Kristmundur S. Snæbjörnsson - Minning Fæddur 30. nóvember 1930 Dáinn 26. desember 1989 Í dag er við kveðjum ástkæran vin okkar viljum við þakka fyrir að hafa kynnst honum. Ógleymanlegar samverustundir munu lifa í hugum okkar um ókomna tíð.

Kristmundur Snæberg Snæbjörnsson fæddist í Reykjavík og var sonur hjónanna Snæbjarnar Kristmundssonar og Ingibjargar Magnúsdóttur. Kristmundur fór snemma í fóstur til móðurforeldra sinna, að Efri-Hömrum, og ólst þar upp að mestu leyti. Hann fór ungur til sjós og þá oftast sem kokkur. Árið 1966 hóf Kristmundur störf hjá Nýju Sendibílastöðinni og starfaði þar æ síðan. Hann þjónaði viðskiptavinum sínum vel og var þessvegna á snærum margra fyrirtækja um áraraðir. Á milli sendiferða var Kristmundur tíður gestur hjá okkur og var þá sest niður með kaffibolla í hendi og heimsmálin rædd, virtist engu máli skipta hvort rætt var um stjórnmál, menningarmál eða íþróttir, aldrei kom maður að tómum brunninum hjá Kristmundi.

Til marks um dugnaðinn og vinnusemina í Kristmundi er okkur minnisstætt óhapp eitt er henti hann fyrr í vetur er hann tognaði á fæti. Meira þurfti til en þetta eitt til að halda honum frá vinnu, því tveimur dögum seinna var hann kominn aftur til starfa, en í þetta skiptið með staf í hönd.

Vinnustaður okkar í Álfheimum verður tómlegur eftir óvænt fráfall vinar okkar og mun minningin um góðan dreng lifa lengi. Okkar innilegustu samúðarkveðjur til ættingja og vina.

Hvíl í friði.

Starfsfólk Olís, Álfheimum.