TÓMAS R. Einarsson er meðalmaður á hæð, dökkhærður og fremur grannvaxinn. Hann er fjölskyldumaður og býr ásamt eiginkonu sinni, Ástu Svavarsdóttur, málfræðingi og ritstjóra við Orðabók háskólans, og þremur ungum dætrum þeirra, Kristínu Svövu, þrettán ára, Ástríði, níu ára og Ásu Bergnýju, eins árs, í fjölbýlishúsi við Reynimel í Reykjavík.

Á GÓÐUM DEGI

Tómas Ragnar Einarsson hefur undanfarin ár verið í fremstu röð íslenskra hljómlistarmanna. Hann er rétt rúmlega fertugur og hefur fyrir löngu vakið athygli fyrir kontrabassaleik og lagasmíðar. Ólafur Ormsson ræddi við Tómas um feril hans og nýjan disk sem kom í hljómplötuverslanir fyrir nokkrum dögum.

TÓMAS R. Einarsson er meðalmaður á hæð, dökkhærður og fremur grannvaxinn. Hann er fjölskyldumaður og býr ásamt eiginkonu sinni, Ástu Svavarsdóttur, málfræðingi og ritstjóra við Orðabók háskólans, og þremur ungum dætrum þeirra, Kristínu Svövu, þrettán ára, Ástríði, níu ára og Ásu Bergnýju, eins árs, í fjölbýlishúsi við Reynimel í Reykjavík. Hann hefur verið áberandi tónlistarmaður mörg undanfarin ár, kontrabassaleikari og tónskáld og einkum fengist við djasstónlist, en einnig spilað í leikhúsum og komið fram á fjölmörgum djasshátíðum og tónleikum í Evrópu og með tríói Ólafs Stephensens á tónleikum í Suður-Ameríku og Bandaríkjunum og nú síðast í októbermánuði í Færeyjum og Kanada. Þá hefur hann samið tónlist fyrir fimm plötur og geisladiska: Þessi ófétis djass kom út 1985, Hinsegin blús 1987, Nýr tónn 1989, Íslandsför 199l og Landsýn 1994 og tónlist eftir Tómas R. Einarsson er einnig að finna á geisladiskunum, Hot house - RJQ live at Ronnie Scott's með djasskvartett Reykjavíkur frá 1994 og Koss með söngkonunni Ólafíu Hrönn Jónsdóttur frá árinu 1995.

Orðstír Tómasar R. Einarssonar sem kontrabassaleikara hefur spurst víða um lönd og sjálfsagt gæti hann sest að erlendis og skapað sér öruggan starfsgrundvöll, en ekki er ólíklegt að hér heima vilji hann starfa og geta sjálfur valið þau verkefni sem bjóðast hverju sinni hér á landi sem erlendis.

Tómas R. Einarsson hefur nú sent frá sér nýjan tólf laga geisladisk, Á góðum degi, sem var hljóðritaður í Reykjavík í júní og ágúst á liðnu sumri. Það eru mikil tíðindi þegar von er á nýjum diski frá Tómasi R. Einarssyni og djassáhugamenn telja dagana fram að útgáfudegi og mæta tímanlega þegar fyrstu sendingar berast í hljómplötuverslanir.

Ég heimsótti Tómas einn mildan haustdag í októbermánuði. Í stigaganginum mætti ég elstu dóttur Tómasar og Ástu, Kristínu Svövu, sem heilsaði glaðlega á leið út í Hagaskóla. Tónlistin af nýja disknum hljómaði úr hljómflutningstækjum í stofunni. Líkt og á heimilum ýmissa tónlistarmanna prýða stofuna málverk og teikningar eftir ýmsa kunna listamenn og á heimili Tómasar er mikið af bókum og geisladiskum með margskonar tónlist. Þá er þar stórt gamalt bandarískt píanó sem Tómas eignaðist fyrir tuttugu árum og þegar hann var í Nýja kompanínu 1980-82 var píanóið notað á æfingum í þá daga.

