Austur-þýska stjórnarandstaðan áhyggjufull vegna endurreisnar "Stasi": Útifundur í Leipzig krefst sameiningar Þýskalands Leiðtogi repúblikana fær ekki að fara inn í Austur-Þýskaland Austur-Berlín. Reuter.

Austur-þýska stjórnarandstaðan áhyggjufull vegna endurreisnar "Stasi": Útifundur í Leipzig krefst sameiningar Þýskalands Leiðtogi repúblikana fær ekki að fara inn í Austur-Þýskaland Austur-Berlín. Reuter. HINIR reglulegu útifundir í Leipzig í Austur-Þýskalandi hófust að nýju í gær eftir nokkurra vikna hlé. Talið er að um 150.000 manns hafi tekið þátt í mótmælunum sem beindust einkum gegn ríkisstjórn landsins þar sem kommúnistar ráða enn lögum og lofum. Meginkrafan á fundinum var um sameiningu Þýskalands.

Viðræður austur-þýsku ríkisstjórnarinnar með kommúnista í farabroddi og stjórnarandstöðunnar fóru næstum út um þúfur í gær vegna deilna um það hvort öryggislögregla landsins, "Stasi" eins og hún er nefnd í daglegu tali, hefði í raun verið lögð niður. Stjórnarandstaðan hótaði að draga sig út úr viðræðunum ef Hans Modrow forsætisráðherra kæmi ekki þegar ístað á fundinn og sæti fyrir svörum um afdrif öryggislögreglunnar illræmdu. En þegar í ljós kom að Modrow var í Sófíu, höfuðborg Búlgaríu, á fundi Comecon dró stjórnarandstaðan í land. Ákveðið var að hefja næstu viðræðulotu 15. janúar.

Stjórnarandstaðan krefst þess að fá sannanir fyrir því að öryggislögreglan hafi verið upprætt. Margt bendir til þess að víða í AusturÞýskalandi séu enn fyrir hendi bækistöðvar og hergögn öryggislögreglunnar sem hægt væri að taka í notkun að nýju með skömmum fyrirvara. Einnig grunar stjórnarandstæðinga að hatursáróður undanfarinna daga gegn nýnasistum hafi þann tilgang að réttlæta endurreisn öryggislögreglunnar. Peter Koch, opinber embættismaður sem hefur umsjón með upprætingu öryggislögreglunnar, viðurkenndi í gær að ennþá væru 60.000 fyrrverandi starfsmenn hennar á launaskrá en 25.000 hefði verið sagt upp.

Franz Schönhuber, leiðtogi hins þjóðernissinnaða flokks repúblikana í Vestur-Þýskalandi, fékk ekki að fara til Austur-Þýskalands í gær á þeirri forsendu að hann hefði tekið þátt í fasískri starfsemi. Einarður stuðningur Schönhubers við sameiningu þýsku ríkjanna hefur mikið verið gagnrýndur í Austur-Þýska landi og uppgangur repúblikana í Vestur-Þýskalandi óspart verið notaður í til að útmála hættuna sem stafaði af sameiningu.

Reuter

Frá viðræðum austur-þýsku stjórnarandstöðunnar og ríkisstjórnar kommúnista og fylgiflokka þeirra. Litlu munaði að viðræðurnar færu út um þúfur í gær vegna þess að stjórnarandstöðunni fannst hún ekki fá skýr svör um hvernig gengi að leysa upp hina illræmdu öryggislögreglu landsins.