SAMLEIKSTÓNLEIKAR Á kammertónleikum, sem haldnir voru á vegum Listasafns Sigurjóns Ólafssonar og fóru fram laugardaginn 6. janúar, voru flutt tríó eftir Mendelssohn og Brahms.

SAMLEIKSTÓNLEIKAR Á kammertónleikum, sem haldnir voru á vegum Listasafns Sigurjóns Ólafssonar og fóru fram laugardaginn 6. janúar, voru flutt tríó eftir Mendelssohn og Brahms. Samleikarar voru Hlíf Sigurjónsdóttir, fiðluleikari, Christian Giger, sellóleikari, og David Tutt, píanóleikari. Á efnisskránni voru píanótríó nr. 1 í d-moll eftir Mendelssohn og fyrsta kammerverkið eftir Brahms, píanótríó í H-dúr op. 8.

Píanótríóið eftir Mendelssohn er sérlega fjörmikið og var leikur flytjenda mjög góður, t.d. í hinu skemmtilega "Scherzo", sem er að því leyti óvenjulegt að í það vantar "tríó-kaflann". Schumann sagði að sem tónskáld væri Mendelssohn "klassískur rómantiker" og víst er að fjörugt og leikandi tónmálið er að innri gerð oft furðulega klassískt, þó bregði fyrir ýmsum sérkennum er minna á píanóverkin Ljóð án orða, t.d. í öðrum þætti verksins "Andandte con molto tranquillo", sem er seiðmagnað í flutningi, einkum hjá sellistanum og ekki síst í áðurnefndu "Scherzo", sem er ekta Mendelssohn, ólíkt öllu sem samið var á þessum tíma þrátt fyrir klassíska tónskipan.

Seinna verkið, H-dúr-tríóið eftir Brahms, var aftur á móti ekki eins vel útfært og fyrra verkið og þó leikur hvers og eins væri á köflum ágætur, vantaði samvirkni í túlkun. Til að nefna dæmi var píanóið allt of sterkt og í raun óþarfi að leika brotna hljóma í Brahms svoað allar nóturnar séu greinilegar, því oft má líta á slíkan tónvefnað sem hljómnið, eins konar undiró man. Fyrir bragðið var of hamrandi blær á þessu verki og strengirnir þurftu oftlega að taka á tilað halda í við píanóið.

Ekki verður á allt kosið því þó tríóið eftir Brahms væri ekki nægilega unnið, svo sem krefjast má af jafn góðum tónlistarmönnum og hér um ræðir, var tríóið eftir Mendelssohn hins vegar mjögvel leikið.