UM ÞESSAR mundir eru nöfn Solveigar og sr. Odds frá Miklabæ á margra vörum. Leikritahöfundar og sagnaskáld hafa séð til þess, og þar á ég við leikrit Ragnars Arnalds; Solveig, sem nú er á fjölum Þjóðleikhússins og

"Á MIKLABÆ SVO

MARGT TIL BER"

EFTIR RAGNAR FJALAR LÁRUSSON

Miklabæjar-Solveig, séra Oddur og örlög þeirra, ­ allt er það ljóslifandi eftir nýja bók og nýtt leikrit um þetta dramatíska ástarævintýri. Sólveig fékk leg í vígðri mold og kirkjulegan yfirsöng eftir óskir frá miðlum, en hvað varð um séra Odd? Greinarhöfundurinn hefur komist yfir heimild um að lík hans hafi fundizt og verið laumað í kirkjugarð í Héraðsdal því grunur lék á um sjálfsmorð og þar með gat séra Oddur ekki fengið legstað í vígðri mold.UM ÞESSAR mundir eru nöfn Solveigar og sr. Odds frá Miklabæ á margra vörum. Leikritahöfundar og sagnaskáld hafa séð til þess, og þar á ég við leikrit Ragnars Arnalds; Solveig, sem nú er á fjölum Þjóðleikhússins og skáldsögu Björns Th. Björnssonar; Solka, sem út kom á síðastliðnu ári. Bæði eru þessi verk góð að mínum dómi. Þau taka í hönd alþýðustúlkunnar, Solveigar, sem orðið hefur fyrir þungum örlögum, reisa hana á fætur og leysa af henni þá fjötra, sem aldarandi liðinna kynslóða hafði fært hana í, og setja hana á þann bekk, sem hún á eflaust skilið. Ég ætla mér ekki að ræða þessi verk frekar, en þessu dularfullu og óráðnu mál, sem gerðust á Miklabæ í Skagafirði á síðari hluta 18. aldar: dauði Solveigar og hvarf sr. Odds, hafa verið mér einkar hugleikin frá bernskudögum enda er ég frá Miklabæ kominn, ef svo mætti segja, móðurafi minn, sr. Björn Jónsson, var þar prestur og prófastur um áratuga skeið og faðir minn, sr. Lárus Arnórsson, tók við af honum og þjónaði þar í 43 ár og alllöngu síðar gerðist sonur minn, sr. Þórsteinn, prestur þar í tæpan áratug, svo að Miklibær skipar stóran sess í huga mínum.

Bein Solveigar grafin upp

Þegar ég var 10 ára gamall sumarið 1937 gerðist minnisstæður atburður á Miklabæ, sem ég aldrei gleymi. Faðir minn sr. Lárus var þá prestur þar og gef ég honum orðið, en hann ritaði tímaritsgrein um þessa atburði.

"Fyrsta vitneskja um þetta barst mér til eyrna þann 11. júní í vor, er Pétur Zophoníasson ættfræðingur í Reykjavík símaði til mín og spurði mig, hvort eg vildi veita aðstoð mína til þess, að jarðneskar leifar Solveigar yrðu grafnar upp á Miklabæ og jarðaðar í kirkjugarðinum að Glaumbæ. Kvað hann ástæðuna þá, að vera, sem tjáði sig vera Solveigu, og þó öllu fremur verur, er báru hag hennar fyrir brjósti, hefði gert vart við sig á miðilsfundi í Reykjavík, og beiðst þess, að beinin yrðu flutt og jarðsungin að venjulegum hætti að Glaumbæ. Í þessum skeytum hafði verið bent á okkur Pétur, ásamt þriðja manni, og við beðnir að koma máli þessu í framkvæmd.

Eg tjáði mig þegar fúsan til að leggja mitt lið til þessa verks, enda taldi ég það siðferðilega skyldu mína að daufheyrast ekki við slíkri beiðni, en tók jafnframt fram, að ég setti að skilyrði að leyfi biskups fengist til, enda væri mér ókunnugt um heimild mína til þess arna. Fól ég Pétri að útvega það leyfi.

Það orð lá á frá fornu fari, að Solveig lægi grafin norðan undir kirkjugarði á Miklabæ austanverðum. Á þeim stað stóð fyrir svo sem þrem áratugum þúfa eða þúst út úr kirkjugarðveggnum, sem kölluð var "leiðið hennar Solveigar". Nálægt 1910 var kirkjugarðurinn á Miklabæ stækkaður ­ til norðurs. Komst þá gröf Solveigar inn í garðinn. En 22. des. 1914 var lík gamallar konu hér í sveitinni grafið hér í kirkjugarðinum. Þá gröf tóku þeir Sigurður Einarsson (heimamaður Þorsteins Björnssonar bónda á Hrólfsstöðum, er síðar verður nefndur) og Jóhannes Bjarnason bóndi í Grundarkoti. Gröfina tóku þeir á mótum gamla garðsins og viðaukans. En er þeir komu nokkuð langt niður, komu þeir ofan á kistu, sem "lá út og suður". Varð þá Sigurði að orði: "Hver skyldi þetta nú vera?" Þá svaraði Jóhannes (og kenndi sannfæringar í rómnum): "Ætli það sé ekki Solveig."