Bernska og mótunarár

"Ég er fæddur á Blönduósi árið 1953. Móðir mín er Kristín B. Tómasdóttir. Hún var kennari á Húsmæðraskólanum á Staðarfelli í Dölum. Faðir minn, Einar Kristjánsson, var kennari og skólastjóri á Laugum. Ég dvaldi ekki lengi á Blönduósi, en kom þar svo síðar til afa míns og ömmu og frændfólks. Ég ólst upp á Laugum í Hvammssveit. Þréttán ára fór ég í Gagnfræðaskólann í Stykkishólmi og þaðan lauk ég landsprófi. Ég flutti síðan til Reykjavíkur sextán ára og hóf þá nám við Menntaskólann í Hamrahlíð."

Var tónlistaráhugi á þínu æskuheimili?

"Foreldrar mínir sungu í kirkjukórnum í Hvammssveit en líklega hefur áhugi minn fyrir tónlist fyrst kviknað af alvöru þegar ég fór að hlusta á þættina, Á frívaktinni, Óskalög sjúklinga og Lög unga fólksins í Ríkisútvarpinu. Það var gamalt orgel og síðar rússneskt píanó í barnaskólanum og ég var stundum að stelast til að leika á þessi hljóðfæri og var reyndar í píanónámi einn vetur hjá Jóni Óskari rithöfundi, skáldi og píanóleikara þegar ég var ellefu ára, en það gekk á ýmsu í því námi. Um leið og hann leit undan var ég byrjaður að spila lögin úr Óskalagaþætti sjúklinga og þættinum Á frívaktinni sem Jón Óskar taldi ekki rétt að ég væri að spila á því stigi námsins."

Til Reykjavíkur lá þá leið þín eins og margra annarra af landsbyggðinni?

"Já og ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 1974. Það voru mikil viðbrigði að koma utan af landi í iðandi kviku mannlífsins hér í Reykjavík. Ég var ekki fyrr kominn til Reykjavíkur en ég fór að sækja blúskvöld í veitingahúsinu Klúbbnum þar sem Blúskompaní Magnúsar Eiríkssonar spilaði. Það voru miklir umbrotatímar á þessum árum og stöðugar mótmælaaðgerðir gegn Víetnamstríðinu og hersetunni og ég tók þátt í þessum aðgerðum og gekk í Æskulýðsfylkinguna. Svo áttaði ég mig á á því að ég þurfti eitthvað að læra og þá fækkaði blúskvöldunum og fundunum."

Ég man eftir þér á útifundum og í kröfugöngum þessara ára. Þá varstu róttækur sósíalisti og vitnaðir óspart í hið rauða kver Maós formanns og dáðir argentíska byltingarforingjann Che Guevara og gekkst um götur og torg með svarta alpahúfu á höfði. Þykir þér ekki margt hafa breyst ótrúlega mikið frá þessum árum og þjóðfélagið vera allt annað?

"Jú, þá voru tímarnir allt aðrir en í dag og hinar stóru fyrirmyndir unga fólksins voru Mao formaður og Che Guevara. Ég hef alltaf verið hallur undir sterkt krydd og kenningar þeirra voru okkar chilepipar í bragðdaufri þjóðfélagsumræðu. Halldór Laxness segir í Skáldatíma: Stærsta axarskaft okkar vinstrisósíalista fólst í trúgirni! Ég held í rauninni að hann gæti sleppt girni aftan af trú. Þessi viðhorf voru ekki gagnrýnin og eftir á að hyggja held ég að þau hafi borið býsna mikinn keim af trúarbrögðum. Við vissum að það voru einhverjar raddir sem sögðu annað, en við vildum ekkert af þeim vita."

Til Spánar og Suður-Ameríku

Hvað tók svo við eftir að þú laukst stúdentsprófi?

