SINFÓNÍUHLJÓMSVEIT ÆSKUNNAR Tónlist Jón Ásgeirsson Á efnisskrá tónleikanna að þessu sinni var eitt verk, Pelléas et Mélisande, tónaljóð eftir Arond Schönberg, sem leikið var bæði fyrir og eftir hlé.

SINFÓNÍUHLJÓMSVEIT ÆSKUNNAR Tónlist Jón Ásgeirsson Á efnisskrá tónleikanna að þessu sinni var eitt verk, Pelléas et Mélisande, tónaljóð eftir Arond Schönberg, sem leikið var bæði fyrir og eftir hlé. Tónaljóð þetta samdi Schönberg við leikverk eftir belgíska rithöfundinn Maeterlinck. Þar er fjallað um ástir bræðra á Mélisande, sem endar á því að eldri bróðirinn (Golaud) og eiginmaður Mélisande drepur þann yngri (Pélléas) en Mélisande deyr af barnsförum. Golaud hefur reynt að fá Mélisande til að fyrirgefa sér áður en hún deyr en hann situr uppi með sorg sína og ógæfu og dóttur, sem er eftirmynd móður sinnar.

Verk Schönbergs er margslungið að gerð og bæði erfitt fyrir flytjendur og hlustendur, enda ekki oft flutt. Sé þetta haft í huga er inntak þessa framtaks Sinfóníuhljómsveitar æskunnar, að flytja þetta einstæða verk, annað og meira en að þjálfa unga hljóðfæraleikara, ekki síður að flytja góða og menntandi tónlist. Ekki nóg með það. Í átökum við svona erfitt viðfangsefni fær unga fólkið hugmynd um getu sína til listrænna átaka sem fylgja mun þeim í starfi alla tíð og ekki síður er þetta sama fólk fullorðnast og fer að sjá um menntun þeirra, sem þá eru ungir og þurfandi fyrir leiðsögn.

Rétt er að hamra vel á því að stjórnandinn, fiðlusnilingurinn Paul Zukofsky, hefur hafið starf Sinfóníuhljómsveitar æskunnar langt upp fyrir það svið að vera aðeins góð æfing fyrir efnilega tónlistarmenn og gert tónleika sveitarinnar að listviðburði, er auðgar íslenskt tónlistarlíf og lyftir því upp úr viðjum vanans, ýtir við samtíðinni svo spurt er: Hví hefur þessi tónlist ekki verið flutt fyrr af þeim er telja sig á því sviði fara fyrir öðrum?

Flutningur sveitarinnar í heild var stórkostlegur, bæði í samspili og í útfærslum á einstaka einleiksstrófum, svo og í túlkun sem bar með sér ótvírætt vald það sem stjórnandinn Paul Zukofsky hefur á torráðnu tónmáli Schönbergs.