Bretland: Leysibyssa flotans veldur deilum Varnarmálayfirvöld í Bretlandi telja að fjölmiðlaumfjöllunin dragi úr áhrifamætti vopnsins. St. Andrews. Frá Guðmundi Heiðari Frímannssyni, fréttaritara Morgunblaðsins.

Bretland: Leysibyssa flotans veldur deilum Varnarmálayfirvöld í Bretlandi telja að fjölmiðlaumfjöllunin dragi úr áhrifamætti vopnsins. St. Andrews. Frá Guðmundi Heiðari Frímannssyni, fréttaritara Morgunblaðsins. SPÆNSKUR blaðamaður upplýsti í síðustu viku, að leysibyssa væri á að minnsta kosti einni af freigátum brezka flotans. Brezk blöð birtu upplýsingar um byssuna um helgina. Varnarmálayfir völd í Bretlandi telja að fjölmiðlaumfjöllunin dragi úr áhrifamætti vopnsins.

Brezkum blöðum hafði verið kunnugt um það í heilt ár að leysi byssur væru á freigátum flotans. En þau höfðu farið að tilmælum varnarmálayfirvalda um að segja ekki fréttir af þeim. Spænski blaðamaðurinn var um borð í freigátunni Coventry í nóvember sl., þar sem hún var við æfingar í Miðjarðarhafinu á vegum NATO. Þá gleymdist að hylja byssuna, þegar haldið var til hafnar, og náði blaðamaðurinn mynd af henni.

Leysibyssan er notuð gegn flugvélum til að blinda flugmanninn um stund og koma í veg fyrir að hann geti beint vopnum sínum að skipinu. Brezk yfirvöld neita því, að byssan geti skaðað sjón flugmannanna.

Byssan var á freigátum á Persaflóa og brezkir flotaforingjar telja hana nauðsynlegan varnarbúnað skipa sinna. Þeir segja líka að umfjöllun fjölmiðla um byssuna komi í veg fyrir að hún geti haft áhrif. Það er einfalt að setja síur eða skerma á flugvélar til að skýla þeim fyrir leysigeislanum.

Talsmenn Verkamannaflokksins hafa mótmælt því, að flotinn hafi tekið í notkun leysibyssur. Þeir segja þær auka á vígbúnaðarkapphlaupið. Þeir benda einnig á, að Bandaríkin og Sovétríkin hafi gert með sér samkomulag, sem hafi gengið í gildi um áramótin, um bann við notkun leysigeisla, sem gætu skaðað flugmenn. En samkomulagið var gert, eftir að bandarískir flugmenn sögðust hafa orðið fyrir leysigeislum, þegar þeir voru að fylgjast með æfingum sovézka flotans á Svartahafi.