DAGURINN í dag er eftir kaþólskum sið og grískum rétttrúnaði helgaður Barböru mey en samkvæmt helgisögum sem komu upp á 7. öld e.Kr. var hún uppi á 3. öld. Mærin (ó)lánsama var píslarvottur en hún lét lífið fyrir trú sína á Krist fyrir hendi föður síns. Dioskuros læsti dóttur sína inni í turni en lét síðan dæma hana fyrir "villutrúna", misþyrma henni og hjó svo höfuðið af henni.
Jarðfræðingar

halda Barbörumessu

DAGURINN í dag er eftir kaþólskum sið og grískum rétttrúnaði helgaður Barböru mey en samkvæmt helgisögum sem komu upp á 7. öld e.Kr. var hún uppi á 3. öld. Mærin (ó)lánsama var píslarvottur en hún lét lífið fyrir trú sína á Krist fyrir hendi föður síns. Dioskuros læsti dóttur sína inni í turni en lét síðan dæma hana fyrir "villutrúna", misþyrma henni og hjó svo höfuðið af henni. Makleg málagjöld hlaut hann eftir ódáðina þegar elding laust hann úr heiðskíru lofti. Einkenni eða tákn Barböru eru m.a. turn og elding.

Barbara í kapellunni

Dýrlingurinn var bersýnilega dýrkaður hér á landi að einhverju marki fyrir siðaskipti en árið 1950 fannst sem kunnugt er stytta af henni í kapellunni í Kapelluhrauni rétt hjá Straumsvík. Áætlað er að styttan sé frá 15. öld en hraunið sem ber nafn kapellunnar rann á 13. öld. Barbara er m.a. dýrlingur elds og því góð til áheita gegn eldsvoða.

En það eru ekki bara kaþólskir sem "blóta" heilagri Barböru; enn eimir eftir af dýrkuninni á Íslandi þótt hún sé e.t.v. veraldlegri en áður fyrr. Svo vill til að Barbara mey er m.a. verndari námumanna og hefur sú vernd færst yfir á jarðfræðinga. Við suma þýska háskóla og víðar hefur löngum verið efnt til gleðihalda í tilefni dagsins en þaðan fluttist siðurinn yfir til Íslands og hreiðraði um sig á Orkustofnun.

Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingur nam einmitt við þýskan háskóla og það var hann ásamt Elsu G. Vilmundardóttur jarðfræðingi sem kom "dýrkuninni" á fót. "Ég var einhvern tímann að segja Elsu frá þessu þegar við vorum að aka um Landmannaleið, gott ef það var ekki í Jökuldalagilinu, og henni leist svo ljómandi vel á þetta að við ákváðum að stofna smá Barböru- gildi á Orkustofnun, hjá jarðfræðingunum."

Jákvæð orka innan stofnunar

Frammi á gangi, rétt hjá skrifstofu Freysteins á Orkustofnun, getur að líta mynd af heilagri Barböru. Undir henni er kertahilla með útskornu nafni dýrlingsins. Á hillunni stendur stytta gerð eftir líkneskinu sem fannst í Kapelluhrauni. Þar getur líka að líta skrautlegra líkneski í rauðri skikkju ættað frá Santa Barbara í Kaliforníu sem nefnd er eftir dýrlingnum. Á milli líkneskjanna er lítil flaska með helgu vatni sem jarðfræðingur flutti heim með sér frá Austurlöndum nær.

Elsa segir að "hefðin" hafi hlaðið utan á sig í gegnum árin. "Fyrst var þetta í heimahúsi en síðan hefur fjölgað í félagsskapnum og nú orðið leigjum við sal og höldum hátíðina þá helgi sem fellur næst þessum degi. Þar mætum við svo með hangikjöt og góðgæti sem við útbúum sjálf, deilum þessu á milli okkar og eigum dásamlega stund saman. Barböru er auðvitað minnst en þarna gefst stund til að rifja upp skemmtilegar minningar og styrkja vináttuböndin."

"Etið, drukkið og sungið eins og Íslendingar hafa alltaf gert," skýtur Freysteinn inn í.

Verðugir teknir inn

"Þeir sem byrjuðu með okkur hafa flestir haldið áfram að mæta. Fólk hefur dreifst héðan en kemur yfirleitt á þessar samkomur ef það getur," segir Elsa.

"Verðugir eru auðvitað teknir upp í gildið, eins og gert er við öll gildi," segir Freysteinn og glottir. "Ég segi ekki að það sé eins erfitt og hjá Frímúrurnum, ekki eins leynilegt en það eru lagðar svona smáþrautir fyrir menn."

Elsa og Freysteinn segja samkundurnar þrátt fyrir allt fremur þjóðlegar en trúarlegar enda gildið alls ótengt kaþólsku nema mjög lauslega að forminu til. "Það er nú ekki nema einn í söfnuðinum kaþólskur en menn líta þetta vinsamlegum augum og við höfum haft góð samskipti við kaþólsku kirkjuna. Þessi siður hjá okkur skapar góðan hug milli manna og vináttu og það er alltaf mikils virði.

Morgunblaðið/Þorkell ALTARI heilagrar Barböru á Orkustofnun: Ljósmynd, tvö líkneski, logandi kerti og heilagt vatn.

STOFNENDUR Barböru-gildis á Orkustofnun: Elsa G. Vilmundardóttir og Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingar.