UMTALSVERÐ hlutabréfaviðskipti hafa átt sér stað á Verðbréfaþingi Íslands það sem af er árinu. Á mánudag var metdagur á þinginu er hlutabréfaviðskipti dagsins námu rúmum hálfum milljarði. Í desembermánuði 1998 var slegið nýtt mánaðarmet er
Horft um öxl og fram á við í íslensku atvinnulífi

Bjartar horfur á hlutabréfamarkaði

Mikil umskipti hafa orðið á umfjöllun og áhuga á hlutabréfaviðskiptum á Íslandi undanfarin ár. Á síðasta ári lagði um helmingur þjóðarinnar nafn sitt með einum eða öðrum hætti við kaup á hlutabréfum og þá ekki síst í útboði á bréfum ríkisins í fjármálastofnunum. Guðrún Hálfdánardóttir fékk upplýsingar hjá nokkrum verðbréfamiðlurum um horfur á íslenskum hlutabréfamarkaði árið 1999. UMTALSVERÐ hlutabréfaviðskipti hafa átt sér stað á Verðbréfaþingi Íslands það sem af er árinu. Á mánudag var metdagur á þinginu er hlutabréfaviðskipti dagsins námu rúmum hálfum milljarði. Í desembermánuði 1998 var slegið nýtt mánaðarmet er viðskipti með hlutabréf námu 2,5 milljörðum. Á liðnu ári námu heildarviðskipti með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands 12,5 milljörðum króna sem samsvarar um 50 milljóna króna viðskiptum á dag. Heildarviðskipti með hlutabréf á þessu ári nema tæpum 1,1 milljarði þannig að ef fram heldur sem horfir er þess ekki langt að bíða að nýtt met verði slegið hvað varðar mánaðarviðskipti með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands. Fjöldi félaga skráðra á Verðbréfaþingi Íslands hefur margfaldast á fáeinum árum. Á síðasta ári fjölgaði þeim um 15 og voru í lok ársins 56 að hlutabréfasjóðum undanskildum. Í kjölfar nýskráninga jókst heildarmarkaðsverðmæti skráðra félaga úr um 145 milljörðum í um 215 milljarða og mikil breyting varð á vægi atvinnugreinavísitalna.

Arðsemi mun minni en verðhækkanir

Hlutabréf hafa hækkað um rúmlega 20% á ári að meðaltali frá árinu 1993 þrátt fyrir að meðalarðsemi fyrirtækjanna hafi einungis verið 5­10%. Árni Oddur Þórðarson, forstöðumaður markaðsviðskipta Búnaðarbankans, segir að ef gengið er út frá því að verð hlutabréfa sé nú í jafnvægi sé ljóst að hin mikla arðsemi sem náðst hefur síðustu ár sé vegna þess að hlutabréf hafa verið of lágt skráð í upphafi, sem gjarnan er einkenni nýmarkaða. "Taka verður tillit til þess að vaxtarmöguleikar íslenskra fyrirtækja eru almennt taldir minni en stórra fjölþjóðafyrirtækja. Í fyrra var fyrsta árið sem ávöxtun hlutabréfa var í samræmi við arðsemi og vöxt fyrirtækja eða um 10% að meðaltali. Ég hygg að ávöxtun hlutabréfa á árinu 1999 verði líkt og í fyrra í takt við rekstur og afkomu fyrirtækjanna. Arðsemi íslenskra fyrirtækja er sorglega lítil miðað við að við erum sennilega á toppi hagsveiflu. Hluthafar sem vanist hafa hárri ávöxtun munu ekki sætta sig við að íslenski markaðurinn geri mun verr en erlendir og því mun krafa um aukið hagræði og arðsemi fyrirtækja aukast til muna á næstu árum," segir Árni Oddur. Í janúarskýrslu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins kemur fram að útlit sé fyrir að árið 1999 verði hlutabréfafjárfestum hagstætt og telur FBA að helstu tækifærin liggi í tæknigeiranum og fjármálafyrirtækjum.

Að sögn Alberts Jónssonar, forstöðumanns verðbréfamiðlunar Fjárvangs, bendir margt til þess að afkomutölur fyrirtækja á árinu 1999 verði hagstæðar þar sem efnahagsástand er hagstætt, sem markast af auknum innflutningi fjárfestingar- og neysluvara, háu afurðaverði sjávarafurða og stöðugleika í efnahagslífinu. Þessi auknu umsvif á flestum sviðum efnahagslífsins hafa leitt til aukinna umsvifa fyrirtækja sem eru með skráð hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands. Tækifæri í upplýsingageiranum

"Þau fyrirtæki sem skiluðu bestri arðsemi á síðasta ári voru fyrirtæki í upplýsingatækni s.s. Opin kerfi og Nýherji. Þessi tvö fyrirtæki eru lykilaðilar á íslenskum tölvumarkaði en net þeirra í öðrum fyrirtækjum s.s. Skýrr, Tæknivali ofl. mun væntanlega skila þeim aukinni arðsemi vegna yfirburðaþekkingar þeirra á íslenskum tölvumarkaði. Mikil tækifæri eru í upplýsingatækni á næstu misserum og því ljóst að fjárfestar munu gera miklar kröfur um að forystufyrirtæki á þessu sviði muni grípa þau tækifæri sem gefast á markaðinum á þessu ári og þar mun ekki vega minnst hið svokallaða 2000-vandamál," segir Albert. Hann segist sjá fyrir sér að árið í ár verði Eimskip gjöfult vegna góðæris á flestum sviðum. "Á árinu 1998 var aukinn innflutningur á fjárfestingar- og neysluvörum auk þess sem mikill vöxtur var í ferðaiðnaði á árinu. Fyrirtæki í flutningaþjónustu s.s. Eimskip hafa örugglega getað aukið verulega umsvif sín vegna mikils innflutnings. Búast má við að árið 1999 verði félaginu einnig gjöfult þar sem flestir eru sammála um áframhaldandi góðæri á flestum sviðum. Flugleiðir munu örugglega taka sinn skerf í þeirri uppbyggingu sem á sér stað á næstu árum í ferðaþjónustunni en fyrirtækið verður þó engu að síður að hagnast til lengri tíma til að teljast álitlegur fjárfestingarkostur." Veiking krónunnar hefur áhrif

Þeir Tómas Hansson, forstöðumaður rannsókna hjá Íslandsbanka, og Heiðar Guðjónsson, verðbréfamiðlari hjá Íslandsbanka, eru sammála Alberti um að aukin umsvif Eimskips eigi eftir að skila félaginu góðri afkomu. "Afkoma íslenskra fyrirtækja var almennt þokkaleg í milliuppgjöri í sumar. Ein af ástæðum þess var hagstæð þróun á fjármagnsliðum vegna gengisþróunar og áhrifa hennar á skuldir fyrirtækja sem ekki er hægt að telja til reglulegrar starfsemi. Sum fyrirtæki hafa vegna þessa verið með óeðlilega lág fjármagnsgjöld. Það er nokkuð ljóst að þessi þróun mun að einhverju leyti ganga til baka, annars vegar vegna veikingar krónunnar og hins vegar vegna styrkingar lágvaxtamynta en hækkun japanska jensins á síðari árshelmingi var 19%, svissneska frankans 7,7% og þýska marksins 5,4%.

Mjög misjafnt er eftir fyrirtækjum hvernig þessi áhrif koma fram en hjá fyrirtækjum sem skulda í erlendum myntum með yfirvægi í lágvaxtamyntunum og skuldbreyttu ekki í sumar mun þetta koma fram sem neikvæð hreyfing á fjármagnsliðum. Gengisþróunin mun þó einnig koma fram á tekjuhlið margra fyrirtækja en mun meiri óvissa er um þau áhrif enda dreifast tekjurnar yfir árið. Það er almenn skoðun viðskiptastofu Íslandsbanka að verð á hlutabréfum sé mjög hátt þannig að hætta er á vonbrigðum í kjölfar uppgjöra.

Þau fyrirtæki sem njóta aukinna umsvifa í þjóðfélaginu eru fyrirtæki á fjármagnsmarkaði, í flutningaþjónustu og verslun og þjónustu. Eimskip ætti að sýna góða afkomu vegna aukinna umsvifa og lækkandi olíuverðs en gengisþróunin mun hafa neikvæð áhrif auk vaxandi launakostnaðar. Burðarás, dótturfélag Eimskipafélagsins, á einnig mikið í öðrum fyrirtækjum og mun hækkun á hlutabréfamarkaði í lok árs auka markaðsverðmæti þeirra eigna væntanlega um 500 milljónir króna á síðari hluta ársins. Þetta hefur þó ekki bein áhrif á bókfærða afkomu félagsins.

