Sverrir Hermannsson: "Stefna okkar óbreytt að kaupa allan bankann" SVERRIR Hermannsson, bankastjóri Landsbankans, segist fagna því að menn hafi náð landi, enda þótt sér sýnist á yfirlýsingu og samþykkt Sambandsins að eitthvað muni á skorta.

Sverrir Hermannsson: "Stefna okkar óbreytt að kaupa allan bankann"

SVERRIR Hermannsson, bankastjóri Landsbankans, segist fagna því að menn hafi náð landi, enda þótt sér sýnist á yfirlýsingu og samþykkt Sambandsins að eitthvað muni á skorta. Þetta sagði bankastjórinn þegar hann var spurður álits á samþykkt stjórnar Sambandsins að taka tilboð Landsbankans í hlut Sambandsins í Samvinnubankanum.

"Við hér í Landsbankanum búum okkur nú undir það að Samvinnubankinn, þótt við eignumst meirihluta hlutabréfa, verði fyrir sem minnstri röskun í bili, bæði vegna viðskiptavina hans og einkum og sér í lagi vegna starfsfólksins," sagði Sverrir. "Stefna okkar er óbreytt, að kaupa allan bankann. Fljótlega kunnum við að fara að ræða um hagræðingu úti á landi, eftir því sem kostur er á," sagði Sverrir.

Sverrir sagði að þetta væri að því leytinu vænlegri leið, að nú gæfist meiri tími til þess að hagræða vegna starfsfólksins en áður var reiknað með. Hann sagði að Landsbankinn myndi leggja mikla áherslu á að Samvinnubankinn héldi sínu góða trausti.