ALDREI hefði ég nú trúað því að ég þyrfti að verja tilfinningalíf mitt fyrir prestum og alþingismönnum eða ábyrgu fólki í svoleiðis valdastöðum yfirleitt. En undanfarin misseri hef ég fengið að reyna hið gagnstæða, því miður.

PÁLL ÓSKAR

SVARAR FYRIR SIG

Ég að tala um meint misrétti sem mér hefur verið sýnt af aðilum sem gegna þessum störfum, segir Páll Óskar Hjálmtýsson, og ég hef fulla ástæðu til að halda að það sé vegna þess að ég er samkynhneigður.

ALDREI hefði ég nú trúað því að ég þyrfti að verja tilfinningalíf mitt fyrir prestum og alþingismönnum eða ábyrgu fólki í svoleiðis valdastöðum yfirleitt. En undanfarin misseri hef ég fengið að reyna hið gagnstæða, því miður. Hér er ég að tala um meint misrétti sem mér hefur verið sýnt af aðilum sem gegna þessum störfum, og ég hef rúmlega fulla ástæðu til að halda að það sé vegna þess að ég er samkynhneigður. Það sem mér finnst merkilegt í málinu er að allir þessir núverandi fjandvinir mínir, Árni Johnsen alþingismaður, séra Egill Hallgrímsson staðarprestur í Skálholti og svo Sigurður Sigurðarson vígslubiskup, kjósa að verja fordóma sína gagnvart samkynhneigðum með alveg nákvæmlega sömu aðferðinni: Núna er þetta allt á "misskilningi" byggt, þetta eru allt "kjaftasögur" sem einhver hefur gripið á lofti, hér er um enga fordóma að ræða því "þeir hafi þá ekki", þeir "virða mig svo mikið sem listamann og söngvara" að ég er barasta "velkominn" inn í kirkjuna til þeirra hvenær sem ég vil eða þá að mæta í sjónvarpssal og "taka lagið" með Árna Johnsen og brosa að þessu öllu saman og segja e he he! Þetta allt hefur óneitanlega minnt mig á afar kraftmikla hugmyndafræði úr óskarsverðlaunakvikmyndinni "The Usual Suspects". Þar er sagt að mesta blekking djöfulsins hafi verið að sannfæra mannkynið um að hann sé ekki til!

Fimmtudaginn 3. desember sl. birti Morgunblaðið yfirlýsingu frá þjóðhátíðarnefnd Vestmannaeyja 1996, sem Sigurður A. Sigurbjörnsson skrifaði undir ­ "með vinsemd". ­ Í yfirlýsingu þessari er ég, Páll Óskar, sagður ljúga blákalt uppá Árna nokkurn Johnsen, Þjóðhátíð Vestmannaeyja og Vestmannaeyinga yfirleitt í viðtali við blaðið "Testamentið". Miðað við þessa yfirlýsingu, og svo svörin sem Árni Johnsen hefur gefið þegar hann er spurður út í málið, er engu líkara en ég eigi að koma útúr þessu sem kynóð, ímyndunarveik og athyglissjúk poppstjarna, sem þarf að ljúga uppá fólk til að vekja á mér athygli. Ég get ekki tekið þessum ásökunum með þegjandi þögninni. Spurningin sem skiljanlega brennur á vörum flestra er: Af hverju er ég að tala um þetta Árna Johnsen mál núna , rúmum tveimur árum eftir að atburðurinn gerðist? Svarið er einfalt: Alþingiskosningar eru í nánd og Árni Johnsen ætlar sér stóra hluti á þeim bæ. Ég vil ekki sjá mann, sem bregst svona við undir þessum ákveðnu kringumstæðum á Þjóðhátið, eiga möguleika á ráðherrastól. Við höfum horft uppá kjána sitja í ráðherrastólum áður, og í þetta sinn megum við ekki láta söguna endurtaka sig. Árni Johnsen hegðaði sér ekki eins og viti borinn maður þegar hann stíaði mér og þáverandi elskhuga mínum í sundur í miðjum ástaratlotum, og henti honum frá sér þannig að hann lenti utan í vegg. Árni Johnsen gerir lítið úr þessari frásögn minni og segir hana "fantasíu". Í bræði sinni hefur hann kannski ekki tekið eftir öllu fólkinu sem var þarna með okkur og horfði á það sem fram fór. Þetta fólk ­ skemmtikraftar, áhorfendur og gæslumenn, er tilbúið til að leggja fram vitnisburð sinn um það sem það sá, og er nú þegar byrjað að gera það. Emilíana Torrini söngkona, sem var að skemmta á Þjóðhátíð '96, er ein þeirra. Frásögn hennar má lesa í 48. tbl. "Séð & heyrt".

