Í SUMAR sem leið (11. júní), skrifaði ég grein í Lesbókina, sem bar heitið Hellnar í hálfa öld. Þar rifjaði ég upp mannlífsmyndir frá því um miðja öldina og stöðu sjávarplássins fyrr og nú. Engin vísindaleg úttekt heldur skrifuð sjálfum mér og vonandi öðrum til einhverrar skemmtunar og fróðleiks. Altént fékk ég góð viðbrögð og vil nota tækifærið og þakka fyrir mig.
Blekkingar undir Jökli Það gengur ekki að óráðvandir menn komist upp með, segir Sæbjörn Valdimarsson , að skíra upp staði eftir sínum hentugleikum, spilli sögunni og traðki á aldagömlum örnefnum. Í SUMAR sem leið (11. júní), skrifaði ég grein í Lesbókina, sem bar heitið Hellnar í hálfa öld . Þar rifjaði ég upp mannlífsmyndir frá því um miðja öldina og stöðu sjávarplássins fyrr og nú. Engin vísindaleg úttekt heldur skrifuð sjálfum mér og vonandi öðrum til einhverrar skemmtunar og fróðleiks. Altént fékk ég góð viðbrögð og vil nota tækifærið og þakka fyrir mig. Þá fékk ég einnig undarleg skilaboð að vestan í e.k. svargrein frá Kristni Kristjánssyni, kenndum við Bárðarbúð, (Lesbók, 22. ágúst), sem var mestmegnis sparðatíningur, rangfærslur, misskilningur og skætingur í minn garð, sem ekki er svaraverður. Einfaldara hefði verið fyrir KK að lyfta símanum. Eitt umræðuefni greinar minnar var það sem kallað hefur verið "sirkusinn við Gvendarbrunninn", upphlaup sem staðið hefur undanfarin ár við þetta eina, náttúrulega vatnsból Hellnara í gegnum tíðina og minnir á kafla í mynd eftir Fellini eða sögu eftir Sinclair Lewis. Brunnurinn, sem á sér merka sögu, kenndur við Guðmund biskup góða, er uppspretta sem kemur undan hraunjaðrinum í Skjaldartraðartúninu, sem frá því á 18. öld, fram á sjöunda áratug þessarar aldar, í eigu forfeðra minna. Það voru forréttindi að fá að slíta barnsskónum á þessum fögru slóðum, mér er og verður allt þetta umhverfi afar kært, ekki síst Hellnafjaran og Gvendarbrunnurinn, staðir sem komu við sögu við leik og störf, flesta daga mín uppvaxtarár. Upphlaupið hófst er brunnurinn var ræstur fram, rétt fyrir 1980, hans gömlu gerð og umhverfi spillt. Síðar var hann endurbyggður, sem var hið þarfasta verk, þó hann líkist ekki forvera sínum. "Það sem eitt sinn er brotið verður aldrei heilt," segir hið fornkveðna. Hann er endurreistur, það er mest um vert. Því næst var komið fyrir á súlu við brunninn, lítt eða ekkert kunnum munnmælum (Undir Jökli), um Maríu mey, og var höfð eftir brottfluttum Hellnara. Svo sem ekkert um það að segja. Næst var styttu heilagrar guðsmóðir klínt utan í bergið yfir uppsprettunni, það orkar tvímælis, virkar allavega á marga sem náttúruspjöll. Hvað með það, skaðinn er skeður. Um svipað leyti fór að bera á því að einhverjir aðilar voru farnir að uppnefna hið gamla og sögulega örnefni brunnsins, kalla hann "Lífslind". Þessar aðgerðir eru ekki tilefni þess að ég sest við skriftir, heldur sú staðreynd að nú hafa þeir menn sem reynt hafa að breyta ímynd uppsprettunnar, ekki vílað fyrir sér að skíra brunninn upp. Á ferð minni fyrir skömmu sá ég að ambagan "Maríulind" er komin á skilti við Hellnaafleggjarann, með tilheyrandi merki um náttúruvætti. Slíkt gera menn ekki. Það gengur ekki að óráðvandir menn komist upp með að skíra upp staði eftir sínum