátttaka hennar í forsetastarfinu hafi bæði verið henni og þjóðinni mikilvæg. Þau hafi tekið þetta að sér í sameiningu, en nú verði hann að sinna starfinu einn. Andlát hennar hafi haft mikil áhrif á sig og hver einasta sekúnda sé sér dýrmæt. "Það veit enginn fyrr en að kveldi dags hvernig dagurinn verður," segir forsetinn að lokum.