ALLIR eru sammála um mikilvægi þess að hafa eitthvað fyrir stafni þegar sest er í hinn svokallaða "helga stein". Þó félagslíf aldraðra hafi aukist til muna á undanförnum árum sitja því miður alltof margir fullfrískir karlar og sprækar konur með hendur í skauti eftir að "starfsævi lýkur", eins og sagt er.
Hjartans

áhugamál mótað í leir

ALLIR eru sammála um mikilvægi þess að hafa eitthvað fyrir stafni þegar sest er í hinn svokallaða "helga stein". Þó félagslíf aldraðra hafi aukist til muna á undanförnum árum sitja því miður alltof margir fullfrískir karlar og sprækar konur með hendur í skauti eftir að "starfsævi lýkur", eins og sagt er. En kannski velta þessi "starfslok" á hverjum og einum?

Það hefur aldrei hvarflað að Haraldi Teitssyni að láta deigan síga. Eftir að hann hætti störfum fyrir aldurs sakir hefur hann ýmislegt gert til að hafa ofan fyrir sér og til að auka tekjurnar. Um árabil hefur hann t.a.m. mótað fígúrur í leir, gert afsteypur af þeim í gifsi, gefið vinum og vandamönnum og selt í verslanir.

Keypti sér leir og sköfur

En hvernig stendur á því að Haraldur tekur upp á því á gamals aldri að gerast eins konar "alþýðulistamaður"?

"Ég byrjað á þessu fyrir meira en þrettán árum en hafði þá aldrei komið nálægt þessu áður. Þannig var að ég hafði veitt því athygli að íslenskar styttur voru hvergi á boðstólum. Ég fór því á stúfana til að athuga hvort ekki væri hægt að gera eitthvað í málunum og hreinlega steypa styttur. Ég talaði við fjölmarga listamenn en fékk engar undirtektir. Svo ég fór því bara og keypti mér leir og einhverjar sköfur.

Ég byrjaði á því að búa til lágmyndir eftir teikningum sem ég fann í Njálu. Ég byrjaði á því að búa til sjö stykki, valdi fjórar og steypti hátt í hundrað stykki og setti í öskjur. Þetta var selt í Rammagerðinni og víðar og seldist ágætlega."

Fjölskrúðugt persónugallerí

Frá lágmyndunum úr Njálu hafa þróast ýmiss konar fígúrur hjá Haraldi, sitjandi og standandi. Í því persónugalleríi eru jólasveinarnir íslensku, Grýla og Leppalúði, kók- jólasveinninn í rauða búningnum, sjómenn, laxveiðimenn og fleiri. Eitt eiga þessar fígúrur Haraldar sameiginlegt og það er að þær eru allar skoplegar. "Ég hef verið með allar hugsanlegur týpur, kerlingar og karla af öllum gerðum og ég reyni alltaf að hafa svolítið sprell í þessu."

Hann byrjar á því að móta fígúrurnar sínar í leir, gerir mót eftir þeim úr sílikon-gúmmíi og steypir síðan eftir því í gifs eða annað efni. Eftir að þær eru komnar úr mótinu málar hann þær af natni og lætur síðan brenna þær í þartilgerðum ofni. Styttur Haraldar eru fáanlegar í x og y . En þó stytturnar gefi smáaur í aðra hönd þegar vel gengur segist Haraldur gera þetta vegna ánægjunnar: "En það er náttúrlega bilun að gera þetta fyrir engan pening því það fara 2­4 tímar samtals í hverja styttu fyrir utan allt annað umstang."

Haraldi er reyndar fleira til lista lagt. Við hliðina á tölvunni hans má sjá handrit að þýðingu á smásagnasafni eftir bandaríska rithöfundinn John Steinbeck. "Ég hef alltaf verið með annan fótinn í skriftum. Um og innan við tvítugt skrifaði ég mikið smásögur. Það hafa birst yfir fjörutíu smásögur í tímaritum eins og Bergmáli, Hjartaásnum, Vikunni og á fleiri stöðum. Seinni árin hafa birst sögur eftir mig í Lesbók Morgunblaðsins."

Áhugamál lífsnauðsyn

Hann hefur stundað mörg störf um ævina, m.a. verið blaðamaður og starfað lengi við skrifstofu- og sölustörf. Fertugur lærði hann síðan til kokks. "Ég starfaði við þetta í mörg ár og sé ekki eftir því."

Ég spyr hann hvort hann eldi fyrir sjálfan sig.

"Alltaf. Allt það sem ég þarf." Áhuginn á kokkamennsku varð til þess að hann gaf út Kryddkverið árið 1983 og 1993 gaf hann út enn ítarlegri kryddbók.

Haraldur segir áhugamál lífsnauðsyn, ekki síst þegar menn eru hættir að vinna. "Það er ekki hægt annað. Það er ekkert líf að vera orðinn sjötugur og hafa ekkert fyrir stafni. Það er voða skemmtilegt að vinna fígúrur í leir og flestir geta gert þetta. Það er bara að prófa."

Haraldi leiðist þó að geta ekki teiknað. "Ég finn hvað það háir mér. Leirinn ræður eiginlega meira en ég. Ég sé fyrir mér bústinn kinnamikinn karl og svo kemur bara einn kinnfiskasoginn út. Og öfugt. En oft koma skringilegar fígúrur út sem ég á ekki von á. Ég held að það hjálpi mér í þessu að hafa húmor. Ef fyrstu viðbrögð fólks þegar það lítur stytturnar mínar augum er bros þá finnst mér ég hafa náð einhverjum árangri."

Óplægður akur

Styttugerðin er Haraldi hjartans mál og hann er gagnrýninn á ástandið. "Það eru svo og svo margir leirlistamenn eða leirgerðarmenn útskrifaðir úr Myndlista- og handíðaskólanum á hverju ári og verulegur hluti af þessu stórflinkt fólk, listafólk. Það er ekki fyrr útskrifað en það sest niður einhvers staðar við að renna skálar og blómavasa. Þetta er allt eins nema að það er bara misjafnlega ljótt! Fígúrur, menn eða dýr, eru ekki til.

Það hefur bókstaflega ekkert verið gert síðan Guðmundur Einarsson í Miðgarði gerði sínar frægu dýramyndir. Þær eru safngripir í dag. Það er ekki skammlaust fyrir allt þetta færa fólk að það skuli ekki fást ein einasta íslensk stytta á gjafamarkaðnum í dag á Íslandi. En það er flutt inn fyrir tugi milljóna. Ég hvet leirlistafólk eindregið til að búa til styttur. Þetta er alveg óplægður akur og feiknapeningur í þessu. Það væri nú ekki úr vegi að Ferðamálaráð eða einhver álíka aðili setti upp samkeppni um landkynningarstyttur t.d. af fornmönnum og íslenskum dýrum."

Geir Svansson

Morgunblaðið/Jónas Fagradal HARALDUR leggur lokahönd á aldraðan sjómann.

Morgunblaðið/Kristinn SKONDNAR fígúrur úr ýmsum áttum.BÍRÆFINN kólasveinn.

HINN dæmigerði myndlistamaður.