Hafskipsmál: Dómur heimilar að skýrsla Ragnars verði lögð fram SAKADÓMUR Reykjavíkur varð í gær við ósk Jóns Magnússonar, lögmanns Ragnars Kjartanssonar fyrrum stjórnarformanns Hafskips, um að skýrsla, sem Ragnar hefur ritað um meðferð málsins hjá...

Hafskipsmál: Dómur heimilar að skýrsla Ragnars verði lögð fram

SAKADÓMUR Reykjavíkur varð í gær við ósk Jóns Magnússonar, lögmanns Ragnars Kjartanssonar fyrrum stjórnarformanns Hafskips, um að skýrsla, sem Ragnar hefur ritað um meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi, fengist lögð fram í Hafskipsmálinu. Sérstakur ríkissaksóknari, Jónatan Þórmundsson, mótmælti ósk Ragnars en undi ákvörðun dómsins. Eins og kunnugt er höfðu sakadómur og Hæstiréttur áður synjað um framlagningu skýrslunnar. Dómurinn féllst nú á að skýrslan yrði lögð fram þar sem allir ákærðu hefðu fengið tækifæri til að tjá sig um ákæru.

Valdimar Guðnason löggiltur endurskoðandi var í gær yfirheyrður sem vitni í málinu en hann vann skýrslu um efnahag Hafskips og reikningsskil fyrir skiptaráðendur. Jónatan Þórmundsson sérstakur ríkissaksóknari og fulltrúar hans, Páll Arnór Pálsson hrl. og Tryggvi Gunnarsson hdl., beindu spurningum til Valdimars. Meðal fjölmargra atriða sem fram komu var að ákveðið hefði verið að beina sérstakri athygli að milliuppgjöri Hafskips fyrir fyrstu átta mánuði ársins 1984 eftir að á skrifstofu Hafskips hefðu fundist gögn þar sem gerður hefði verið samanburður á því milliuppgjöri sem lagt var fram og annarri útgáfu milliuppgjörs fyrir sama tímabil.

Meðal þess sem ákært er fyrir er að 6 milljóna króna flutningstekjur vegna ferðar Skaftár 6.-17. september 1984 voru taldar tiltekna í milliuppgjöri fyrstu átta mánaða þess árs. Valdimar kvaðst engin rök geta séð fyrir þessari færslu og taldi ólíklegt að um mistök gæti verið að ræða. Með þessu hefðu Hafskipsmenn sýnt efnahag félagsins betri en ella. Um ákærulið vegna tvíbókaðra flutningstekna í milliuppgjörinu sagði Valdimar að við gerð milliuppgjörsins hefði legið fyrir í gögnum félagsins að þarna hefði orðið færsluskekkja. Skekkjan hefði ekki verið leiðrétt.

Valdimar sagði að auk þess að rangt hefði verið að eignfæra gáma sem fengnir hefðu verið ýmist með rekstrar- eða kaupleigu hefðu þessar eignir verið taldar 2,7 milljónum króna verðmætari í ársreikningi 1984 en leigusamningarnir gæfu til kynna.

Meðal þess sem Jón Steinar Gunnlaugsson hrl., lögmaður Helga Magnússonar löggilts endurskoðanda Hafskips, spurði Valdimar umað loknum yfirheyrslum ákæruvaldsins var hvort hann vissi til aðgerð hefði verið vísindaleg könnun á reikningsskilum íslenskra fyrirtækja til að ganga úr skugga um hvaða venjur giltu. Valdimar kvaðst ekki vita til þess. Jón Steinar vitnaði til skýrslu Valdimars fyrir skiptaráðendur um að margar venjur væru gildandi í reikningsskilum, jafnvel um sama atriði, og því verði dómgreind oft að ráða. Valdimar sagði að þarna hefði verið um að ræða tilvitnun í alþjóðlegan staðal. Hann kvaðst ekki vera sammála því að margar venjur væru til um sama atriði en segja mætti að margar aðferðir væru til að sama marki. Lögmaðurinn spurði hvort Valdimar teldi sjálfan sig hafa beitt góðri reikningsskilavenju þegar hann fyrstur íslenskra endurskoðenda lagði 90% af tryggingaverðmæti til grundvallar mati á verðmæti skipa Skagstrendings hf. Valdimar sagðist telja að svo væri og vísaði í því sambandi til heimildar í hlutafélagalögum. Hins vegar hefði þetta ekki verið viðtekin venja. Jón Steinar spurði hvort segja mætti að munur gæti verið á góðri reikningsskilavenju og viðtekinni venju og svaraði Valdimar því játandi.

Í dag heldur Jón Steinar Gunnlaugsson og aðrir verjendur áfram að beina spurningum til Valdimars Guðnasonar.