: Innköllun hafin á hlutafé í Stöð 2 STJÓRN Íslenska sjónvarpsfélagsins hefur hafið innköllun á þeirri 400 milljóna hlutafjáraukningu sem samþykkt var um áramótin. Stefnt er að því að innkölluninni verði lokið fyrir næstu mánaðamót.

: Innköllun hafin á hlutafé í Stöð 2

STJÓRN Íslenska sjónvarpsfélagsins hefur hafið innköllun á þeirri 400 milljóna hlutafjáraukningu sem samþykkt var um áramótin. Stefnt er að því að innkölluninni verði lokið fyrir næstu mánaðamót.

Þorvarður Elíasson varaformaður Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. og eignarhaldsfélags Verslunarbankans sagði við Morgunblaðið að eignarhaldsfélagið væri byrjað að greiða það hlutafé sem það skráði sig fyrir, 250 milljónir króna. Þorvarður sagði að fyrri aðaleigendur Stöðvar 2 hefðu tilkynnt sér á föstudag að þeir væru tilbúnir með það hlutafé sem þeir skráðu sig fyrir, samtals 150 milljónir. Í gær hefði komið í ljós að svo virtist ekki vera en þeir hefðu hafið viðræður við stjórn hlutafélagsins um greiðslur.

Hans Kristján Árnason, ritari stjórnar Íslenska sjónvarpsfélagsins og einn þriggja fyrri aðaleigenda Stöðvar 2 , sagði þá hafa ítrekað að þeir hefðu gengið frá hlutafjár undirskrift við félagið eins og samningur þeirra gerði ráð fyrir. Í þeim samningi væri ekki talað um greiðslur heldur miðað við eðlilega inngreiðslu á hlutafé í félögum samkvæmt lögum.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er hlutafjárframlag fyrri aðaleigenda tryggt með sölu á jörðinni Vatnsenda til Reykjavíkurborgar. Hans Kristján sagðist ekkert hafa um það að segja þegar þetta var borið undir hann.

Eignarhaldsfélag Verslunarbankans samþykkti að kaupa eða ábyrgjast sölu á 250 milljóna króna hlutafé. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur hópur kaupmanna og verslana m.a. íhugað að kaupa part af þessu hlutafé. Guðjón Oddsson formaður Kaupmannasamtaka Íslands vildi hvorki játa þessu né neita og Haraldur Haraldsson formaður Félags íslenskra stórkaupmanna gaf sömu svör. Þorvarður Elíasson sagði að mjög margir væru að skoða þetta mál en hann gæti ekki greint frá hverjir það væru á þessu stigi.