Sveinbjörn Helgason vélstjóri Mig langar að minnast með fá einum orðum Sveinbjörns Helgasonar, sem dó á Vífilsstaðaspítala

26. des. sl., á 81 árs afmælisdegi sínum. Sjálfsagt var það besta af mælisgjöfin sem honum gat hlotnast, því hann hafði átt við langvarandi heilsuleysi að stríða og var orðinn saddur lífdaganna.

Með honum er horfinn sá síðasti úr þeim hópi sem myndaði vissan kjarna í lífi mínu, alveg frá bernsku, en það voru foreldrar mínir, Lilja og Lúðvík, og systur mömmu, Fjóla og Ásdís ásamt eiginmönnum þeirra, Sveinbirni og Ásbirni.

Öll sumur til 7 ára aldurs dvaldi ég á heimili móðurforeldra minna að Sólheimum á Húsavík og í næsta húsi, Steinholti, bjuggu Fjóla og Svenni ásamt einkadótturinni Rannveigu Lilju og því tengist þetta fólk mínum fyrstu endurminningum.

Amma dó þegar ég var á áttunda aldursári og þá fluttu afi, Fjóla, Svenni og Lillý litla til Reykjavíkurog bjuggu í nokkur ár á efri hæðinni á Mánagötu 14, en við foreldrar mínir og ég á neðri hæðinni í sama húsi. Þetta varð því eins og eitt stórt heimili og oft var glatt á hjalla. Margar ánægjustundir áttu þær systur og Svenni frændi við orgelið, því þau voru öll mjög söngv in.

Öllum jólum og gamlárskvöldum var eytt saman og hélst sá siður í mörg ár eftir að Svenni frændi og fjölskylda voru flutt í annað húsnæði.

Þótt hann væri ekki frændi minn í eiginlegri meiningu þess orðs þá kallaði ég hann alltaf Svenna frænda og var ákaflega hænd að honum og dáði hann mjög mikið, enda var hann svo einstaklega barngóður að ég hefi hvorki fyrr né síðar kynnst öðru eins, né gjafmildari manni. Þarna bjuggu tvær litlar jafnaldra frænkur í sama húsi og þótt önnur væri dóttir hans þá mismunaði hann ekki hinni þegar hann kom úr siglingum hlaðinn gjöfum, erlendu sælgæti og ávöxtum sem voru sjaldséðir á þessum árum, nema um jólin. Reyndar var einsog alltaf væru jól þegar Svenni frændi kom erlendis frá. Hann var dverghagur maður. Það hreinlega lék allt í höndunum á honum enda ávallt kallað til hans ef eitthvað bilaði á heimili mágkonu hans. Oft tók hann hluti með sér út á sjó tilað gera við þá á frívöktum sínum. Einu sinni var það hjólið mitt og hann lét sig þá ekki muna um að lakka það í leiðinni, fagurblátt og hvítt. Hann smíðaði líka hring handa mér úr fimmeyringi. Það varí þá daga þegar fimmeyringarnir voru nokkuð stórir ummáls.

Síðustu æviárin dundaði hann við allskyns útsaum og fórst það ekkisíður úr hendi en allt annað.

Allar minningar mínar um þennan mann eru góðar. Þar bar aldrei skugga á. Hann var svo hlýr, blíðlyndur, viðkvæmur innst inni, glaðvær og skemmtilegur því hann átti kímnigáfu í ríkum mæli, tryggur og trúr í starfi sínu og þótti óendanlega vænt um sína nánustu. Engin furða að hann væri og verður ávallt uppáhalds frændi minn.

Það er stór hópurinn sem kveður hann með eftirsjá hérna megin tilverunnar, en það mun líka stór hópur taka honum með fögnuði handa móðunnar miklu.

Dóttur hans, Rannveigu Lilju, manni hennar, börnum og barnabörnum, sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Hávamál)

Ranný