Hegningarhúsið við Skólavörðustíg: Úrbætur gerðar að tilmælum heilbrigðisráðs Dómsmálaráðuneytið hefur orðið við tilmælum heilbrigðisráðs um úrbætur á húsakynnum hegningarhússins við Skólavörðustíg. Talið er að úrbætur þessar kosti a.m.k. nokkur hundruð...

Hegningarhúsið við Skólavörðustíg: Úrbætur gerðar að tilmælum heilbrigðisráðs Dómsmálaráðuneytið hefur orðið við tilmælum heilbrigðisráðs um úrbætur á húsakynnum hegningarhússins við Skólavörðustíg. Talið er að úrbætur þessar kosti a.m.k. nokkur hundruð þúsunda króna. Varanleg viðgerð á húsinu er hins vegar talin kosta tugi milljóna króna, en engar áætlanir eru um hvenær hún verður framkvæmd.

Á fundi heilbrigðisráðs Reykjavíkur í desember var lögð fram skýrsla heilbrigðiseftirlitsins um hegningarhúsið við Skólavörðustíg. Heilbrigðisráð samþykkti að veita dómsmálaráðuneytinu lokafrest til 1. janúar sl. til að lagfæra gat á gólfi í einum klefa og raka skemmdir í öðrum. Þá var samþykkt að frá og með áramótum yrðu ekki fleiri en tveir fangar vistaðir í þeim klefum, sem áður hýstu þrjá. Frestur var gefinn til 1. febrúar til að bæta viðhald hússins, sérstaklega með tilliti til gólfdúka, málningar og rakaskemmda. Loks var veittur frestur til 1. mars tilað bæta verulega loftræstingu ágangi fyrir framan fangaklefa.

Þorsteinn A. Jónsson, deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu, sagði í samtali við Morgunblaðið að ráðuneytið hefði þegar orðið við tilmælum um viðgerðir á fangaklefunum tveimur. Þá hefði einnig verið orðið við því frá áramótum að tveir fangar væru vistaðir í klefum sem hýstu þrjá áður. "Það olli okkur að vísu vandræðum, því fangelsin hafa verið yfirfull," sagði Þorsteinn. "Nú er verið að vinna að öðrum úrbótum, en það er ekki hægt að lofa því að þeim verði lokið fyrir 1. febrúar og 1. mars. Við getum ekki tæmt húsið, heldur verðum að taka hluta af því fyrir í einu og það tefur verkið."

Þorsteinn sagði að kostnaður við þessar úrbætur næmi að minnstakosti hundruðum þúsunda króna. Kostnaður við úrbætur á loftræstingu væri enn óljós, en það væri sjálfsagt stærsti hluti heildarkostnaðar við úrbæturnar. "Við höfum alltaf sinnt viðhaldi á hegningarhúsinu, en varanleg viðgerð kostar án efa tugi milljóna. Til þess að hún geti farið fram þarf að tæma húsið og þar með finna annan stað fyrir fangana. Það liggur ekki fyrir nú hvenær ráðist verður í viðgerðina, en á þessu ári er alla vega ekki ætlað fé til þess," sagði Þorsteinn A. Jónsson.