Árni Johnsen hefur reynt sitt besta til að slá ryki í augu almennings, með því að einblína á aukaatriði en ekki aðalatriði í málinu. Okkur ber ekki saman um hvort ég hafi verið að kyssa kærastann minn, eða haft í frammi annars konar óviðeigandi "tilburði" með honum, og hvort það hafi gerst á sviðinu, eða bakatil. Einnig segist Árni ekkert hafa á móti samkynhneigðum, þegar ég hef fulla ástæðu til að halda hið gagnstæða. Það er mjög alvarlegt mál, að Árni Johnsen er ekki tilbúinn til að lýsa því í smáatriðum hvað raunverulega gerðist sem kallaði á þessi viðbrögð hans! Hann svarar á þá vegu að "... hann sjái ekki ástæðu til að lýsa því hér ..." og talar um leið um "ósiðlega tilburði" sem hann ætlar að hlífa almenningi við. Með þessu skilur hann eftir lausa enda í frásögninni og leyfir hann almenningi að skálda í eyðurnar. Ég vil ekki að almenningur fari að ímynda sér mig og kærastann minn í samfarastellingum á sviði Þjóðhátíðar, vegna þeirrar einföldu ástæðu að það gerðist ekki! Árni Johnsen leggur á það ríka áherslu að ég og kærastinn minn hefðum verið að gera eitthvað yfirnáttúrulega ósiðlegt á miðju sviðinu, þar sem hátt í 7000 manns áttu að hafa getað séð okkur. Hann ákvað að skakka leikinn þar sem þetta hafi ekki verið "á dagskrá", og einnig til að "vernda" börnin og unglingana sem voru meðal áhorfenda. Þetta finnst mér allt vera aukaatriði. Málið snýst einvörðungu um það að Árni Johnsen gekk á milli okkar, og ég hef fulla ástæðu til að halda að það hafi hann gert vegna andúðar sinnar á samkynhneigðu fólki.

Nú spyr ég þig, Árni Johnsen: Úr því að hátt í 7000 manns áttu að hafa séð til okkar á sviðinu sjálfu, hvernig stendur þá á því að enginn úr þessum áhorfendaskara sem þú varst að "vernda" hefur lagt orð í belg, ekki einu sinni gert athugasemd, allan þennan tíma? Þú veist að það er hringt og kvartað í Þjóðarsálina af minna tilefni. Svo vil ég ekki að þú kveðir þig lengur í kútinn opinberlega, þegar þú segist ekki hafa neitt á móti samkynhneigðu fólki. Því miður hef ég nefnilega fulla ástæðu til að halda það, bæði með tilliti til þess hvernig þú fórst með mig á Þjóðhátíð '96, og líka vegna málflutnings þíns í ræðum á Alþingi þegar mál samkynhneigðra eru tekin upp. Því miður get ég ekki tekið þig trúanlegan þegar þú segist eiga fullt af samkynhneigðum vinum og kunningjum, sem virða þínar skoðanir! ­ Staðreyndin er sú, að samkynhneigðir virða ekki þínar skoðanir. Í mínum huga er þetta eins og að segja að blökkufólk virði skoðanir Ku Klux Klan. Þú málar þig líka sem góða gæjann með því að glotta stanslaust og tönnlast á því hvað þú virðir mig sem söngvara og tónlistarmann. En hvernig væri að fara að virða mig sem manneskju, Árni Johnsen? Og þetta með að títtnefnt kossaflens hafi ekki verið á "dagskrá" Þjóðhátíðar, þætti mér gaman að heyra frá því kærustupari sem býr til "dagskrá" yfir gang lífsins. (Kl.15.00 ­ Fara í IKEA. Kl. 16.30 ­ Smyrja bílinn. Kl. 16.55 ­ Fara í sleik.) Að lokum, Árni Johnsen. Þú þarft ekki að "vernda" börn og unglinga fyrir kærustupörum að kyssast, hvort sem þau eru samkynhneigð eða gagnkynhneigð. Ég veit ekkert ógeðslegra en fólk sem reynir að verja sína eigin þröngsýni og fordóma í skjóli barnanna. Börn eru nefnilega fædd fordómalaus, þangað til þeim er kennt annað. Ég er vinsælasta barna- og unglingastjarnan á Íslandi í dag og ég get sagt þér það að börn og unglingar eru mjög afslöppuð gagnvart samkynhneigð þessa dagana. Láttu mig vita það! Það er alveg sama hvað þú segir, Árni Johnsen. Það er ekkert sem réttlætir það, að beita líkamlegu afli til að stía elskendum í sundur, hvort sem um er að ræða samkynhneigða eða gagnkynhneigða!

Einnig spyr ég ykkur, séra Egill Hallgrímsson og séra Sigurður Sigurðarson vígslubiskup, hvernig ykkur dettur í hug að hylma yfir ykkar eigin glappaskot í skjóli "misskilnings" sem aldrei var? Staðreyndin er sú, að heilir þrír einsöngvarar drógu sig út úr jóladagskrá Skálholtskirkju í mótmælaskyni við það sem gekk á. Þessir söngvarar, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Bergþór Pálsson og Kristjana Stefánsdóttir, eru það miklir fagmenn á sínu sviði, að þau færu aldrei að aflýsa tónleikum vegna einhvers "misskilnings" eða gróusögu sem þau grípa í lausu lofti. Með því að kalla þetta allt "misskilning" eruð þið aðeins að gera lítið úr þeim og þeirra ákvörðun.

