Fjármál Kjörvextir teknir upp hjá Iðnþróunarsjóði Vanskil viðskiptamanna hafa vaxið gífurlega STJÓRN Iðnþróunarsjóðs hefur ákveðið að taka upp kjörvexti á öll ný útlán frá og með 1. janúar 1990.

Fjármál Kjörvextir teknir upp hjá Iðnþróunarsjóði Vanskil viðskiptamanna hafa vaxið gífurlega

STJÓRN Iðnþróunarsjóðs hefur ákveðið að taka upp kjörvexti á öll ný útlán frá og með 1. janúar 1990. Sérstakir kjörvextir munugilda fyrir hverja mynt fyrir sig og er gert ráð fyrir þremur álagsflokkum. Vaxtamunur milli flokka verður 0,5%. Samhliða kjörvaxtafyrir komulaginu mun Iðnþróunarsjóður einnig taka upp það nýmæli við stærri lánveitingar að ganga frá sérstökum lánssamningi milli lántaka og sjóðsins þar sem kveðið verður á um helstu atriði sem tengjast lánveitingunni.

"Kjörvextir eru lægstu fáanlegu vextir Iðnþróunarsjóðs, sem bestu og skilvísustu viðskiptavinir sjóðsins greiða af lánum. Aðrir greiða auk þess viðbótarvaxtaálag, sem fer stighækkandi eftir áhættu," sagði Guðmundur Kr. Tómasson, aðstoðarframkvæmdastjóri. "Við lánveitingu er tekin ákvörðun um þann vaxtaflokk, sem lánveitingin kemur til með að vera í, en ekki er gert ráð fyrir að lánið flytjist á milli vaxtaflokka á lánstímanum, nema að veruleg breyting verði á högum lántakanda að mati sjóðsins."

Iðnþróunarsjóður hefur ennfremur tilkynnt um breytingu varðandi gengistryggingu útlána. Verulegur hluti sjóðsins er í erlendum myntum, enda fjármagnaður með erlendu lánsfé. Það fyrirkomulag gilti fram til ársins 1989 um vanskil að gengistrygging útlána var látin halda sér til greiðsludags. Í ársbyrjun 1989 var ákveðið að taka upp til reynslu það fyrirkomulag að afborgunum og vöxtum sem gjaldféllu á árinu var breytt yfir í íslenskar krónur og reiknaðir dráttarvextir á þessi vanskil til greiðsludags ef ekki var greitt á gjalddaga.

Reynsla sjóðsins af þessu fyrirkomulagi hefur ekki verið góð að því er fram kemur í tilkynningu Iðnlánasjóðs. Vanskil viðskiptamanna hafa vaxið gífurlega á þessu ári m.a. vegna almennra erfiðleika í atvinnurekstri. Þetta hefur haft í för með sér vaxandi misræmi milli verðtryggingar útlána og innlána hjá sjóðnum sem felur í sér verulega gengisáhættu fyrir hann. Það stafar af því að lán til viðskiptamanna í erlendum myntum með gjalddaga á árinu 1989, breyttust yfir í íslenskar krónur á gjalddaga. Ef gjaldfallin afborgun og vextir voru ekki greidd á gjalddaga stóð krafan áfram í krónum til greiðsludags á sama tíma og skuldbindingar sjóðsins, sem standa undir fjármögnun vanskila standa áfram í erlendum myntum.

Af þessum sökum mun Iðnlánasjóður nú um áramótin snúa aftur til fyrra fyrirkomulags þ.e.a.s. að gengistrygging haldist á höfuðstól og vöxtum til greiðsludags á þeim lánum sem gjaldfalla á árinu 1990 og síðar.