BOGI ÞORSTEINSSON

Bogi Ingiberg Þorsteinsson fæddist 2. ágúst 1918 í Ljárskógaseli í Hjarðarholtssókn. Hann lést að morgni 17. desember síðastliðins á Landspítalanum. Foreldrar Boga voru Þorsteinn Gíslason, f. 18.11. 1873, d. 9.11. 1940, og Alvilda María Friðrika Bogadóttir, f. 11.3. 1886, d. 22.3. 1955. Alsystkini Boga voru Ragnar, f. 1913, býr í Kópavogi, Ingveldur, f. 1915, býr í Mosfellsbæ, Sigvaldi Gísli, f. 1920, d. 1998, Gunnar Þorsteinn, f. 1921, látinn, og Elís Gunnar, f. 1929, býr í Kópavogi. Hálfsystkini Boga voru Magnús Rögnvaldsson í Búðardal, sem er látinn, og Guðlaug Margrét, f. 1928, sem einnig er látin. Bogi ólst ekki upp með systkinum sínum, hann ólst upp hjá afa sínum, Boga Sigurðssyni í Búðardal, og seinni konu hans, Ingibjörgu Sigurðardóttur frá Kjalarlandi, og urðu þess vegna lítil tengsl við ættingjana. Hann var í Reykholtsskóla 1933 til 1936, tók loftskeytapróf 1941, starfaði sem loftskeytamaður, þar á meðal á es. Dettifossi er honum var sökkt í febrúar 1945. Réðst til flugmálastjórnar 1946, tók próf til flugumferðarstjórnar 1947, fór til Bandaríkjanna í framhaldsnám 1951 til 1954, ásamt ýmsum námsferðum viðvíkjandi starfinu á árunum 1951 til 1957, var skipaður flugumferðarstjóri 1948 og yfirflugumferðarstjóri á Keflavíkurflugvelli 1951 og gegndi því starfi þar til hann fór á eftirlaun í ágúst 1985. Bogi var einnig settur flugvallarstjóri 1955­1956 og svo oftar í styttri tíma. Bogi var einhleypur og helgaði líf sitt margvíslegum félagsmálum: Hann var formaður ÍKF 1951 til 1969, formaður KKÍ 1961 til 1969, formaður UMFN 1970 til 1978, í stjórn Íþróttabandalags Suðurnesja 1952 til 1953, í stjórn FRÍ 1952 til 1954, í knattspyrnudómstól KSÍ 1956 til 1958 og fulltrúi KKÍ í ólympíunefnd um árabil, fararstjóri landsliðsins í körfuknattleik og sat í ótal nefndum. Að auki var Bogi formaður sjálfstæðisfélagsins Mjölnis á Keflavíkurflugvelli frá 1955 til 1961, einnig formaður sjálfstæðisfélagsins Njarðvíkings í tvö ár ásamt fréttaritarastarfi fyrir Morgunblaðið um árabil. Fyrir allt þetta ofangreint tók hann aldrei nein laun, en hlaut þess í stað ýmsar viðurkenningar, þar á meðal afmæliskross ÍSÍ, gullkross KKÍ, gullmerki frá KSÍ og Val ásamt Club-de-Luxembourgh, silfurmerki frá FRÍ og körfuknattleikssambandi Danmerkur. Árið 1994 hlaut hann svo Hina íslensku fálkaorðu. Bogi var heiðursfélagi hjá KKÍ, UMFN og Lionsklúbbi Njarðvíkur. Útför Boga fer fram frá Ytri- Njarðvíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Jarðsett verður í Innri-Njarðvíkurkirkjureit.