"Ég lauk BA-prófi í sögu og spænsku við Háskóla Íslands 1980, en gerði líka ýmislegt annað á þessum árum; ritstýrði Stúdentablaðinu, kenndi og vann í fiski svo eitthvað sé nefnt. Ég hafði áhuga á pólitíkinni í Suður-Ameríku og líka tónlistinni í þeirri heimsálfu og það var höfuðmarkmiðið eftir stúdentspróf að fara til Suður-Ameríku. Ég fór fyrst til Barcelona haustið 1975 til að læra spænsku, svo ég gæti gert mig skiljanlegan þegar til Suður- Ameríku kæmi."

Hvernig var að koma til Spánar um miðjan áttunda áratuginn?

"Það var mjög forvitnilegt. Ég hafði aldrei komið þangað áður. Þetta var á spennandi tímum. Frankó, einræðisherra Spánar, sem hafði drottnað yfir Spánverjum síðan 1939 dó í nóvember 1975 og umskiptin voru mikil. Þótt einræðið félli ekki á einum degi fundu það allir að ákveðnu tímabili var lokið og bara tímaspursmál hvernær allt opnaðist. Áður en ég kom heim síðari hluta vetrar 1975-76 var ég þátttakandi í fyrstu mótmælaaðgerðum í Barcelona í 40 ár. Það var skotið á okkur gúmmíkúlum og lögreglan ók á ofsahraða beint á mannfjöldann. Tilfinningin var sú að þetta væru dauðakippir einræðisstjórnarinnar, sem og reyndist rétt.

Ég hef hvergi hitt fyrir fólk sem hefur hrifið mig eins mikið og Spánverjar hafa. Ég bjó hjá andalúsískri innflytjendafjölskyldu og það var yndislegt fólk. Ég lauk ekki neinum prófum þarna, en las frá morgni til kvölds og notaði tímann til að kynnast spönsku þjóðlífi og menningu. Ég þurfti að drífa mig heim þegar líða tók á veturinn og fór þá að vinna í fiski og að safna fyrir Suður-Ameríku ferð."

Og tókst þá stóra ákvörðun. Þú lagðir upp í ferð til Suður-Ameríku?

"Já, haustið 1976 og kom heim um jólin 76. Ég fór til nær allra landa í Suður-Ameríku. Ég kom fyrst til Brasilíu og fór þaðan til Argentínu, Chile, Bólívíu og þaðan til Mið-Ameríku og Mexíkó. Ég ferðaðist aðallega með rútum og lestum, reyndi að lifa spart og bjó á afar ódýrum hótelum."

Það hefur þá verið ómetanlegt fyrir þig að kynnast þessum löndum og menningu þjóðanna þegar þú fórst síðar að fást við þýðingar á bókum eftir þau Isabel Allende og Gabriel García Márguez?

"Já, það kom sér vissulega vel og ég hafði gott af því að kynnast þessu fólki og fjölbreytilegri menningunni. Argentískur tangó, bólivísk flaututónlist og sprellfjörug bönd á torgum í Vera Cruz í Mexíkó; þarna var margt að finna. Ég kom einnig á söfn af öllu mögulegu tagi og skoðaði sögulegar minjar í þessum löndum."

Hvernig var aðbúnaður fólksins í þessari fjarlægu heimsálfu?

"Það var þarna víða mikil fátækt. Það var mest sláandi að það voru hermenn þarna víðast hvar á götum með byssustingi og í Buenos Aires voru skriðdrekar á götum. Þá voru herforingjarnir nýbúnir að ræna völdum af ekkju Perons. Það sem var hvað ólíkast því sem við eigum að venjast hér á Íslandi voru þær hrikalegu aðstæður sem fólkið bjó við í fjallaþorpunum í indjánalöndum Bólivíu og Perú."

Og eftir að þú komst heim frá Suður-Ameríku. Varstu þá ekki búinn að fá nóg af ferðalögum í bili?

"Nei, ég hafði ekki enn fullnægt flökkuþránni. Ég fór til Noregs að vinna mér inn peninga og vorið 1977 var ég kominn aftur til Spánar og ferðaðist til Baskahéraðanna, Madrid og Barcelona og var þar þegar fyrstu frjálsu kosningarnar voru haldnar eftir 1936."