Þegar þetta gerðist var prestur á Miklabæ fyrirrennari minn, séra Björn Jónsson, hinn mesti merkisprestur og fræðimaður ágætur. Þá er grafarmenn skýrðu honum frá sínum óvænta fundi, bað hann þá að hafa ekki orð á þessu. Fóru þeir að orðum hans, og fyrir því varð miklu hljóðara um þennan fund, en ella hefði orðið. ­ En ekki taldi sr. Björn minnsta vafa leika á því, að þetta hefði verið kista Solveigar; það sagði hann mér sjálfur síðar.

Eins og áður getur um, lá kista Solveigar út og suður. Lá hún því þvert á gröfina, sem verið var að taka. Hefir Sigurður sagt mér svo frá, að sér hefði virzt sem reynt hefði verið að teygja höfðalag kistunnar inn undir kirkjugarðsvegginn, eins og það hefði verið viðleitni þeirra manna, er sáu um gröft hennar, að koma henni sem næst vígðri mold, svo sem Solveig hafði sjálf óskað. ­ Þegar hreyft var við kistunni liðaðist hún í sundur og lögðu grafarmenn fjalirnar úr henni samhliða kistu þeirri, er þeir voru að taka gröf að, sunnan við þá kistu. En er kista Solveigar var upp tekin, kom fram skúti sunnan við nýju gröfina; í þann skúta lögðu þeir beinin.

Nú vildi svo til að Sigurður sá, er gröf þessa tók (en hann er nú bóndi í Stokkhólma hér í hreppi), var eitt sinn staddur á Miklabæ sl. vetur og var hann þá að rifja þessa atburði upp við okkur hjónin. Þegar því Zophonías Pétursson kom norður, til þess að grafa upp beinin, var okkur hjónunum í fersku minni frásögn Sigurðar, og vissum við því vel, hvert leita skyldi upplýsinga um legstað Solveigar. En svo vildi einnig til, að hér á næsta bæ var þá um tíma staddur sonur konu þeirrar, er grafin var, þá er komið var ofan á kistu Solveigar, en sá maður á nú heima á Suðurlandi. Þótti mér nú bera vel í veiði og fékk eg hann til að koma á vettvang, til þess að segja mér, hvar leiði móður hans væri. Var svo til stillt, að þeir komu samtímis á staðinn, hann og Sigurður, en þá brá svo við, að þeim bar ekki saman um legstaðinn og munaði a.m.k. fullri grafarlengd eftir skoðun þeirra. En með því að eg vissi, að sonur konunnar, sem grafin hafði verið, var skilríkur maður (en það er Sigurður líka), þá lagði ég til að grafið yrði á þeim stað, er hann sagði til, því að mér fannst ástæða til að treysta honum betur, þar sem um gröf móður hans var að ræða. Var svo gert, en árangurslaust; þar var í garðinum með öllu órótuð jörð. ­ Þótti nú í bili ekki vænlega áhorfa. Sigurður var farinn og all- erfitt að ná til hans, þar sem hann var einn af fjárpestavörðunum við Héraðsvötn, og átti varðsvæði úti í Hegranesi. Hinsvegar leiði í garðinum óskipuleg á þeim stað, er hann hafði bent til, og ekki gott að átta sig á, hvar helzt skyldi niður bera. Leið svo ein nótt eða tvær. Þá dreymir Þorstein á Hrólfsstöðum, að til hans kemur maður hár og herðibreiður og var festa og ró yfir svipnum. Þykir honum maðurinn vera sr. Oddur á Miklabæ. Þorsteini finnst sr. Oddur segja við sig: "Eg sé á þér, að þú ætlar að gera þetta fyrir okkur." Þorsteini þótti sr. Oddur eiga við það, að hann legði lið sitt að því, að leita beina Solveigar. ­ Eftir draum þennan reið Þorsteinn til fundar við Sigurð í Stokkhólma og bað hann að leita með sér beinanna. Lét Sigurður til leiðast, og er skemmst frá að segja, að þeir Þorsteinn grófu á þeim stað, er Sigurður hafði áður á vísað, og gengu þar að öllu svo sem Sigurður hafði áður við skilið og frá sagt. Fjalirnar úr kistu Solveigar lágu hlið við hlið sunnan við kistu þá, er Sigurður taldi geyma leifar gömlu konunnar, sem grafin var 22. des. 1914. Skútinn var og ennþá sýnilegur, sá er fram kom, er kista Solveigar hafði verið upp tekin 22 ári áður. Þar lágu og beinin, en mjög höfðu þau fúnað á þessu árabili. Stærstu og hörðustu beinin héldu sér samt vel. Mældum við Stefán á Höskuldsstöðum sum helztu beinin, svo sem höfuðkúpu og lærlegg. Af stærð höfuðkúpu virtist okkur hún vera sem svaraði af fremur litlu kvenmannshöfði, og af tönnum ályktuðum við, að hún hefði verið á þrítugsaldri. Lengd lærleggs var 39 cm, og mun það vera stærð fremur lágvaxinnar konu. Þá var og enn auðvelt að ákveða lengd kistunnar og breidd, þar sem sumar fjalirnar höfðu fulla lengd. Hefir hún verið 147 cm löng og 42 cm breið. Járnhringur (úr ca. 8 mm járni) 5 cm í þvermál fannst í moldinni, og hafði hann verið í gafli kistunnar. Sáust og járnspengur í gaflfjöl. Gat Stefán á Höskuldsstöðum til, að þetta hafi verið fatakista Solveigar, sem hún var grafin í, og þykir mér sú tilgáta mjög sennileg, enda munu sögusagnir til vera fyrir því, að svo hafi verið. ­ Auk þessa, sem nú hefir verið getið, fannst í moldinni innan um beinin ein silfurmilla og ofurlítil pjatla af mjög sterkum dúk. Var hvorugur sá hlutur grafinn með beinunum. ­ Pjötlunnar hafði sérstaklega verið getið í miðilssambandinu.

