Innrás Bandaríkjanna í Panama: Samsæri þagnarinnar um fjölda látinna ­ segir fyrrum ríkissaksóknari í Bandaríkjunum Washington. Reuter.

Innrás Bandaríkjanna í Panama: Samsæri þagnarinnar um fjölda látinna ­ segir fyrrum ríkissaksóknari í Bandaríkjunum Washington. Reuter.

RAMSEY Clark, fyrrverandi ríkissaksóknari í Bandaríkjunum, heldur því fram að háttsettir embættismenn standi fyrir samsæri þagnarinnar um þá óþægilegu staðreynd að a.m.k. þúsund manns hafi fallið í innrás Bandaríkjamanna í Panama. Jesse Jackson, einn af leiðtogum blökkumanna í Bandaríkjunum, segir að a.m.k. 1.200 óbreyttir borgarar hafi fallið í innrásinni. Jackson segir að það séu fleiri létust þegar kínversk yfirvöld brutu mótmæli á bak aftur á Torgi hins himneska friðar í júní síðastliðnum.

Brent Scowcroft, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, og Lawrence Eagleburger, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafa andmælt þessum ásökunum. Eagleburger segir að þegar hann heimsótti Panama í síðustu viku hafi bandarísk heryfirvöld talið að samtals 400 Panamabúar hafi fallið í innrásinni 20. desember, hermenn og óbreyttir borgarar. Scowcroft sagðist aðspurður ekki vita með vissu hversu margir óbreyttir borgarar hefðu fallið og dró í efa að Clark væri betur að sér. Bandaríski herinn segir að 23 bandarískir hermenn hafi fallið í árásinni, 300 panamískir hermenn og 250 óbreyttir borgarar.

Clark var ríkissaksóknari í forsetatíð Lyndons B. Johnsons á miðjum sjöunda áratugnum. Hann fór til Panama nú um helgina að beiðni ýmissa mannréttindasamtaka og sagðist hafa heyrt talað um að allt að 7.000 óbreyttir borgarar hefðu fallið. Í máli Clarks kom fram að erfitt væri að meta manntjón því heilu hverfin í Panama-borg hefðu verið lögð í rúst. Hann nefndi einnig að 12.000 manns hefðu misst heimili sín í innrásinni.