Tónlistarnám - atvinnutónlistarmaður

Hvenær lærðir þú fyrst á kontrabassa?

"Það var veturinn 1978-79. Ég fékk lánaðan kontrabassa og byrjaði aðeins að læra hjá enskum bassaleikara, Scott Gleckler í Tónskóla Sigursveins Kristinssonar, en það voru fáir tímar og lítið stundaðir af minni hálfu. Mig langaði til læra að spila blús sem ég fékk ekki í tónskólanum. Ári síðar þegar ég var í Ósló að skrifa lokaritgerð mína í sögu og að lesa spænskar bókmenntir keypti ég kontrabassa og kenndi mér þetta að hluta til sjálfur og af að hlusta á plötur. Haustið 1980 kom ég svo heim og byrjaði að læra hjá Jóni "bassa" og var hjá honum í þrjú ár. Ég var löngu áður farinn að spila á harmonikku. Ég lærði hjá Karli Jónatanssyni og spilaði svona hér og þar. Það var á þeim árum þegar ég var í MH. Ég spilaði t.d. stundum um nætur þar sem nú eru bílastæði alþingismanna og þá eftir vinstri manna böll í Tjarnarbúð."

Til Kaupmannahafnar fórstu síðan í frekara tónlistarnám?

"Já, það var á árunum 1983-84. Ég var þar í námi hjá Johan Poulsen. Niels Henning Örsted Petersen benti mér á hann sem góðan kennara og það reyndist rétt. Niels var oft hér á landi á þessum árum og ég var málkunnugur honum. Þá var ég sumarið 1984 að spila frjálsan djass á hálfsmánaðar námskeiði hjá John Tchicai altósaxófónleikara.

Ég varð snemma heillaður af blús og djassi. Ég man að Vernharður Linnet var að kynna á vinstri mannafundi tónleika sem þá voru boðaðir. Skömmu síðar komu þeir fram í Háskólabíói, Niels Henning, Philip Catherine og Billy Hart og sá atburður var einn af stóru stundunum í lífi mínu.

Jazzvakning stóð fyrir fjölbreyttu tónleikahaldi og þessir tónleikar höfðu mikil áhrif og á næstu árum voru margir ungir djassleikarar að hefja sinn feril sem beinlínis má þakka þeirri vakningu sem fór af stað þarna í lok áttunda áratugarins."

Hvenær byrjaðir þú fyrst að spila í hljómsveit?

"Ég spilaði inn á plötu í Kaupmannahöfn með Diabolus in Musica 1980 og var þá búinn að eiga bassann í nokkra mánuði. Eftir að ég kom heim stofnuðum við Sveinbjörn I. Baldvinsson hljómsveit sem við kölluðum Nýja kompaníið og hljómsveitin spilaði mikið í tvö ár. Við spiluðum inn á plötu sem Fálkinn gaf út, Þegar kvölda tekur.

Eftir það spilaði ég með Guðmundi Ingólfssyni í Stúdentakjallaranum og Naustinu og víðar og fór með honum til Lúxemborgar 1983 og í þeirri hljómsveit voru einnig Guðmundur Steingrímsson og Viðar Alfreðsson. Eftir árs dvöl í Kaupmannahöfn kom ég svo heim og þá gerði ég plötu sem heitir Þessi ófétis jazz".

Var það á þessum árum að þú byrjaðir að semja tónlist?

"Já og Jazzvakning gaf þessa plötu út. Ég var búinn að setja saman nokkur lög og fékk Mezzofortestrákana, Eyþór, Gunnlaug og Friðrik, til að spila inn á svona sýnishorn og Rúnar Georgsson spilaði með okkur í nokkrum lögum og Jazzvakning vildi gefa þetta út. Lögin eru eftir mig, Eyþór og Friðrik."

Og þú hélst áfram að fást við tónsmíðar?