Tilgangur beinaflutningsins var a.m.k. tvíþættur. Annars vegar sá, að veita Solveigu þá blessun, sem kirkjan er vön að veita hverju barni sínu, jafnt breysku sem staðföstu. Hinsvegar sá að hafa áhrif á hugsunarhátt fólksins: að lægja óttann og andúðina, en skapa öryggi og samúð. Í miðilssambandinu var mikil áherzla lögð á, að fá fyrirbæn og hana almenna."

Flutningur beinanna að Glaumbæ

"Sjálfur beinaflutningurinn fór fram sunnudaginn 11. júlí. Flutti eg guðsþjónustu á báðum kirkjum, Miklabæ og Glaumbæ, og jafnframt fyrirbæn fyrir Solveigu. Margt manna var viðstatt á báðum stöðum. Kista hafði verið smíðuð og beinin kistulögð nokkrum dögum áður.

Til eru þeir, sem telja það furðu gegna, að prestur skuli hafa fengizt til að leggja lið slíkri athöfn, sem þeirri er hér var lýst. Eg gekk þess aldrei dulinn, að svo mundi vera. Lífið er alvara en ekki fordild ­ líftaug þess er samúð, en ekki dómsýki og lítilsvirðing á kjörum annarra, þroskaleiðin sjálfsafneitun og þjónusta, en ekki sjálfbirgingsháttur og hroki. ­ Mér dylst ekki, að sumir þeir, er vilja kallast trúmenn, telji að mikil hjátrú komi fram í því að taka slíka hluti hátíðlega. En það er máske meira vandaverk en þessir sömu menn ætla: að draga hreinar línur milli trúar og hjátrúar, og slysalegt mætti það teljast, ef "trúmanni" yrði það á að telja t.d. fyrirbæn til hjátrúar. Og þá er það ekki síður slysalegt, er menn, er vilja vera kristnir, líta með lítilsvirðingu á þá viðleitni að hjálpa þeim, sem í raunir hafa ratað, hversu mikill hluti þeirra rauna sem kann að vera sjálfskaparvíti. Það er þó ekki svo lítið af orðum, sem meistarinn mildi hefir látið til vor berast, er varðað geti veginn í því efni. Á vörum hans liggur blessunarorð til þeirra, sem eru miskunnsamir, jafnvel heil saga til þess sögð að leggja áherslu á samúðina og víkka og dýpka farveguna, sem liggja frá sál til sálar. Og fyrst hann gat sjálfur auðkennt hlutverk sitt með orðunum "að leita að hinu týnda til að frelsa það", þá ættum vér, sem viljum vera þjónar hans, ekki að telja neðan við virðingu vora að leggja lið að því, að leysa þann bundna, þegar hann kemur sjálfur til vor með beiðni um hjálp. "Í fangelsi og þér vitjuðuð mín." ... Og: "Svo framarlega sem þér hafið gjört þetta einum þessum minnstu bræðrum mínum, þá hafið þér gjört mér það.""

Lok útfararræðu yfir Solveigu

Ég hefi undir höndum ræðu þá er faðir minn flutti við þessa athöfn, andi hennar hefir að nokkru komið fram í frásögn hans, en lokaorð hennar eru þessi: "Verum elskandi og miskunnsöm, verum skilningsfull og samúðarrík. Látum þá líka hugsunina um þjáningar Solveigar og langt, dapurt stríð byggja upp samúð í brjóstum vorum henni til blessunar og þroska. Gleymum augnablik sjálfum oss. Festum sjónar á náunganum, sjáum bróður og systur í hverju mannsbarni, í hverjum bróður og systur elskað barn Guðs. Stefnum öll á hans háleita mark, og munum sannleika hins forna spakmælis: "að vegurinn til Guðs liggur um hlaðið hjá náunganum." Og gleymum ekki þeim mættinum sem vér eigum dýrlegastan yfir að ráða, bænarmættinum. Iðkum fyrirbæn, temjum oss að biðja fyrir öllum þeim sem eiga bágt og venjum börn vor snemma við hið sama. Sáum blessunarríku sæði samúðarinnar í hin ungu og vaxandi hjörtu, samúðina til alls sem lifir og finnur til, til allrar tilverunnar. Amen."

Ég man vel litlu hvítu líkkistuna, sem stóð í kór Miklabæjarkirkju undir altaristöflunni, sem sr. Oddur hafði gefið kirkjunni árið 1775 en nafn hans og ártal stóð neðst á töflunni. Þessi tafla brann með kirkjunni árið 1972.

Við börnin fengum að sjá kistuna eftir að beinunum hafði verið raðað í hana og henni lokað og okkur var sagt að óhamingjusöm kona ætti þessi bein og að við ættum að biðja fyrir sál hennar. Síðan signdum við yfir kistuna, og nokkrum dögum síðar var hún svo flutt á þann stað sem henni var ætlaður, eins og áður er sagt.

