Landgræðsluskógar ­ átak 1990 hafið: Veldur straumhvörfum í gróðursögu Íslands ­ segir Hulda Valtýsdóttir formaður Skógræktarfélags Íslands HAFIÐ er eitt mesta átak hérlendis í landgræðslu og skógrækt sem um getur; "Landgræðsluskógar ­ átak 1990".

Landgræðsluskógar ­ átak 1990 hafið: Veldur straumhvörfum í gróðursögu Íslands ­ segir Hulda Valtýsdóttir formaður Skógræktarfélags Íslands

HAFIÐ er eitt mesta átak hérlendis í landgræðslu og skógrækt sem um getur; "Landgræðsluskógar ­ átak 1990". Í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Íslands ganga til samstarfs við félagið Skógrækt ríkisins, Landgræðsla ríkisins og landbúnaðarráðuneytið um það verkefni að gróðursetja næsta vor um eina og hálfa milljón trjáplantna í gróðursnautt en friðað land, auk annarra gróðurbætandi aðgerða. Forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, er verndari átaksins.

Átakið "Landgræðsluskógar ­ átak 1990" var formlega hafið við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum síðastliðinn sunnudag. Fjöldi gesta var viðstaddur; forseti Íslands og ráðherrar. Kammersveit Reykjavíkur lék íslensk þjóðlög og Magnús Þór Sigmundsson söng lag sitt "Ísland er land þitt" við texta Margrétar Jónsdóttur, en það hefur verið valið einkennislag átaksins.

Átak þetta hefur lengi verið í undirbúningi og er því hleypt af stokkunum í tilefni af 60 ára afmælis Skógræktarfélags Íslands. Skógræktarfélagið er sambands félag allra félaga áhugamanna um skógrækt á Íslandi. Félagar eru um 7.000 talsins.

Breiðfylking í land-

græðslu og skógrækt

Hulda Valtýsdóttir, formaður Skógræktarfélagsins, setti dagskrána á Kjarvalsstöðum. Í máli hennar kom fram að átakinu væri ætlað að valda straumhvörfum í gróðursögu landsins. Hulda fagnaði því samstarfi sem tekist hefði um þetta verkefni með Skógrækt og Landgræðslu ríkisins og ráðuneyti; mörkuð hefði verið með þessu farsæl stefna í skógræktarmálum og aldrei hefði önnur eins breiðfylking tekið sig saman í landgræðslu og skógrækt.

Til að tryggja árangur átaksins veður starfandi sérstök fagnefnd, skipuð vísindamönnum, sem hafa valið landsvæði í samráði við heimamenn á hverjum stað og leggja á ráðin, hvernig unnið skal að uppgræðslu landgræðsluskóg anna. Alls hafa verið valin 73 svæði um land allt, þar sem nýir skógar munu vaxa upp í gróður snauðu og blásnu landi.

Að sögn Huldu verður lögð höfuðáhersla á það að virkja sem flesta við plöntunina næsta vor. Helst alla þjóðina. Ekki þurfi aðeins marga sjálfboðaliða, heldur ekki síður að auka skilning á skógrækt og landgræðslu.

Höfðingleg framlög

Undirbúningur verkefnisins hefur staðið lengi og margir lagt hönd á plóginn. Sagði Hulda erfitt að taka einstaka aðila út úr, þegar þakkir væru veittar. Hún vildi þó þakka sérstaklega höfðinglega gjöf Eimskipafélags Íslands, í tilefni 75 ára afmælis þess á síðasta ári. Þakkir færði hún Fuji-umboðinu á Íslandi, sem hefði kostað gerð 7 kynningar mynda, sem sýndar verða í Ríkissjónvarpinu í vetur. Auk þess mun átakið fá 10 krónur af hverri Fuji-filmu, sem umboðið selur á átaksárinu. Hulda gat einnig höfðinglegs framlags Ólafíu Jónsdóttur á síðastliðnu ári, en hún gaf 7,6 milljónir til félagsins. Sérstakar þakkir færði Hulda verndara átaksins, Vigdísi Finnbogadóttur. Sagði hún það ekki síst forsetanum að þakka hversu góður hljómgrunnur hefði fengist fyrir þetta átak.

Hulda kvaðst vona að ársins 1990 yrði minnst fyrir þetta átak. Þó mætti ekki láta þar staðar numið; árangur væri takmarkaður ef framhaldið væri ekki tryggt. Átakið yrði að vera upphafið að aukinni ræktun landgræðsluskóga.

Sex plöntur á mann

Í ávarpi sínu sagði Steingrímur J. Sigfússon landbúnaðarráðherra að samtökin stæðu í samstarfi við þjóðina alla í mesta átaki sinnar tegundar; áætlað væri að gróðursetja sex plöntur á hvert mannsbarn. "Ég er bjartsýnn á það að Íslendingar séu nú að komast úr þeirri stöðu að tala um hlutina í það að framkvæma hlutina. Umræðan er ein og sér góð en framkvæmdin er mun mikilvægari."

Steingrímur gat þess að hugmyndir væru uppi um það í samgönguráðuneytinu að helga komandi áratug samgöngumálum. Steingrímur taldi að ef til vill væri vert að víkka þetta út og helga áratuginn umhverfi landsins í víðtækum skilningi; samgöngum, umhverfi og landgræðslu.

Steingrímur kvaðst mæla fyrir munn allrar ríkisstjórnarinnar þegar hann segði ríkisstjórnina vera sérlega hlynnta þessu átaki og að menn vonuðust til að átakið myndi leiða til "þjóðarsáttar um landrækt."

Samvinna Landgræðslu

og Skógræktar

Sigurður Blöndal fráfarandi skógræktarstjóri rakti í erindi sínu stuttlega sögu Skógræktar og Landgræðslu ríkisins. Stofnanir þessar hefðu nú aukið samvinnu sín á milli og þeirra sameiginlega stefna væri gróðurvernd. Skógrækt ríkisins ætlaði nú að taka höndum saman við Landgræðsluna og rækta skóg á lítið eða ógrónu landi og Landgræðslan ætlaði að nota tré við uppgræðslu jarðvegs. Landgræðslan hefði í hyggju að nota þá miklu áburðarverksmiðju sem lúpínan væri í þágu skógræktar. Skógræktin myndi fyrst og fremst nota björk ina við landgræðsluna, en einnig aðrar trjátegundir.

Hugarfarsbreyting

mesti árangurinn

Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri, taldi nú eiga sér stað þáttaskil í skógrækt og landgræðslu í landinu. Aðilar þeir sem að þessu ynnu hefðu sömu rætur og sömu markmið. Markmiðið væri það að kjarrlendi og gróður yrðu ríkjandi á ný. "Með gróðursetningu landgræðslutrjáa er verið að stytta ferilinn frá örfoka landi til þess búnings sem landinu hæfir," sagði Sveinn. "Árangur inn ræðst af því hvað við viljum leggja af mörkum og hann er ekki aðeins mældur í fjölda plantna eða stærð svæðis, heldur hvort tekst að ná fram þeirri hugarfarsbreytingu að þjóðin læri að umgangast og meta gróður landsins."

Hulda Valtýsdóttir, formaður Skógræktarfélags Íslands.

Magnús Þór Sigmundsson syngur "Ísland er land þitt", sem valið hefur verið einkennis lag átaksins "Landgræðslu skógar ­ átak 1990."

Fundargestir syngja "Ég vil elska mitt land".