"Já, við hljóðrituðum aðra djassplötu 1987, Hinsegin blús, og á þeirri plötu eru flest lögin eftir mig nema tvö sem eru eftir Eyþór Gunnarsson. Almenna bókafélagið gaf þá plötu út. Sú plata fékk mjög góðar viðtökur og seldist fljótlega upp. Tveimur árum síðar var tekin upp átta laga plata, Nýr tónn, og á þeirri plötu eru öll lögin eftir mig. Jens Winther, danski trompetleikarinn sem hafði verið gestur á nokkrum lögum á Hinsegin blús, kom til landsins og spilaði með mér, Pétri Östlund, Eyþóri Gunnarssyni og Sigurði Flosasyni. Það gildir það sama um Nýjan tón og Hinsegin blús, geisladiskurinn og plöturnar eru löngu uppseldar. Árið 199l var svo tekinn upp nýr diskur með tónlist eftir mig, Íslandsför, og þar eru einnig með mér Eyþór, Pétur og Sigurður og svo fékk ég til liðs við okkur bandarískan básúnuleikara og söngvara, Frank Lacy, sem ég hafði séð með Art Blakey í Los Angeles 1989 og orðið hrifinn af og ég fékk hann hingað upp og hann setti að sjálfsögu svip á plötuna og í dag er hann einn af þeim stærstu í djassheiminum á básúnu. Hann spilaði einnig með mér í þremur lögum á diskinum Landsýn, sem kom út árið 1994, og Jazzís gaf út. Á þeim diski fékk ég marga söngvara til liðs við mig og gerði ég tilraun til að sætta íslensk ljóð á tuttugustu öld við djassmúsík og bræða það tvennt saman í eitt. Ári síðar eða 1995 vann ég síðan að diski sem fékk nafnið, Koss, með Þóri Baldurssyni og Ólafíu Hrönn Jónsdóttur og þar eru lög og textar eftir okkur Ólafíu Hrönn."

Þú ert einn meðlima Jazzkvartetts Reykjavíkur. Hvenær var sú hljómsveit stofnuð?

"Við Sigurður Flosason stofnuðum hljómsveitina árið 1992 og auk okkar skipa hana þeir Eyþór Gunnarsson og Einar Valur Scheving."

Og Jazzkvartett Reykjavíkur spilaði fyrir örfáum árum í Ronnie Scott's djassklúbbnum í London?

"Já. Jazzkvartettinn spilaði þar heila viku árið 1994 og forstöðumenn klúbbsins tóku upp nokkur kvöld og gáfu síðan út geisladiskinn Hot house - RJQ live at Ronnie Scott's. Það var mjög ánægjuleg reynsla. Það má heita hrein undantekning ef evrópsk hljómsveit, sem ekki er bresk, komist inn á þennan klúbb. Líkleg hefur þar ráðið miklu um vaskleg frammistaða Jakobs Frímanns Magnússonar og þá vonandi einnig verðleikar hljómsveitarinnar. Við spiluðum líka á ýmsum djasshátíðum í Bretlandi á þessum árum, 1992-94, t.d. á djasshátíðinni í Glasgow 1992 sem er stór og virt hátíð. Jazzkvartett Reykjavíkur hefur spilað víða í Evrópu á síðari árum."

Með tríói Ólafs Stephensens

Tríó Ólafs Stephensens hefur á síðari árum gert víðreist og komið fram víða austan hafs og vestan. Tómas R. Einarsson hefur verið kontrabassaleikari í tríóinu allt frá því að það kom fyrst fram um 199o.