Þessir atburðir höfðu djúp áhrif á barnssálina og ef til vill varð það til þess að við fórum að hugsa um þá sem bágt eiga og litum nú öðrum augum til Solveigar en við höfðum áður gert.

Af Solveigu

Víkjum nú að nokkrum staðreyndum þessa máls. Um Solveigu eru mjög fáar áreiðanlegar heimildir. Ekki er einu sinni vitað með fullri vissu hvers dóttir hún var og ekki heldur hvaðan hún kom. En hún mun ung hafa gerst ráðskona hjá Oddi presti, sem á fyrri prestskapsárum sínum á Miklabæ var ókvæntur. Jón Jóhannesson fræðimaður segir í þætti sínum af sr. Oddi: "Til hans réðst ung stúlka utan úr Sléttuhlíð (sumir segja úr Fljótum) er Solveig hét. Hrólfur Einarsson er var háaldraður í Lónkoti í Sléttuhlíð á uppvaxtarárum mínum sagði mér, að sig minnti að hann hefði heyrt að hún hefði verið úr Hrollleifsdal og Þorleifsdóttir." Og hann heldur áfram: "Solveig var lítillar ættar, en vel að sér ger og hin sjálegasta. Nokkuð þótti hún lundstór, en stillti þó vel í hóf, var ágætlega verki farin og stundaði bú prests mæta vel."

Önnur heimild frá hendi sr. Páls á Brúarlandi segir svo: "Oddur þessi bjó fyrst fram í Skagafjarðardölum, með ráðskonu er Solveig hét. Þar eftir vígðist hann til Miklabæjar og Silfrastaða í Blönduhlíð og þangað fór ráðskona með honum. Hún vildi fegin eiga hann, en hann vildi ekki. Hún hafði verið stillt og skikkanleg stúlka og bar harm sinn í hljóði. Eftir þetta giftist séra Oddur stúlku er Guðrún hét. Solveig var samt kyrr hjá þeim sem vinnukona."

Þannig ber heimildum ekki saman um hvaðan Solveig kom að Miklabæ, utan úr Fljótum eða framan úr Skagafjarðardölum. Hvergi er nafn hennar skráð í kirkjubókum Miklabæjarprestakalls. Slíkt er ef til vill ekki að undra, þar sem prestar skráðu á þeim tímum í kirkjubók aðeins prestsverk, skírnir, fermingar, hjónavígslur og greftranir, engin manntöl voru gerð nema stöku sinnum talningar fólks hve margir voru á hverjum bæ, ein slík er til frá hendi sr. Odds frá árinu 1785.

Misskilningur um nafn Solveigar í kirkjubók

Sá misskilningur hefir komist á kreik að nafn Solveigar hafi verið klippt út úr kirkjubókinni til að afmá nafn hennar þar. Það er að vísu rétt að ferhyrnt stykki hefir verið klippt úr, og það hefir prestur sjálfur gert, sjálfsagt vegna misskriftar, en það er ekki á því ári sem Solveig lést, heldur ári síðar, og ekki í dálknum um dána heldur í dálknum um skírða, og auk þess er á síðari hluta blaðsins beint framhald fyrir neðan úrklippuna og við það sem ofar er, svo að klippt er áður en skráð er aftan á þetta blað. Dauða Solveigar er ekki getið í kirkjubók vegna þess að hún framdi sjálfsvíg, en þeir sem tóku líf sitt með þeim hætti fengu ekki kirkjulegan yfirsöng eða útför að kristnum sið. Slík harka er ótrúleg og óskiljanleg og ekki í anda Frelsarans, sem sagði um hórseku konuna "Sá yður sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana". Sama er að segja um nafn sr. Odds. Dauðsfall hans er hvergi skráð í þá kirkjubók er hann lét eftir sig, vegna þess að greftrun hans var aldrei gerð, þar sem lík hans fannst ekki svo fullvíst sé. Minningarathafnir um þá sem létust tíðkuðust ekki í þá daga.

Eins og fyrr segir vitum við sára fátt um Solveigu. Flest það sem um hana er ritað er skráð löngu eftir dauða hennar og ber flest með sér blæ þjóðsögunnar og draugatrúarinnar. En sjálfsagt hefir hún verið myndarleg og vel gerð alþýðustúlka, sem sómt hefði sér vel í hvaða sæti sem var, líka sem prestsfrú við hlið sr. Odds, sem var af fyrirfólki kominn, biskupssonur og átti annan biskup að afa. En eitt er þó nokkurn veginn víst, að Solveig fyrirfór sér vegna sinnisveiki, um það ber annálum saman. Ein elsta heimild um það er skráð af Hallgrími Jónssyni djákna f. 1780, d. 1836. Hann tók saman annál og er þar ítarleg frásögn af dauða Solveigar sem virðist "skrásett þegar eftir atburð þennan" eins og Hannes þjóðskjalavörður segir. Hallgrímur skrifar: "1778. Laugardaginn fyrir pálmasunnud. (11. apríl) skar sig á háls ógipt stúlka á Miklabæ í Blönduhlíð í Skagafirði af sinnisveiki. Var prestinum tilsagt og var hún með lífsmarki, þá hann kom, og sem hann sá þessa skelfilegu sjón, féll hann í öngvit, en sem hann við raknaði var hún dáin. Hún hét Solveig. Meintu sumir að hún hefði viljað eiga prestinn, hafði hún áður ráðskona hjá honum verið." "Hallgrímur settist í Hólaskóla 1795 og hafði því möguleika til að hitta heimildarmenn, jafnvel sjónarvotta og ugglaust hefur Hólamönnum orðið tíðrætt um þessa atburði, dauða Solveigar og hvarf biskupssonar" segir Sölvi Sveinsson í ritgerð sinni "Af Solveigu og sr. Oddi", sem birtist í Skagfirðingabók 1986 er 200 ár voru liðin frá hvarfi sr. Odds. Í þessari ritgerð tínir hann saman flestar eða allar tiltækar heimildir um þessa atburði og er mjög fróðlegt og gott fyrir þá sem vilja kynna sér þessi mál nánar að lesa þessa ritsmíð og hefi ég stuðst við hana í þessari grein minni.

