31. desember 1998 | Viðskiptablað | 1036 orð

Friðrik Sigurðsson, forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Tölvumynda ehf.

"Erum langt frá endimörkum vaxtarins" Vöxtur hugbúnaðarfyrirtækisins Tölvumynda hefur verið mikill, en það hefur vaxið um 50% að

FYRIRTÆKIÐ Tölvumyndir myndar í samstarfi við hugbúnaðarfyrirtækin Almennu kerfisfræðistofuna hf. (AKS), Forritun ehf. og Hópvinnukerfi ehf. eina stærstu hugbúnaðarsamstæðu hér á landi. Tölvumyndir eru stærst þessara fyrirtækja með rúmlega 70 starfsmenn en alls starfa hjá
Friðrik Sigurðsson, forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Tölvumynda ehf.

"Erum langt frá endimörkum vaxtarins"

Vöxtur hugbúnaðarfyrirtækisins Tölvumynda hefur verið mikill, en það hefur vaxið um 50% að veltu og starfsfólki að jafnaði síðustu ár. Friðrik Sigurðsson, forstjóri Tölvumynda segir í samtali við Gísla Þorsteinsson að slíkur vöxtur sé fyrirtækinu lífsnauðsynlegur til þess að það lifi af harðvítuga innlenda og erlenda samkeppni.

FYRIRTÆKIÐ Tölvumyndir myndar í samstarfi við hugbúnaðarfyrirtækin Almennu kerfisfræðistofuna hf. (AKS), Forritun ehf. og Hópvinnukerfi ehf. eina stærstu hugbúnaðarsamstæðu hér á landi. Tölvumyndir eru stærst þessara fyrirtækja með rúmlega 70 starfsmenn en alls starfa hjá samstæðunni 120 starfsmenn. Fyrr á þessu ári eignuðust Tölvumyndir 50% hlut í Forritun og Hópvinnukerfum og AKS. Þá hafa Tölvumyndir eignast þriðjungshlut í færeyska fyrirtækinu Vision Software.

Barátta hugbúnaðarfyrirtækja um starfsmenn

Friðrik Sigurðsson, forstjóri Tölvumynda, segir að milli 30­40 hugbúnaðarfyrirtæki starfi hér á landi en að þeim muni fækka verulega. "Gera má ráð fyrir samruna margra hugbúnaðarfyrirtækja á næstu árum, innan fjögurra ára verða aðeins fáein stór og öflug fyrirtæki starfandi á þessu sviði. Tölvumyndir hafa vaxið verulega að umfangi undanfarin ár, eða um 50% að veltu og starfsfólki. Staðreyndin er sú að fyrirtæki sem hafa náð árangri úti í hinum stóra heimi hafa vaxið um sambærilega tölu á ári. Þau sem hafa ekki náð jafn miklum vexti hafa hætt starfsemi. Þar af leiðandi er þessi vöxtur okkur lífsnauðsynlegur til þess að geta lifað af samkeppnina á komandi árum. Við trúum því að framtíðin felist í landvinningum á erlendri grundu og til þess að slíkt takist þarf öflug og sterk fyrirtæki. Minni fyrirtæki eiga ekki möguleika og verða undir í samkeppninni."

Friðrik segir hugbúnaðarfyrirtæki búa í harðvítugu umhverfi og að á milli þeirra ríki mikil samkeppni. Hann segir arðsemi fyrirtækja í greininni litla, skortur á starfsmönnum sé áberandi, launaskrið nokkurt og að samþjöppun fyrirtækja verði algengari. "Arðsemi í greininni árið 1997 var nánast engin og það má gera ráð fyrir að hún verði nokkrir tugir milljóna króna á þessu ári að meðaltali. Ekki bætir úr skák að nokkurt launaskrið er hjá háskólamenntuðum tölvumönnum því fyrirtækin sækjast mjög eftir þeirra starfskröftum. Tölvunarfræðingar frá Háskóla Íslands og kerfisfræðingar frá Tölvuháskóla Verslunarskóla Íslands eru alltof fáir, rétt innan við þúsund manns. Ef vel ætti að vera þyrftu starfsmenn að vera nokkur þúsund talsins. Flest nágrannaríki okkar búa við sambærilegan vanda, skort á tölvumenntuðu starfsfólki. Við hjá Tölvumyndum höfum verið farsælir í þessum efnum og okkur hefur haldist vel á starfsfólki. Fyrirtækið er nú langstærsti vinnustaður háskólamenntaðra starfsmanna á þessu sviði."

Gríðarlega mikill metnaður

Undanfarin þrjú ár hafa samtökin Europe'500 valið framsæknustu frumkvöðla í álfunni. Að þessu sinni var Friðrik valinn ásamt nokkrum Íslendingum. Lýtur valið ströngum skilyrðum um vöxt og tilurð hans, svo sem eignaraðild frumkvöðuls, sjálfstæði, veltuaukningu, arðsemi, stærð og aldur fyrirtækis. Friðrik segir að tilnefningin sé fyrst og fremst hvatning til sín og starfsmanna um að halda áfram á sömu braut.