"Ég gekk til liðs við tríó Ólafs Stephensens í byrjun þessa áratugar og við höfum mikið leikið klassísk djasslög. Við höfum spilað víða erlendis, t.d. á vegum Útflutningsráðs árið 1997 þegar þeir voru með kynningu í Nuuk í Grænlandi. Þeim í Útflutningsráði þótti framlag okkar svo vel heppnað að þeir tóku okkur með þegar þeir, ásamt utanríksráðherra og stórum hópi manna, fóru til Argentínu og Chile fyrir rúmu ári. Við vorum þá notaðir í fleira eins og sjálfsagt var og ég þýddi t.d ræðu Halldórs Ásgrímssonar þegar hann ávarpaði ekkju Jorge Luis Borges, rithöfundar, í Borges-safninu í Buenos Aires. Það var stórkostlega reynsla að fá að koma aftur til Argentínu og Chile eftir að hafa verið þar tveimur áratugum áður. Tríó Ólafs Stephensens spilaði líka á elsta djassklúbbi í Suður-Ameríku, í Santiagó í Chile, fyrir troðfullum sal sem heimtaði endalaus aukalög. Guðmundur R. Einarsson trommuleikari var tekinn að þreytast í höndunum og greip til þess ráðs að láta frekar mæða á fótunum og steppaði fyrir gestina í að minnsta kosti kortér og þá loks fengum við að sleppa."

Og tríóið hljóðritaði disk með djassmúsík?

"Já. Diskurinn heitir Píanó, bassi og tromma og var gefinn út af Skífunni árið 1994. Japanir báðu Skífuna um fimm hundruð eintök um daginn. Ég hafði nú á orði að það væri kannski í lagi að hljóðrita nýjan disk handa Japönum og öðrum."

Nýi diskurinn

Ég spurði Tómas um nýja diskinn, Á góðum degi, sem hljómaði úr hljómflutningstækjunum í stofunni. Áheyrilegur diskur með vandaðri djassmúsík.

"Tónlistin á diskinum er samin á síðustu þremur árum. Kontrabassinn kemur meira fram á nýja diskinum, en fyrri plötum mínum. Það tók mig langan tíma að undirbúa þennan disk af því ég er búinn að heyra svo mikið af leiðinlegum bassaleikaraplötum, þar sem menn eru að þenja sig út yfir allan þjófabálk með endalausum sólóum sem öll eru eins, að ég þurfti að taka mér góðan tíma og hugsa út einhverjar leiðir til að þetta yrði ekki allt eins, endalaus bassasóló, og búa til disk sem menn hefðu gaman af að hlusta á.

Með mér á disknum eru margir frábærir hljóðfæraleikarar, íslenskt og erlent einvalalið. Frakkinn Olivier Manoury spilar á bandeoneón sem er tangóharmonikka. Hann hefur starfað sem undirleikari hjá argentískum tangósöngvurum í tuttugu ár og verið með eigin tangóhljómsveit, en hefur svona gripið í djassmúsík líka. Ég var svo heppinn að hér var staddur á liðnu sumri gítarleikari Svens Assmundsens, Jacob Ficher. Hann spilaði mér mér fyrir um það bil ári og hann kom svo með mér í stúdíósal þegar ég tók upp diskinn. Íslendingarnir eru allir víðkunnir, Eyþór Gunnarsson, Þórir Baldursson, Guðmundur R. Einarsson, Gunnlaugur Briem og Einar Valur Scheving eru þarna í mörgum lögum, Árni Scheving í einu lagi og ungur píanóleikari, Árni Heiðar Karlsson, einnig í einu lagi.""

Heitið á plötunni; Á góðum degi?

"Góður dagur á djassmáli er dagur þegar djassleikari hefur verið heppinn með fleiri nótur en venjulega. Einnig ef einhver óvæntur kraftur hefur komið í hljómsveitina og þar sprottið fram einhverjir hlutir sem enginn átti von á og þá gerist eitthvað nýtt og spennandi og þá er góður dagur hjá djassmönnum. Það eru mörg slík andartök á þessari plötu. Mál og menning gefur út diskinn. Þetta rótgróna bókaforlag hefur verið að fikra sig áfram með útgáfu á klassískri tónlist á liðnum árum, en þetta er fyrsti djassdiskurinn sem þar er gefinn út."

Morgunblaðið/Kristinn

MEÐ Tríói Ólafs Stephensen á elsta jazzklúbbnum í S- Ameríku, í Santiago de Chile.JAZZKVARTETT Reykjavík, f.v. Tómas R., Einar Valur Scheving, Sigurður Flosason og Eyþór Gunnarsson.