hentugleikum, spilli sögunni og traðki á aldagömlum örnefnum. Það á ekki að þurfa að orðlengja frekar slík menningarleg spellvirki. Kornið sem fyllti mælinn barst mér svo fyrir skömmu í nýjustu útgáfu Vegahandbókarinnar . Þar er búið að umskrifa kaflann um Hellna og koma inn ambögunni um "Maríulindina" í þennan þarfa og góða ferðafélaga landsmanna. Í áðurnefndri grein gat ég þess að lygin yrði fljótlega að sannleika ef ekkert væri að gert. Óraði þó ekki fyrir því að blekkingin ynni jafn hratt og örugglega. Hér með er skorað á þá sem að þessu standa að koma með haldbær rök fyrir máli sínu eða fjarlægja öll auðkenni um þessa "Maríulind", hvar sem þau er að finna. Því gat ég "svarbréfs" KK hér í upphafi, að hann gerir þessa lágkúru að umtalsefni. Segir réttilega að ég sé bæði "sár og gramur vegna þeirra aðgerða sem þar hafa verið gerðar". KK segist "ekki ætla að gerast dómari í þessu máli". Hallar hins vegar öllum sínum málatilbúnaði í andstöðu við mig og tíundar aðeins "rökin" fyrir hinni nýju ímynd brunnsins. Hefur orð Finnboga á Laugarbrekku fyrir því að munnmælasagan við brunninn sé komin frá Siglfirðingi, grandvörum manni, ættuðum frá Gíslabæ. Það er enginn að vefengja tilveru sögusagnarinnar, þó hún sé aðkomin og lítt kunn. Ég var að benda á að sú uppákoma að voga sér að hlaupa til og skíra upp aldagömul örnefni á slíkum forsendum er ekkert annað en siðleysi sem menn mega ekki komast upp með, hvorki við hraunjaðarinn í Skjaldartraðartúninu né annars staðar. KK vitnar einnig í kafla úr bók Helgu Halldórsdóttir frá Dagverðará, Öll erum við menn , (Skuggsjá 1986), þar sem hún rifjar upp samtal við Kristínu afasystur mína í Skjaldartröð. Þessa ágætu bók á ég líka og hef lesið mér til ánægju. KK birtir langa hluta úr kaflanum, "Lífslindar/Maríulindar-"ambögunni til stuðnings, en kýs að hætta er hann kemur að þessari setningu: "Kristín sagði mér nákvæmlega sömu söguna og Jósefína en bætti við: "Sjúkleiki sá sem þjáði fólkið batnaði við handaálagningu biskups. Rigning kom svo grös spruttu og fólkið hlóð brunn undir lindarvatnið, og heitir hann enn "Gvendarbrunnur". Þarna stóð hið rétta nafn, örfaáum línum neðar í bókinni hennar Helgu, en það virðist ekki hafa hentað KK. Þetta er vond latína. Ekki veit ég hvort KK hallar viljandi réttu máli, en aldrei talar Helga um Lífslind, heldur lífslind, það skiptir öllu máli í þessum fáránlega uppnefningarþvættingi. Í heimildargrein sem Gunnar Kristófersson, föðurbróðir minn frá Gíslabæ, skrifaði í félagi við frænku okkar KK, Magnfríði Sigurbjörnsdóttur frá Melabúð, fyrir Örnefnastofnun árið 1977, fær uppsprettan í Skjaldartraðartúninu þessa umfjöllun: "Gvendarbrunnur er ofan við rústirnar, alveg við hraunbrúnina. Er það uppspretta sem kemur þar undan hrauninu. Er sagt að Guðmundur góði hafi vígt brunninn ..." Þetta segir allt sem segja þarf um nafngift lindarinnar, þetta vita Hellnarar. Þá segir KK "eftir þetta var býlið Brekka nefnt Lindarbrekka". Það er ekki rétt. GK og MS segja í fyrrnefndri grein: "Stundum var Öxnakelda nefnd Lindarbrekka og þá dregið af Gvendarbrunninum, sem einnig var nefndur Lindin." Ekki orð um Lífs- né Maríulind. Hvergi. Höfundur er kvikmyndagagnrýnandi. Sæbjörn Valdimarsson