Í DAG er 13. desember, Lúsíumessa, kennd við heilaga Lúsíu, sem notið hefur talsverðrar helgi um Norðurlönd. Á Íslandi þekktust af henni bæði myndir og sögur í kaþólskum sið. Það kann þó að hafa dregið úr dýrkun hennar að snemma á 12. öld var Magnúsarmessa Eyjajarls sett á sama dag. Aðfaranótt Lúsíumessu var fram á 18. öld talin lengsta nótt ársins.
Í DAG er 13. desember, Lúsíu messa, kennd við heilaga Lús íu, sem notið hefur talsverðrar helgi um Norðurlönd. Á Íslandi þekktust af henni bæði myndir og sögur í kaþólskum sið. Það kann þó að hafa dregið úr dýrkun hennar að snemma á 12. öld var Magnúsarmessa Eyjajarls sett á sama dag.

Aðfaranótt Lúsíumessu var fram á 18. öld talin lengsta nótt ársins. Lúsíumessa lagðist af um siðaskipti á norðurslóðum. Í Svíþjóð lifði Lúsía þó áfram í þjóðtrú og hefur hérlendis komið við sögu eftir 1930 í sænskum búningi.

EN HVER var þessi Lúsía? Samkvæmt "Sögu daganna" eftir Árna Björnsson var Lúsía samkvæmt helgisögn efnuð kristin jómfrú á Sikiley nálægt aldamótunum 300. Þegar hún skyldi giftast, gaf hún fátækum heimanfylgju sína. Það líkaði heitmanni Lúsíu illa og kærði hana fyrir rómverska landsstjóranum. Honum mistókst bæði að brenna hana og koma henni í vændishús og að lokum var hún hálshöggvin. Eftir yngri sögn reif hún úr sér bæði augun og sendi þau á diski ungum manni sem hafði dáðst að þeim. Einkenni hennar á myndum eru því oft tvö augu í skál og gott þótti að heita á hana við augnveiki. Í samræmi við gjafmildi sína í sögunni er hún stundum talin færa fátækum gjafir. Messudagur Lúsíu er í dag, 13. desember.

SÆNSKIR stúdentar taka upp á því á 19. öld að halda upp á Lúsíuhátíðir 13. desember með því að skála í svokölluðu glöggi og borða með því piparkökur. Glögg er stytting úr orðmyndinni glödgad , og merkir "glæddur" eða "hitaður drykkur". Um miðja 19. öld var Lúsíuhátíð orðin fastur liður meðal stúdenta og um svipað leyti eða 1852 skrifaði glúntaskáldið Gunnar Wennerberg upp dægurlag suður í Napólí, sem hét Santa Lucia. Textinn snerist um ítalskt fiskimannaþorp, sem bar nafn hinnar heilögu meyjar. Þetta lag varð síðar einn helsti Lúsíusöngur Svía og sænskmenntaðra manna.

JÁ, ÞANNIG er nú upphaf "glöggsins", sem breiðst hefur út og nú gera starfsmannafélög sér oft glaðan dag í byrjun jólamánaðarins og slá upp teiti fyrir félagsmenn sína. Þetta er í senn skemmtilegt og svolítil upplifun í svartasta skammdeginu. En þessi siður er hættulegur að því leyti að við drykkju þessa sænska drykkjar daprast mönnum oft dómgreind og þeir gera sér ekki grein fyrir því hvort þeir geti ekið bíl eður eigi. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að í desemberbyrjun um helgar tekur lögreglan hvað flesta ökumenn drukkna við akstur.

Eins og það er skemmtilegt að gera sér glaðan dag í skammdeginu, verða menn að gera sér ljóst að akstur og áfengi fara aldrei saman. Það má enginn setjast undir stýri sem dreypt hefur á áfengi. Slíkt getur stefnt í voða bæði lífi viðkomandi svo og annarra.