Ég var að gera mig kláran til að syngja á þessum fyrirfram ákveðnu aðventutónleikum þegar mér barst til eyrna að búið væri að ráða annan söngvara í minn stað, án þess að láta mig vita! Einhver ráðamaður innan Skálholts, ­ annar en skipuleggjandi tónleikanna, Hilmar Örn Agnarsson ­ fór að efast um ágæti þess að láta mig syngja í kirkjunni. Ef ekki var borin við sú staðreynd að ég væri "boðberi" samkynhneigðar eins og hún leggur sig, þá efuðust þeir um ágæti mitt sem söngvara, hvort ég gæti nokkuð sungið í kirkju án hljóðnema. Þessar upplýsingar fékk ég frá kórmeðlim Menntaskólans að Laugarvatni, sem átti að syngja með mér í kirkjunni. Ég ákvað að bíða rólegur eftir því að einhver ráðamaður úr Skálholti myndi láta mig vita persónulega, og vonaði að þetta væri í raun misskilningur sem yrði leiðréttur. En tíminn leið og ekkert gerðist. Ekki fyrr en söngkonan, sem átti að syngja með mér á tónleikunum, er látin hringja í mig og hún staðfestir það að ég hafi verið dreginn útúr dagskránni og í minn stað hafi annar söngvari verið ráðinn ... heilum tveim vikum áður!

Ég er mest hissa á því að hvorugur ykkar skuli haft manndóm í sér að hringja í manninn sem málið snýst um, þ.e. mig, þegar málið var komið á það stig að aðrir söngvarar voru farnir að aflýsa tónleikum innan kirkjunnar í mótmælaskyni. En það hefur ekki enn gerst. Ég hef aldrei talað við hvorugan ykkar á ævinni. Eruð þið hræddir við mig? Eruð þið hræddir við duglegasta "boðbera" samkynhneigðar á Íslandi? Eða eruð þið kannski með eitthvað óhreint í pokahorninu? Ykkar vegna vona ég ekki, því það er ljóst að þetta athæfi ykkar er hrein og klár mismunun og misrétti gagnvart mér persónulega vegna samkynhneigðar minnar sem ég fer ekki í felur með. Þessi tegund misréttis varðar við íslensk lög ­ og lögin ná líka yfir kirkjunnar menn.

Að lokum ber þó að geta að ég er ekki að skera upp herör gegn þjóðkirkjunni eins og hún leggur sig, eða öllum alþingismönnum á Íslandi, heldur bara þessum ákveðnu kjánum sem eiga hér í hlut. Þótt séra Egill og Sigurður víglubiskup hafi ekki enn hringt, hefur ekki linnt stuðningsyfirlýsingum símleiðis frá kirkjunnar mönnum, sem sumir hverjir hafa jafnvel boðið mér að syngja á aðventutónleikum hjá sér. Þessir prestar eru með því að sýna það og sanna að samkynhneigðir koma ekki alls staðar að lokuðum dyrum hjá kirkjunni, þótt þeir séu komnir útúr skápnum (sem sagt, "boðberar"). Nú síðast hringdi Helga Soffía Konráðsdóttir, formaður Prestafélagsins, og það var auðheyrt að ég og hún mættumst á miðri leið í afstöðu okkar til þessa máls. Kann ég henni bestu þakkir fyrir stuðninginn, svo og öllum hinum sem hafa mætt mér á förnum vegi og hvatt mig áfram í baráttunni fyrir tilfinningum mínum.

Ég vona að þessi atburðarás veki fólk til umhugsunar. Ég vona að þeir, sem eru ekki nógu upplýstir um samkynhneigð, afli sér upplýsinga eða hugsi sig tvisvar um áður en þeir segja eða gera eitthvað gegn hommum og lesbíum næst. Munið að það stendur ekki í neinum þótt hann gleypi hleypidóma sína! Einnig vona ég líka að þetta styrki aðra homma og lesbíur í trú sinni á eigin tilfinningar, efli stolt þeirra af sjálfum sér og öðlist næga sjálfsvirðingu til að láta ekki fara með sig hvernig sem er. Ef við berum ekki virðingu fyrir okkur sjálf, getum við ekki ætlast til þess að menn eins og Árni Johnsen beri nokkra virðingu fyrir okkur heldur. Það er sama hvort um er að ræða gagnkynhneigð eða samkynhneigð. Ástin er alltaf pottþéttur málstaður að verja!

Höfundur er tónlistarmaður.

Páll Óskar Hjálmtýsson