Stormasamur stjórnarfundur Sambandsins: Þeir sem urðu undir reifuðu möguleika á greiðslustöðvun AGNES BRAGADÓTTIR GUÐJÓN B.

Stormasamur stjórnarfundur Sambandsins: Þeir sem urðu undir reifuðu möguleika á greiðslustöðvun AGNES BRAGADÓTTIR

GUÐJÓN B. Ólafsson, forstjóri Sambands íslenskra samvinnufélaga, er tvímælalaust sigurvegarinn í þeim átökum sem staðið hafa innan stjórnar Sambandsins um söluna á hlut Sambandsins í Samvinnubankanum til Landsbankans. Þetta er óhætt að fullyrða, þótt sigurinn hafi ekki getað verið naumari, þar sem niðurstaðan í atkvæðagreiðslunni á sunnudag varð sú að fimm greiddu atkvæði með sölunni og fjórir voru henni andvígir. Þetta er talið verða til þess að forstjórinn muni í framtíðinni hafa betra næði til þess að stjórna fyrirtækinu og meira svigrúm til breytinga og endurskipulagningar.

Það er ýmislegt sem kemur á óvart, þegar skyggnst er á bak við tjöldin, frá því stjórn Sambandsins kom saman til fundar á hádegi á föstudag, þar til fundi lauk á sunnudag. Eftir að fyrir lá á föstudegi að tvísýnt væri með niðurstöðu í atkvæðagreiðslu um málið, vildu þeir sem voru sölunni fylgjandi fresta fundinum til sunnudags, svo ráðrúm gæfist til frekari könnunarviðræðna, samráðs við ríkisstjórnina og áframhaldandi tilrauna til þess að vinna sölunni aukið fylgi innan stjórnarinnar.

Það var ekki fyrr en á laugardag, eftir að fimm manna nefnd úr stjórn Sambandsins hafði fundað með fulltrúum ríkisstjórnarinnar, sem línur fóru að skýrast, hvað varðaði afstöðu manna. Þessi fimm manna nefnd var valin á stjórnarfundinum á föstudag og þeir sem skipuðu hana voru þeir Ólafur Sverrisson, formaður stjórnarinnar, Þorsteinn Sveinsson, varaformaður, Hörður Zophaníasson, ritari, Guðjón B. Ólafsson, forstjóri, og Þröstur Ólafsson.

Fyrir ofangreindan fund með fulltrúum ríkisstjórnarinnar munu þau sjónarmið hafa komið fram hjá þeim Þorsteini og Gunnari Sveins sonum og Jónasi R. Jónssyni að úr því sem komið væri, væri réttast að sýna þjóðinni fram á hvaða afleiðingar það hefði í för með sér að setja Sambandið á hausinn eða setja það í greiðslustöðvun. Þeir munu hafa látið í ljós þá skoðun að ef slík hótun væri sett fram þá myndi ríkisstjórnin verða skjót tilað útvega Sambandinu, einum af stærri skuldurum þjóðarinnar, ríkisábyrgð.

Á fundinum með ríkisstjórninni fengu stjórnarmenn Sambandsins aftur á móti þær upplýsingar að til ríkisstjórnarinnar væri ekkert að sækja í þessum efnum. Sambandið gæti í engu reitt sig á ríkisstjórnina. Öldungis óvíst væri að meirihluti stjórnarliða vildi samþykkja að veita Sambandinu ríkisábyrgð og enn meiri óvissa væri um hvaða undirtektir slík málaleitan fengi á Alþingi. Spurðu ráðherrar þá Sambandsmenn hvort erlendir lánardrottnar myndu halda að sér höndum og hafa biðlund á meðan kannað væri hvort möguleiki væri á ríkisábyrgð. Þá mun hafa verið fátt um svör.

Stjórnarmönnum kom það spánskt fyrir sjónir, að allan fund artímann, bæði á föstudag og sunnudag, tók Birna Bjarnadóttir aldrei til máls, né gerði hún afstöðu sína opinbera. Allir aðrir stjórnarmenn tóku til máls á fundinum og flestir oftar en einu sinni. Var þögn Birnu túlkuð á þann veg að hún hefði ákveðið að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna, en svo varð ekki. Hún greiddi atkvæði á móti sölunni. Aðrir sem voru á móti voru bræðurnir Þorsteinn og Gunnar Sveinssynir, og Jónas R. Jónsson.

Þeir sem greiddu atkvæði með sölunni voru Ólafur Sverrisson, Hörður Zophaníasson, Þröstur Ólafsson, Helga V. Pétursdóttir og Þórarinn Sigurjónsson. Samkvæmt mínum upplýsingum frá stjórnarmönnum Sambandsins, þá snerist þeim Helgu, Ólafi og Þórarni hugur frá föstudagskvöldinu fram á sunnudagsmorgun, því stjórnarmenn telja að þegar ákveðið varað fresta fundinum, hafi einungis tveir verið því hlynntir að ganga að tilboði Landsbankans upp á 605 milljónir króna.

Guðjón B. Ólafsson var ómyrkur í máli í orðum sínum við Steingrím Hermannsson forsætisráðherra á fundinum, vegna ummæla forsætisráðherra í Morgunblaðinu sl. laugardag. Þar sagði ráðherrann í samtali við mig "að hann teldi að ef tilboðið yrði fellt, gæti það haft í för með sér gjaldfellingu erlendra skulda.

Forsætisráðherra sagðist telja að ef erlendir lánardrottnar Sambandsins töpuðu jafnvel milljörðum króna, við það að gjaldfella skuldir Sambandsins, sem eru að mestu án trygginga, hefði slíkt óskapleg áhrif á þau lánskjör sem Ísland nýtur erlendis. "Ég held að þegar svona er orðið, þá geti ríkisvaldið aldrei litið framhjá því að öllu leyti," sagði Steingrímur."

Guðjón gagnrýndi forsætisráðherra harðlega og kvaðst telja að slík ummæli úr munni forsætisráðherra Íslands gætu verið íslenskum viðskiptahagsmunum stórskaðleg.

Það var ekki fyrr en að afloknum þessum fundi á laugardeginum sem línur höfðu skýrst þannig að líkur voru taldar á því að meirihluti hefði myndast í stjórn Sambandsins fyrirþví að taka tilboði Landsbankans. Það var þó engan veginn talið öruggt fyrr en á sunnudeginum.

Niðurstaða stjórnarfundarins á sunnudag er talin fela það í sér að Guðjón hafi nú fengið viðspyrnu til þess að endurskipuleggja fjármál og rekstur Sambandsins. Hann hafi fengið vilyrði fyrir því að selja hlut Sambandsins í Íslenskum aðalverktökum og þannig er talið að fjármagn ætti að nást sem dugi til. Á fundinum var jafnframt samþykkt tillaga Þrastar Ólafssonar þess efnis að forstjóra væri falið að leggja fyrir næsta stjórnarfund greinargerð um reksturinn og framtíðarskipulag félagsins. Ekki hefur verið ákveðið hvenær stjórnin kemur næst saman en ekki er talið ólíklegt að það verði innan tíðar.