"Þó að tilnefningin beinist að mér eru það starfsmenn fyrirtækisins sem eiga heiðurinn skilinn. Hjá fyrirtækinu ríkir gríðarlega mikill metnaður og góður starfsandi og okkur finnst að við séum langt frá endimörkum vaxtarins."

Tölvumyndir var stofnað af Friðriki og Bjarna Júlíussyni árið 1986. Fyrirtækinu var ætlað að hasla sér völl í hugbúnaðargerð með grafíska eða myndræna framsetningu gagna að leiðarljósi. Þremur árum síðar yfirtók Friðrik hlut Bjarna og hélt fyrirtækið óbreyttum rekstri til 1996 er Tölvumyndir voru sameinaðar hugbúnaðarfyrirtækinu Skyggni hf. Í dag er eignaraðild fyrirtækisins tvískipt: annars vegar í eigu Burðaráss, sem er fjárfestingafélag í eigu Eimskips og hins vegar í eigu Friðriks.

Lífsnauðsynlegt að sækja á markað erlendis

Starfsemi fyrirtækisins er skipt í fjórar deildir; rekstrar- og þjónustudeild, sérlausnadeild, viðskiptadeild og fjármáladeild, en mesti vaxtarbroddurinn erlendis er í tveimur síðasttöldu deildunum, að sögn Friðriks. Helstu verkefni viðskiptadeildar eru upplýsingakerfi fyrir sjávarútveg og verkefni fyrir sveitarfélög. Friðrik bendir á upplýsingakerfið Útvegsstjóra, sem er heildar upplýsingakerfi fyrir útgerðar- og vinnslufyrirtæki, sem dæmi um vel heppnað verkefni viðskiptadeildar.

"Útvegsstjóri kom á markað fyrir tveimur árum og hefur náð afgerandi markaðsstöðu hérlendis. Framundan er kynning á kerfinu á erlendum vettvangi og hyggjumst við nýta kaup okkar í færeyska fyrirtækinu Vision Software, til þess að kynna Útvegsstjóra þar í landi."

Verðbréfavogin er annað verkefni sem fjármáladeild fyrirtækisins hefur unnið að. Um er að ræða upplýsingakerfi sem er sniðið að íslenskum fjármálamarkaði. Markmiðið með Verðbréfavoginni er að þróa kerfi sem leysir daglega vinnu verðbréfafyrirtækja og tengist öllum aðgerðum og viðskiptum sem þau gera. Tölvumyndir hafa gert samstarfssamning við erlenda hugbúnaðarfyrirtækið Infinity, sem felur meðal annars í sér að reynt verði að koma Verðbréfavoginni á markað erlendis.

"Til þess að íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki geti spjarað sig í samkeppni verður það að leita út fyrir landsteinana," segir Friðrik. "Á undanförnum árum hafa íslensk hugbúnaðarfyrirtæki farið halloka fyrir lausnum erlendra fyrirtækja. Fyrir 10­15 árum þótti ekkert tiltökumál þótt íslensk fyrirtæki smíðuðu ritvinnslukerfi en í dag þykir það fráleitt. Eina leiðin er að sækja út og skapa sér stöðu í alþjóðlegu umhverfi, slíkt er í raun lífsnauðsynlegt."

Markmiðin skilgreind

Friðrik telur að mikil hugarfarsbreyting eigi eftir að verða í rekstri hugbúnaðarfyrirtækja. Hann telur þróunina verða þá að viðskiptavinir leiti að heildstæðum lausnum á einum stað, hugbúnaði, vélbúnaði og þjónustu. "Kostnaður við rekstur upplýsingakerfa er gríðarlegur og í stórfyrirtækjum eru 5% af veltu bundin í slíkum rekstri. Útreikningar sýna að fyrir hverja eina krónu sem er eytt í hugbúnað fá þjónustufyrirtæki þrjár til fjórar beint í framhaldi. Fyrirtæki munu þar af leiðandi leita í auknum mæli eftir þjónustugetu og þjónustugæðum. Við hjá Tölvumyndum höfum undirbúið okkur fyrir þá hugarfarsbreytingu sem er handan við hornið enda er fyrirtækið skilgreint í dag sem hugbúnaðar- og þjónustufyrirtæki, sem hefur það meginmarkmið að aðstoða viðskiptavini sína við að hagnýta sér upplýsingatækni til ábata í rekstri."

"Á sama tíma og umhverfi hugbúnaðarfyrirtækja er að breytast er mikið ryk í loftinu sem gerir fyrirtækjum erfitt fyrir að setja sér markmið. Umræða um framtíð Netsins, 2000-vandamálið og þenslan í greininni getur ruglað framtíðarmarkmið fyrirtækja. Á meðan framtíð hugbúnaðarfyrirtækja er óljós er nauðsynlegt að setja sér skýr markmið. Slíkt hefur verið gert hjá Tölvumyndum enda er markmið fyrirtækisins að vera eitt af þeim stærstu þegar rykið fellur til jarðar," segir Friðrik.

Morgunblaðið/Þorkell FRIÐRIK segir að þrátt fyrir samkeppni hugbúnaðarfyrirtækja um tölvumenntað fólk hafi Tölvumyndum haldist vel á starfsfólki. Fyrirtækið sé nú langstærsti vinnustaður háskólamenntaðra starfsmanna á þessu sviði.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.