Af sr. Oddi

Þá komum við að sr. Oddi, ætt hans og uppruna. Hann var fæddur á Miðfelli í Hrunamannahreppi árið 1740. Sr. Gísli faðir hans var Magnússon prests á Grenjaðastað Markússonar prests í Laufási, en móðir sr. Odds var Ingibjörg Sigurðardóttir lögsagnara á Geitaskarði Einarssonar biskups á Hólum Þorsteinssonar. Þau hjón voru systkinabörn. Þau áttu tvö önnur börn, Magnús sýslumann í Húnavatnsþingi og Kristínu konu Hálfdánar Einarssonar skólameistara á Hólum.

Sr. Gísli varð biskup á Hólum eftir fráfall Halldórs Brynjólfssonar biskups, og tók við stólnum árið 1755 eftir biskupsvígslu í Vorrar-frúarkirkju. Með honum kom til Íslands eftir vígslu Hálfdán Einarsson, lærður gáfumaður, sem tók við skólameistaraembætti á Hólum. Gísli biskup lét taka niður "Halldórukirkju" svonefnda og reisti steinkirkju þá, sem nú er staðarprýði. Hann bætti húsakost á Hólum og lét prenta margar bækur og kver og verður því talinn með merkari Hólabiskupum.

Oddur var skráður í Hólaskóla sama haust og hann kom til staðarins og naut handleiðslu Hálfdánar skólameistara. Eftir nám sitt á Hólum hélt hann til Kaupmannahafnar og lauk þar guðfræðiprófi 1765. Vafalaust hefir hann verið í brúðkaupi Hálfdánar skólameistara og Kristínar systur sinnar 1. okt. 1766. Honum var veittur Miklibær í Blönduhlíð 18. júlí 1767, vígður prestur sama ár og tók við prestakallinu 1. júní 1768.

Lýsingar samtímamanna á sr. Oddi eru fáar. Árni Þórarinsson biskup á Hólum 1784- 87 kvað sér vel kunnugt "að hann hefði fremur litlar gáfur og væri enginn lærdómsmaður þótt hann væri "attestatius" og ekki kveðst vera svo áreiðanlega viss um reglusemi hans og kostgæfni í embættisfærslu, eins og vera þyrfti til að geta gefið honum meðmæli til frömunar".

Kirkjubækur sr. Odds

Naumast er þessi dómur biskups réttur a.m.k. ekki hvað viðvíkur embættisfærslu Odds, en ég hefi rannsakað gaumgæfilega kirkjubækur hans tvær, aðra yfir árin 1768- 1784 og svo aðra stærri og meiri bók yfir árin 1785-6 en hann lýkur að sjálfsögðu ekki við seinna árið, því að það er árið, sem hann lést, svo og skjöl send biskupi, sem hann nefnir; Listar yfir Miklabæjar- og Silfrastaðasóknir frá Annó 1768-1785. Þar er skráð með mikilli vandvirkni confirmeraðir (fermdir) copuleruð (gift) nati (fæddir) denati (dauðir) tölur þeirra sem þessi prestverk, ferming, hjónavígsla, skírn og geftrun nær yfir. Auk þess færir hann fólkstölu í Miklabæjar- og Silfrastaðasókn árið 1785, eru þá 30 býli í báðum sóknum alls með 185 sálum. Þá er skrá til biskups yfir þetta ár yfir gifta, fædda og dána og önnur yfir fermda. Greinilegt er að Árni biskup hefir óskað eftir nákvæmari skýrslu frá prestum en fyrirrennari hans og komið á öðru formi á kirkjubókum. Ég á öll þessi skjöl ljósrituð og raunar allt sem ég veit um að sr. Oddur hefir skrifað eða það sem tengist honum á einhvern hátt frá 18. öldinni. Ég er þess fullviss að aðrir prestar hafa ekki gert betri skýrslur, skriftin er falleg og læsileg. Sé fundið að slíkri skýrslugerð "ekki svo viss um reglusemi hans og kostgæfni í embættisfærslu" eins og segir í orðum Árna biskups, þá gæti eins verið ljóður á orðum hans að sr. Oddur "hafi haft fremur litlar gáfur" og fremur ólíklegt er að sonur Gísla biskups hins duglega og vel gefna manns, sem tvítugur skrifaði formála að Húss Töflu Jóns Magnússonar, sem kom út í Kaupmannahöfn árið 1734, enda taldi Finnur biskup Jónsson sr. Gísla hæfastan til að taka að sér biskupsstöðuna á þeim tíma, er hann var kosinn.

Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður, bætir því við um sr. Odd, að hann hafi verið "fríður sýnum, stór vexti, hraustmenni, söngmaður góður og skrifari sæmilegur". Sighvatur Borgfirðingur lýsir Oddi með líkum hætti: "Hann var góður söngmaður og ritari, ræðumaður sæmilegur, en mistækur, góðmenni en undarlegur, einkum við öl." Jón Esphólín sýslumaður segir í árbók sinni "hafði hann (Oddur) þótt maður nokkuð sérlegur í háttum og hlaupið eitt sinn frá öðrum mönnum til fjalls".

Sr. Oddur tók við Miklabæ vorið 1768 og innan húss réð ráðskonan Solveig ríkjum. Engar sagnir eru um það hve lengi hún dvaldi þar, og varla víst hvort hún var ráðskona hans. En líklegt má það teljast. En hitt er víst að fyrstu 9 árin var prestur ókvæntur og bjó með ráðskonu, hvort ást hefir verið þar í meinum eða ekki skal ekki fullyrt. Fremur er hallast á þá sveif, að ráðskonan hafi sóst eftir presti en hann haldið henni frá sér. Hitt kann þó vel að vera að ástarsamband hafi verið milli þeirra og á því byggjast skáldsögur og leikrit.

Meistari Hálfdán, mágur Odds var um vorið 1777 í Goðdölum og gekk frá trúlofun Odds og Guðrúnar Jónsdóttur prests Sveinssonar og síðar um sumarið var haldið brúðkaup þeirra á Hólum. Sr. Oddur var þá 37 ára en Guðrún kona hans 25 ára. Hin unga prestsmaddama tók nú við búsforráðum á Miklabæ en Solveig var þar þó kyrr. Þykir mér það fremur benda til þess að Solveig hafi verið hjú prestsins en ástkona hans. Það má fullvíst telja að hún hafi þá verið orðin sinnisveik og var hún í gæslu af þeim sökum. Hún komst þó úr gæslunni og fargaði sér. Án efa hefur sr. Oddur tekið nærri sér dauða hennar. Og árin líða. Í júní-mánuði 1783 hófust Skaftáreldarnir, "móðuharðindin" svonefndu og fylgdi þeim gróðureitrun, svo að búpeningur féll og síðan menn. Í Miklabæjar- og Silfrastaðasóknum kom þetta niður eins og annars staðar. Árið 1783 jarðsetti prestur 4 manneskjur en 1784, þegar móðuharðinda fór að gæta, jarðsetti hann 27 manns úr sóknum sínum og er ekki undarlegt að slík blóðtaka hafi haft mikil áhrif á veiklundaðan mann. Og árið 1786 rennur upp. Þá er aftur byrjað að birta til í þeim miklu hörmungum, sem þjóðin er að ganga í gegnum, en um haustið gerist atburðurinn voveiflegi.

Um hvarf sr. Odds

Sýslumaður Skagfirðinga Jón Espólín segir svo frá. "Þetta haust bar það við 1ta Octobris mánaðar, að Oddur prestur reið fram að Silfrastöðum til annexíukirkju sinnar; en er hann kom aftur, reið hann um á Víðivöllum og drakk þar kaffi; kvaðst þá vilja heim; sýslumaður bauð honum fylgd heim um kvöldið, þó það væri örskammt, því hlákumyrkur var mikið, en hann vildi ekki. Og um morguninn eftir var hesturinn í túninu með reiðtygjum óspjölluðum, en sumir segja keyrið væri lagt á kirkjugarðinn, en prestur fannst hvergi. Leituðu hans 40 menn í 8 daga, og varð hann aldrei fundinn og ekkert af honum, og voru um það margar gátur, en engar líklegar. Kölluðu sumir hann verið mundi hafa heillaðan, og tók einn maður sessu hans og lét undir höfuð sér um nótt, en fékk ótta mikinn í svefninum, svo hann freistaði þess aldrei oftar, og varð mikið hjátrúarefni. En þeirra gáta var helzt líkleg eða eðlilegust, sem ætluðu hann komizt hafa heim og farið af hestinum og villzt svo gangandi ofan í Vötn, en þótt þau væri langt á brottu og í þeim væri leitað sem varð, eða þá að hann hafi hlaupið á fjöll upp, sem hann hafði fyrri gjört."

Margir annálar og sagnaritarar segja frá þessum atburði og ber þeim í stórum dráttum saman, en eftir því sem líður á 19. öldina bera frásagnirnar meiri og meiri keim þjóðsögunnar.

Guðlaugur Sveinsson (1731-1807) prestur í Vatnsfirði tók saman Vatnsfjarðarannál hinn yngsta nokkrum árum eftir að sr. Oddur fór sína hinstu ferð. Yfirleitt er annáll Guðlaugs talinn nokkuð traustur. Árið 1786 er greint frá dauða sr. Odds Gíslasonar á Miklabæ í Blönduhlíð í Skagafjarðarsýslu. "Hann hafi komið frá annexíukirkju sinni, Silfrastöðum, stóð lítið við hjá sýslumanni Vigfúsi Scheving á Víðivöllum átti mjög stutt heim, en fannst eigi, þó að 50 manns leituðu hans í nokkra daga, fyrr en ári síðar".

