FRÁ ÞVÍ er að segja að umsjónarmaður var einu sinni skikkaður til að segja til í valgrein sem hét fundarsköp og ræðugerð. Þessu fylgdi náttúrlega framsögn og flutningur. Til þess að vinna gegn orðinu "mæting" fékk kennarinn komið á fót sóknarnefnd. Auðvitað var henni falið að fylgjast með tímasókninni og gefa fyrir þann þátt í einkunninni.
ÍSLENSKT MÁL

Umsjónarmaður Gísli Jónsson

987. þáttur

FRÁ ÞVÍ er að segja að umsjónarmaður var einu sinni skikkaður til að segja til í valgrein sem hét fundarsköp og ræðugerð . Þessu fylgdi náttúrlega framsögn og flutningur. Til þess að vinna gegn orðinu "mæting" fékk kennarinn komið á fót sóknarnefnd . Auðvitað var henni falið að fylgjast með tímasókninni og gefa fyrir þann þátt í einkunninni. Með almennu fylgi var Yngvi Kjartansson, Akureyringur, kjörinn formaður sóknarnefndar og gegndi því starfi, svo að ekki varð að fundið.

Nú hefur þessi fyrrverandi nefndarformaður skrifað mér hlýlegt bréf sem ég birti meirihlutann úr, með hans leyfi. Bréfið er nokkuð persónulegt, en það rýrir ekki gildi þess. Þegar umsjónarmanni þykir hæfa, fleygar hann bréf Yngva með athugasemdum frá sjálfum sér í hornklofum. Þá tekur til máls Yngvi Kjartansson:

"Gísli Jónsson

fyrrverandi íslenskukennari

oft á Amtsbókasafninu.

Sæll Gísli. Ertu sáttur við yfirskriftina á bréfinu því arna? Jæja, það má einu gilda. Af því að þú ert nú oft að vanda um við fólk í pistlun þínum í Morgunblaðinu langar mig að nefna við þig orð sem mér finnst oft farið illa með og sett í alveg fáránlegt samræmi. Ég á við orðið gæði. Fyrir nokkrum árum vann ég hjá Háskólanum á Akureyri og þar áttu nemendur í rekstrarfræði að læra það sem kallað var "gæðastjórnun". Ég skildi þetta orð ekki lengi vel, en þar kom að einhver gæðastjórnfræðingurinn útskýrði það fyrir mér þannig að ég skildi. Ég held að ég treysti mér ekki til að endursegja þær útskýringar.

En það er allt of oft sem ég sé sagt og skrifað að gæði geti verið svo og svo góð, eða betri eða best. Til dæmis stendur á heimasíðu Landssímans að þeir stefni að því að notendur sem hafa áskrift að internetinu njóti sem "bestra gæða".

Ég á alveg eins von á því að þú hafir áður tekið þetta fyrir í pistlum þínum, en það sakar kannski ekki að árétta það.

Annað langar mig að nefna sem ég veit að þú hefur skrifað um og það er þessi árátta fólks að tala um það hafi "verið að gera" í stað þess að það hafi gert. Þetta heitir eitthvað í málfræðinni. Ég held að þetta sé einhverskonar tíðabrenglun, en ég kann of lítið í málfræði til að geta skilgreint það.

[Jú, ég hef fjallað um þetta hvort tveggja áður. Gæði heita svo af því að þau eru góð . Gæði geta því aldrei orðið betri eða best. Þau geta hins vegar orðið meiri og mest . Hitt t.d. "þeir voru ekki að spila vel" er ofnotkun sagnarinnar að vera , sem óeiginlegrar hjálparsagnar . Slíkar sagnir eru notaðar, oft mjög að óþörfu, til þess að mynda samsetta nútíð og samsetta þátíð , en þær tíðir sagna eru oftar en hitt ósamsettar, við segjum þó oft: Ég er að lesa fremur en ég les .]

Ekki veit ég hvaða álit þú hefur á orðinu "internet". Mér finnst það ágætis tökuorð sem fellur vel að íslenskum málfræðireglum. Kannski er forliðurinn "inter" á mörkunum en ég held að þetta orð hafi unnið sér svo fastan sess í málinu að þeir sem vilja segja og skrifa t.d. alnet, verði að lúta í lægra haldi, nema ráðandi fjölmiðlar taki sig saman um notkun á því. Það held ég að sé sú aðferð sem helst getur breytt orðanotkun almennings í landinu.

Mér er orðið mjög tamt að nota þetta net til samskipta við fólk og þar sem ég veit ekki hvort þú hefur tileinkað þér það, bið ég hann Hólmkel um að hafa milligöngu um að koma þessu lítilfjörlega bréfi til þín. Ég hef ekki reynt hann að öðru en einstakri greiðvikni.

[Satt segir þú um Hólmkel Hreinsson amtsbókavörð, og við höfum komið okkur saman um að sleppa erlenda forskeytinu "inter", en hafa orðið net með stórum staf og greini: Netið . Sú er einnig stefna þeirra sem stjórna þessu blaði, Morgunblaðinu .]

Eitt langar mig að spyrja þig um. Kannast þú við orðið "skafanki"? Ef svo er, hvaða merkingu hefur það í þínum huga og hvaðan heldur þú að það sé upprunnið?

[Umsjónarmaður veit ekki hvernig á að stafsetja orðið sem um er spurt. Kannski eins og Yngvi gerir, fremur þó skavanki , eða jafnvel skávanki . Þetta orð merkir í vitund minni galli, ágalli, missmíði, jafnvel vansköpun eða fötlun. Svo merkilegt sem það er, finnst orðið ekki í þeim mörgu íslensku orðabókum sem mér eru tiltækar. Þá fór ég í Nudansk ordbog (marglofaða) og þar er skavank = galli. Orðið er sagt vera tökuorð úr lágþýsku schrawank , en uppruni þess óvís. Lengra kemst ég ekki í bili, en minni á útvarpspistil Ástu Svavarsdóttur fyrir skömmu.]

E.s. Þeir sem eru orðnir vanir því að nota tölvupóst, hafa ákveðið heiti yfir þann póst sem sendur er í frímerktum umslögum. Sá póstur heitir "sniglapóstur".

Að lokum sendi ég þér hinar bestu kveðjur og þakka þér fyrir atorkusemi þína í þágu íslenskrar tungu og okkar samskipti, sem hafa að öllu leyti verið mér ánægjuleg."

Umsjónarmaður þakkar Yngva kærlega efni og ummæli.

Hlymrekur handan kvað (líkl. stæling):

Jósep langaði limru að yrkja

og listsköpun umheimsins styrkja.

Þá varð guð ekki glaður:

"Ertu geðveikur, maður?!

Farðu í hús sem að kallað er kirkja."Nú hefir mannvitið magnað þitt afl

og múlbundið strengina þína.

Gegn myrkrinu og kuldanum tefla skalt tafl, tröllefldur skorðast við stíflu og gafl.

Ljósið þitt láttu nú skína.

Færðu okkur birtu og framtíðar yl.

Fávizkan lendi í gleymskunnar hyl.

Lýstu okkur vorboðans ljósheima til,

og láttu okkur myrkrinu týna.

(Aðalsteinn Halldórsson frá Litlu-Skógum: Ljósifoss .) Auk þess þykir skilríkum mönnum óþarfi að breyta orðinu sjónarvottur í "sjónvitni" (á ensku eyewitness ). Og: Einhver sagðist í útvarpinu vilja "sjá áherslubreytingu". Er það hægt? Ég heyri hinsvegar stundum áherslubreytingar í tali manna.