Fundað í gær með fulltrúum Alumax FULLTRÚAR bandaríska álfyrirtækisins Alumax áttu fundi í gær með Jóni Sigurðssyni, iðnaðarráðherra, stjórn Landsvirkjunar og fulltrúum iðnaðarráðuneytisins um byggingu álvers hérlendis.

Fundað í gær með fulltrúum Alumax

FULLTRÚAR bandaríska álfyrirtækisins Alumax áttu fundi í gær með Jóni Sigurðssyni, iðnaðarráðherra, stjórn Landsvirkjunar og fulltrúum iðnaðarráðuneytisins um byggingu álvers hérlendis. "Ég tel að það hafi komið í ljós að Alumax-menn hafa raunverulegan áhuga á að kanna til hlítar hugsanlegt samstarf í Atlantal-verkefn inu og munu hitta fulltrúa fyrirtækjanna Gr¨anges og Hoogovens mjög fljótlega," sagði Jón Sigurðsson í samtali við Morgunblaðið í gærkveldi.

Hann sagði að sér litist vel á Alumax sem samstarfsaðila. Fyrirtækið væri traust og væri með mikla álvinnslu í Bandaríkjunum og reyndar líka í Evrópu. Það væri með úrvinnslufyrirtæki í Bretlandi, Hollandi, Frakklandi og Þýskalandi, þannig að aðgangur að Evrópumarkaði væri áhugaverður fyrir það og þar með staðsetning á Íslandi.

Jón sagði að samstarf við evrópsku álfyrirtækin um byggingu og rekstur álvers hefði fyrst og fremst verið rætt, en einnig hefði borið á góma möguleika á að Alumax stæði eitt að byggingu álvers á Eyjafjarðarsvæðinu. Hefði fyrirtækið einnig sýnt þeim möguleika mikinn áhuga.

Annar fundur hefur verið ákveðinn fyrir hádegið í dag. "Ég tel að þetta hafi verið mjög gagnlegur fundur og gagnkvæmur áhugi á frekari viðræðum komið fram," sagði Jón ennfremur.

Morgunblaðið/Þorkell

Frá fundi fulltrúa Alumax og iðnaðarráðherra í Ráðherrabústaðnum síðdegis í gær.