Skoðanakönnun á meðal framsóknarmanna: Þórarinn líklegur í eitt af efstu sætunum EFNT var til skoðanakönnunar á meðal Framsóknarmanna á Akureyri um helgina, en þar voru flokksbundnir framsóknarmenn beðnir um að skrifa 6 nöfn manna er þeir vilja sjá á...

Skoðanakönnun á meðal framsóknarmanna: Þórarinn líklegur í eitt af efstu sætunum

EFNT var til skoðanakönnunar á meðal Framsóknarmanna á Akureyri um helgina, en þar voru flokksbundnir framsóknarmenn beðnir um að skrifa 6 nöfn manna er þeir vilja sjá á lista flokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í maí. Uppstillingarnefnd, sem skipuð er 9 mönnum, hefur enn ekki farið yfir seðlana, en það mun væntanlega verða gert nú í vikunni.

Sigurður Jóhannesson sem skipaði fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar hefur gefið út þá yfirlýsingu að hann gefi ekki kost á sér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn Akureyrar. Úlfhildur Rögnvaldsdóttir sem var í öðru sæti listans kvaðst ætla að meta það eftir útkomu skoðanakönnunarinnar hvort hún myndi áfram gefa kost á sér til setu í bæjarstjórn.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er talið líklegt að Úlfhildur Rögnvaldsdóttir verði í einhverju af efstu sætum listans, en einnig var Þórarinn E. Sveinsson mjólkursamlagsstjóri nefndur þar til sögunnar. Þá nefndu menn einnig þær Kolbrúnu Þormóðsdóttur kennara og Sigfríði Þorsteinsdóttur tækniteiknara, en Kolbrún hefur verið varabæjarfulltrúi og Sigfríður sat eitt kjörtímabil í bæjarstjórn fyrir Kvennalistann.

Aðrir sem nefndir voru á nafn voru Guðmundur Stefánsson framkvæmdastjóri Ístess og Björn Snæbjörnsson varaformaður Einingar. Einn þeirra sem rætt var við í gær sagði að áhugi væri fyrir því að fá ungt fólk í eitthvað af efstu sætunum. Úr yngri deildinni voru helst nefndir þeir Sigfús Karlsson formaður Félags ungra framsóknarmanna, Bragi Bergmann ritstjóri Dags, Bjarni Hafþór Helgason sjónvarpsstjóri Eyfirska sjónvarpsfélagsins og Þorsteinn Sigurðsson verkfræðingur.