Hver urðu örlög sr. Odds Gíslasonar? Þar kemur ekki nema tvennt til, annaðhvort var hann myrtur eða hann fargaði sér með einhverjum hætti. Fyrri tilgátan er ósennileg, þar sem ekki er vitað að prestur ætti neina óvildarmenn, enda er slíkt hvergi gefið í skyn í frásögnum um hvarf hans, hinn síðari kostur er miklu líklegri að hinn veikgeðja prestur hafi kiknað undan byrðum lífsins og erfiðleikum sóknar sinnar og þjóðar, og eflaust hefir lát Solveigar alltaf legið þungt á huga hans.

En Vatnsfjarðarannáll er ekki eina heimildin um líkfund sr. Odds. Önnur er ennþá eldri og skýrari, sennilega elsta skráða heimildin um dauða hans. Þann 6. ág. 1789 skrifaði Ragnheiður Þórarinsd. í Viðey bréf til Sveins Pálssonar sem var við nám í Kaupmannahöfn, síðar læknis. Ragnheiður var gift Jóni Skúlasyni Magnússonar landfógeta og tíundar í bréfi sínu í fáum orðum ýmislegt sem fréttnæmt gæti talist. "Í dag skal vera grafinn sál biskup Finnur og i martio i vetur sál sýslumaður Magnús Gíslason í Húnavatnssýslu og systir hans mad. Kristín á Hólum, en sú gamla frú móðir þeirra lifir enn í kör með fullri rænu vel ánægð með allt þetta og sr. Oddur Gíslason er í vor fundinn niðri í læk þeim, er Gegnir heitir."

Ekki er vitað með vissu hvaðan Ragnheiði komu þessi tíðindi um líkfund sr. Odds. Hún átti fjölmennan frændgarð á Norðurlandi. Þórarinn faðir hennar Jónsson sýslumaður í Eyjafirði og Vigfús Scheving á Viðivöllum áttu systur, Sigríði og Önnu Stefánsdætur frá Höskuldsstöðum á Skagaströnd.

Skoðun Benedikts Gíslasonar

Benedikt Gíslason frá Hofteigi skrifar athyglisverða grein um sr. Odd og hvarf hans. Í bók sinni Fólk og saga rekur hann atburðinn skilmerkilega og segir síðan.

"Það sést um morguninn eftir á Miklabæ hvað skeð hefur. Hestur prests heima við, og kannski önnur merki um heimkomu hans, og stutt í Víðivelli að fá fréttir frá deginum áður. Vigfús sýslumaður, og allir vitibornir menn, vita auðvitað hvað skeð hefur. Maðurinn hefur fyrirfarið sér ­ en það er voði í sambandi við málið. Það verður að grafa hann utangarðs ef hann finnst. Það væri gott að það dragist ef einhver ráð fyndust til að komast fram hjá því. Það er leitað mikið, en bara ekki líklega. Það er ekki líkindi á því, að það fáist leyfi til að jarða sr. Odd innangarðs, ef hann finnst. Árni Þórarinsson er biskup á Hólum, maður stórfengur, ódæll og eigi mikill vinur né velfúsumaður í höfðingjadæmi Norðlendinga. Það gæti ekki komið verra fyrir en séra Oddur fyndist, en ágætt að sögurnar af afturgöngu Solveigar séu sem ferlegastar.

Séra Oddur finnst ekki og um vorið kemur nýr prestur í Miklabæ, Pétur Pétursson, nákunnugur maður öllu á Miklabæ og í Skagafirði. Kona hans er Elín Grímólfsdóttir prests í Glaumbæ, Illugasonar. Þau séra Oddur eru þremenningar. Árni biskup deyr 5. júlí um sumarið, og Þorkell Ólafsson, biskups Gíslasonar í Skálholti, verður stiftprófastur og í biskupsstað, ágætur maður en skörungur enginn. Það er ekki líklegt, að hann taki á sig þá ábyrgð, að leyfa kirkjuleg, þeim, sem þar eru útilokaðir eftir kirkjuskipaninni. Enn lifir Ingibjörg móðir séra Odds og systkini hans, Magnús sýslumaður á Geitaskarði og Kristín ekkja Háldánar Einarssonar skólameistara. Þetta fólk er ekki hægt að láta vera vitni að því, að séra Oddur sé grafinn utan kirkjugarðs. Þá er betra að hann finnist ekki, jafn augljóst eins og það er, að hans er ekki langt að leita.

Það er árið 1789. Þá tekur Sigurður prestur Stefánsson frá Helgafelli stól á Hólum. Þeir séra Oddur eru systrasynir. Séra Sigurður vígðist í Kaupmannahöfn 10. maí 1789 og kemur auðvitað fljótt til stólsins. Þetta vor finnst séra Oddur í læknum Gegni, og má gruna það, að Vigfús sýslumaður, séra Pétur og enda fleiri menn hafi vitað um líkið, en ekki viljað hreyfa það af ótta við það, að þurfa að grafa það utan garðs. Sérstaklega munu þeir hafa viljað hlífa móður Odds á gamalsaldri við slíkum hörmum. Nú mun biskupinn á Hólum varla geta synjað þessu líki um kristinna manna reit.

Samt hafa íslenzkir fræðimenn viljað hafna þessu, án þess þó að tala um kerlingakjaftæði, og bera það mest fram, að Esphólín segir að séra Oddur hafi aldrei fundizt, og vitað mál að þarna dvaldi Esphólín í grennd í langan tíma og var vinur séra Péturs á Miklabæ. En það upplýsir bara aðferðina, sem þeir hafa við það að koma Oddi í vígða jörð.

