Eftir Bjarna Bjarnason. Prentvinnsla: Oddi hf. Vaka-Helgafell, Reykjavík 1998. 251 bls. BJARNI Bjarnason hefur komið inn í íslenskar bókmenntir sem nokkur nýjungamaður. Hann er einn af stofnendum tímaritsins Andblæs sem birtir tilraunabókmenntir af ýmsu tagi, fyrst í stað þó einkum texta af þeirri gerð sem útgefendur tímaritsins kölluðu draumbókmenntir.
Heillandi táknskógur BÆKUR Skáldsaga BORGIN BAK VIÐ ORÐIN Eftir Bjarna Bjarnason. Prentvinnsla: Oddi hf. Vaka-Helgafell, Reykjavík 1998. 251 bls. BJARNI Bjarnason hefur komið inn í íslenskar bókmenntir sem nokkur nýjungamaður. Hann er einn af stofnendum tímaritsins Andblæs sem birtir tilraunabókmenntir af ýmsu tagi, fyrst í stað þó einkum texta af þeirri gerð sem útgefendur tímaritsins kölluðu draumbókmenntir. Draumbókmenntirnar voru fantasíur eftir því sem best varð séð en slíkar sögur höfðu vissulega ekki átt mikið upp á pallborðið hjá íslenskum rithöfundum í ár og áratugi, raunsæiskrafan hafði verið yfirgnæfandi þótt hugarflug og ímyndun, undur og yfirnáttúra, draumar og fantasíur hafi alltaf átt sinn sess í bókmenntum okkar (samt mun meiri fyrr á öldum en á þessari). Lengst framan af var þetta ekki hávær uppreisn hjá Bjarna og félögum en síðan var það fyrir tveimur árum að bók Bjarna, Endurkoma Maríu , vakti mikla athygli. Bókin lýsti af skemmtilegum frumleika þar sem viðfangsefnið var María mey í nútímaþjóðfélagi. Verkið fékk góðar viðtökur hjá gagnrýnendum og var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Og nú heldur hin hljóðláta endurkoma fantasíunnar áfram í bókinni Borgin bak við orðin , en fyrir hana hlaut Bjarni Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 1998.

Bók Bjarna fellur vel að skilgreiningu á hefðbundinni fantasíu eða furðusögu eins og hún hefur verið nefnd á íslensku. Fantasían gerist í tilbúnum heimi, á ímynduðum tíma og í ímynduðu rúmi og segir frá persónum sem eru ýmist yfirnáttúrlegar eða ónáttúrlegar. Í fantasíunni felst oft gagnrýni á samtíma og samfélag, leit að betri heimi handan veruleikans. Stundum lýsa þær könnun á dulvitund mannsins og draumum. Dæmi um fantasíur eru til dæmis Midsummer Night's Dream eftir Shakespeare, Hobbit eftir Tolkien og af íslenskum fantasíum mætti nefna Vikivaka eftir Gunnar Gunnarsson og Himinbjargarsögu eða Skógardraum eftir Þorstein frá Hamri.

Borgin bak við orðin segir frá konungssyni, Immanúel að nafni, sem gerður hefur verið brottrækur úr konungsríkinu, klettaborginni svokölluðu. Hann birtist í ótiltekinni borg og enginn veit hvaðan hann kom. Hann er götustrákur og þykir heldur skrýtinn á meðal borgarbúa sem trúa auðvitað ekki orði af því sem hann segir um uppruna sinn. "Veistu hvað við gerðum við kónginn, litli prins," spyrja þeir. "Við hjuggum af honum tómt helvítis höfuðið fyrir rúmum tvö hundruð árum." Fólkið lítur á lýsingar hans á konungsríkinu sem skáldskap og sömuleiðis frásagnir hans af eigin örlögum, af leit konungsins að fyrsta tungumálinu, tungu guðs sem muni færa mannfólkinu heiminn í sinni réttu mynd. Þessar frásagnir stangast á við heim fólksins, veruleikann og þá þekkingu sem það hefur á honum og það trúir þeim ekki. En fólkið vill heyra meira vegna þess að því finnst þetta fallegur skáldskapur og sú venja kemst á að Immanúel segir borgarbúum frá lífi sínu í konungsríkinu á hverjum sunnudegi. Með þessu getur hann sigrað hjörtu þeirra en hann veit að það yrði á fölskum forsendum, hann er ekki skáld, hann er að segja sannleikann. Úr verður heilmikil togstreita í sál hans og á milli hans og borgarbúanna sem segjast njóta sagna hans sem fagurs skóglendis en ef hann vilji ekki koma út úr trjálendinu sjálfur muni hann glatast einn inni í myrkviðnum. "Því ráðlegg ég þér að gangast við því að sögur þínar séu skáldskapur, enda munum við þá öll unna þér af heilum hug," segir einn borgarbúanna. Að endingu lætur hann undan og gengst við því að sögur hans séu skáldskapur en það hefur ófyrirséðar afleiðingar.

Bókina mætti túlka á ýmsa vegu, meðal annars sem táknsögu um stöðu eða eðli skáldsins og skáldskaparins í samfélaginu. Tungumálið og veruleikinn, draumur og veruleiki, eru grunnþemu í sögunni, eins og tíðum í fantasíum. Lýst er rofi á öllum mörkum þarna á milli en vantrúin hamlar skilningi.

Margar sögur eru innan sögunnar, draumsögur og sögur af englum og goðsagnapersónum; þarna koma fyrir þekkt fantasíuminni og vísanir í kunnar persónur úr goðsögum svo sem Rafael erkiengil, Andromedu og Amor. Sagan er raunar skógur tákna og vísana sem stundum er svolítið vandratað um. Á hinn bóginn er hún kannski einmitt þess vegna trú fantasíunni.

Borgin bak við orðin lýsir auðugu ímyndunarafli höfundarins sem tekst að skapa heillandi heim handan hins skiljanlega, heillandi táknskóg. Það er fagnaðarefni að fantasían skuli hafa fengið rödd í íslenskum bókmenntaheimi.

Þröstur Helgason Bjarni Bjarnason