Greiðslustöðvun Dags og Dagsprents lokið: Dagsprent yfirtekur rekstur Dags DAGSPRENT hf. mun taka yfir rekstur dagblaðsins Dags og hlutafé í Dagsprenti verður aukið verulega.

Greiðslustöðvun Dags og Dagsprents lokið: Dagsprent yfirtekur rekstur Dags

DAGSPRENT hf. mun taka yfir rekstur dagblaðsins Dags og hlutafé í Dagsprenti verður aukið verulega. Þetta var niðurstaðan eftir að fimm mánaða greiðslustöðvun fyrirtækjanna er runnin út. Stjórn KEA hefur samþykkt að leggja fram aukið hlutafé, en KEA er stærsti hluthafinn í Dagsprenti. Hluthafafundur Dagsprents verður haldinn næsta laugardag og þar verður tekin afstaða til hlutafjáraukningarinnar.

Hlutafé Dagsprents hf. er nú rúmar 23 milljónir króna og á Kaupfélag Eyfirðinga þar um 55% hlut, en auk þess eiga á annað hundrað einstaklingar hlut í fyrirtækinu og verður þeim gefinn kostur á að auka það auk þess sem nokkur hluti verður boðinn til sölu á almennum markaði. Í drögum að samningi milli Dags og Dagsprents hf. er gert ráðfyrir að núverandi eigendur Dags, Framsóknarfélag Akureyrar og Framsóknarfélag Eyjafjarðar, fái hlut sinn í blaðinu greiddan með hlutabréfum í Dagsprenti hf. en endanleg ákvörðum um þau mál er háð samþykki félaganna.

Í fréttatilkynningu frá Sigurði Jóhannessyni stjórnarformanni fyrirtækjanna segir að á greiðslustöðvunartímabilinu hafi allra leiða verið leitað til að tryggja áframhaldandi rekstur Dags og Dagsprents hf. og hafi þar m.a. verið gerðar ítarlegar tilraunir til að selja húseignir fyrirtækjanna við Strandgötu, en án árangurs. Þrátt fyrir væntanlega hlutafjáraukningu verður áfram reynt að selja hluta af húseignum fyrirtækjanna, því skuldir fyrirtækjanna eru enn mjög miklar.

Með þeim breytingum sem gerðar verða, ásamt þeim ráðstöfunum sem gripið var til í lok ársins 1988 telja stjórnir fyrirtækjanna sig hafa treyst reksturinn og samkvæmt 9 mánaða uppgjöri beggja fyrirtækjanna hefur afkoman batnað mikið frá fyrra ári, segir í fréttatilkynningunni.