Sennilegt er að Sigurður biskup hafi viljað láta fleiri menn koma til þeirra skjala, að ákveða séra Oddi kirkjuleg og hin áttræða móðir hans hafi lagt sitt þunga lóð á þær skálar, sem þeir þurftu á að vega. Leitað hafi verið til Stefáns amtmanns á Möðruvöllum um samþykki, og suður til þeirra Ólafs stiftamtmanns Stefánssonar hálfbróður Sigurðar biskups og bróður sýslumannsfrúarinnar í Víðivöllum, og svo til gamla Skúla í Viðey, sem ætíð brá sér sízt við váveiflega hluti. Mesta ábyrgð ber þó prófasturinn, séra Pétur á Miklabæ, ásamt biskupinum. Samvizkan er kannski ekki alveg í lagi fyrst Solveig hvílir norðan undir kirkjugarðinum, og því þarf hún ætíð að fylgja með í öllum sögnum frá Miklabæ og í fyrirrúmi um þær allar. En það er auðséð hvað til ráðs er tekið. Oddur er grafinn í kyrrþey og alls ekki á Miklabæ. Það vitnast ekki að hann er fundinn og grafinn, og Pétur prófastur, sem veit það, að kirkjuskipanin er brotin, talar aldrei eitt einasta orð um þetta, hvorki við Esphólín né aðra, enda er Esphólín úti í Kaupmannahöfn þegar þetta fer fram, og þrjú ár síðan. Það er þarflaust að leiða getum að því, hvar Oddi presti hefur verið valinn legstaður, aðeins má benda á það, að stytzt var að flytja hann í Héraðsdal, þar sem frændur ekkju hans bjuggu, og má telja að þar sé afskekktastur grafreitur í Skagafirði, og því tilvalinn til jarðarfarar í kyrrþey. Þannig virðist hún vera hin raunhæfa, eða raunverulega saga sem af þessum atburðum má segja."

Þetta eru ákveðin skilaboð Benedikts um hvarf sr. Odds. Tilgátan er ekki ósennileg miðað við aldarandann, þagnarsamsæri um líkfundinn, lík hans grafið með yfirsöng í lítilli útkirkju og víst væri þetta farsælasti endir þessa dularfulla hvarfs.

Lokaorð

Það vill svo til, að í bókasafni mínu eru tvær bækur, sem sr. Oddur hefir átt. Báðar eru þær tileinkaðar honum af Hálfdáni Einarssyni mági hans.

Önnur er dönsk Biblía frá 1719. Hana gefur Hálfdán Oddi er hann kemur frá Kaupmannahöfn að loknu guðfræðinámi. Hann áritar bókina á latínu eins og siður var hjá lærðum mömmum og skrifar "Juveni Pronobil et doctis. Hr. Othoni i Gislavio hunc librum dono mittit. Halfd. Einari." Á íslensku gæti það hljóðað svo: "Hinum göfuga og hálærða unga manni hr. Oddi Gíslasyni færi ég þessa bók að gjöf."

Hin bókin er eftir sr. Árna Þórarinsson síðar biskup, skrifuð á dönsku. Á saurblaði stendur "Mági sínum elskulegum séra Oddi Gíslasyni presti að Miklabæ gefur kverið til befalingar. H. Einarsson."

Þessar bækur eru mér mikils virði vegna áritunar og falla þær vel að öðrum hlutum sem ég á frá hendi sr. Odds.

Síðarnefndu bókina tók ég með mér á frumsýningu leikritsins Solveig og sýndi höfundi verksins hana og fleirum og sagði við þá, að varla hefði sr. Oddi komið til hugar þegar hann handlék þessa bók, að 212 árum eftir dauða hans væri hún í höndum prests ættuðum frá Miklabæ, sem væri einn meðal hundruða gesta, sem í Þjóðleikhúsi landsins horfði á leikrit um hann og Solveigu.

Höfundurinn er fyrrverandi prófastur og prestur í Hallgrímssókn.

MIKLIBÆR 1929.

ÚR SOLVEIGU, leikriti Ragnars Arnalds í flutningi Þjóðleikhússins. Vigdís Gunnarsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson í hlutverkum Solveigar og séra Odds.

MIKLABÆJARKIRKJUGARÐUR. Myndin er tekin í suðausturhorni garðsins, en gröf Solveigar var í norðvesturhorni hans. Myndina tók séra Þorsteinn Ragnarsson.

SKÝRSLUR séra Odds, sendar biskupi 1785.

BRÉF Ragnheiðar Þórarinsdóttur. Undirstrikuð er frétt hennar um líkfund séra Odds.

ÞRÖSTUR Leó Gunnarsson, sem fer með hlutverk séra Odds í leikritinu, við Solkupytt í læknum Gegni, en þar mun lík séra Odds hafa fundist ef trúa má frásögn Ragnheiðar Þórarinsdóttur. Ljósm. Mbl/Golli.

BIBLÍA séra Odds, sem meistari Hálfdán gaf honum. Áritun á latínu hljóðar svo í íslenskri þýðingu: "Hinum göfuga og hálærða unga manni hr. Oddi Gíslasyni færi ég þessa bók að gjöf".

BÓK Árna Þórarinssonar biskups skrifuð á dönsku. Áritun Hálfdánar er þessi: "Mági sínum elskulegum séra Oddi Gíslasyni presti að Miklabæ gefur kverið til befalingar. H. Einarss."