Flugleiðir njóta að einhverju leyti aukinna umsvifa í þjóðfélaginu auk þess sem olíuverð hefur verið í lágmarki. Evrópumyntir hafa heldur styrkst, sem hjálpar rekstrinum, auk þess sem dollarinn, sem er útgjaldamynt í rekstri Flugleiða, hefur lækkað. Norðurlandamyntirnar lækkuðu þó á árinu en nokkuð stór hluti tekna félagsins er í þessum myntum. Áhrif þessarar þróunar fara þó eftir aðgerðum Flugleiða við að takmarka áhrif gengisþróunar en Flugleiðir hafa, eitt fárra fyrirtækja, tilgreint ákveðna stefnu í þeim efnum. Flugleiðir hafa átt erfitt ár, sérstaklega ef litið er til fyrrihluta ársins, en von er til þess að reksturinn batni. Fyrirtækið hefur einnig selt eignir, sem skilar söluhagnaði, en félagið leigir eignirnar til baka," að sögn þeirra Tómasar og Heiðars. Sjávarútvegur vekur spurningar

Skiptar skoðanir eru um hvernig sjávarútvegsfyrirtækjum eigi eftir að vegna á árinu. Menn eru þó almennt sammála um að horfur séu ágætar í loðnuveiðum, sem gefi væntingar um bætta afkomu fyrirtækja í uppsjávarveiðum. Albert Jónsson segist vænta þess að hagur sjávarútvegsfyrirtækja vænkist á árinu þar sem afurðaverð á erlendum mörkuðum hafi verið í sögulegu hámarki. "Hagræðing í sjávarútvegi, trú manna á kvótakerfinu og friðunaraðgerðir á ákveðnum fisktegundum á undanförnum árum eiga eftir að skila sér í verulega aukinni arðsemi sjávarútvegsfyrirtækja á næstu árum. Íslenskur sjávarútvegur er á heimsvísu, ásamt íslenskum hugbúnaðariðnaði, sú grein þar sem Íslendingar geta náð mestum árangri og því ljóst að ef fjárfestar hugsa sér íslenskan sjávarútveg sem alþjóðlega starfsemi með þeim tækifærum sem slíkt innifelur er ljóst að mikið er af ónýttum tækifærum um allan heim og því ljóst að fjárfesting í sjávarútvegsfyrirtækjum til 5­7 ára getur skilað verulegri arðsemi ef vel tekst til við nýtingu tækifæranna." Þeir Tómas og Heiðar hjá Íslandsbanka eru ekki jafn bjartsýnir á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja á árinu. "Tíu mánaða uppgjör Haraldar Böðvarssonar gefur vísbendingu um að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja geti valdið vonbrigðum. Þrátt fyrir það hefur sjávarútvegur aldrei gengið jafn vel í seinni tíð og á síðasta ári. Afkoma innan greinarinnar er þó æði misjöfn. Þorskveiðar hafa gengið mjög vel en vinnsla misjafnlega. Saltfiskvinnsla gengur vel og blokkarfrysting en landvinnsla á flökum hefur ekki náð að fylgja sjófrystingunni eftir. Aflaheimildir í þorski munu aukast á næstu árum og því er útlitið í útgerðinni og sjófrystingunni gott. Saltfiskverði hefur verið spáð niður á við í um hálft ár þó að sú spá eigi nokkuð í að rætast. Við horfum þó frekar fram á lægra verð í saltfiski. Verð á blokk hafði hækkað um 60% á milli október 1997 og 1998 en er þegar byrjað að lækka og mun sú þróun væntanlega halda nokkuð áfram. Veiðar á karfa hafa gengið vel og verð á afurðum verið mjög hátt. Það er ekki útlit fyrir að þessir tveir þættir fari jafn vel saman á næstu árum. Karfaveiðar hafa verið að dragast saman, þó að 1998 hafi gengið vel, og fiskstærð minnkað verulega. Loðnuveiðar 1998 gengu nokkru verr en 1997 og afli hefur dregist saman um hátt í 30%. Hækkun afurðaverðs hefur vegið aflasamdráttinn upp að mestu. Útflutningsverðmæti mjöls og lýsis jókst um 8% á síðasta ári en verðmæti útflutnings frystrar loðnu dróst saman um 5% ef miðað er við október. Verð er þó þegar farið að lækka og hefur verð á lýsi lækkað um 30% frá því síðasta sumar. Verð á mjöli er farið að lækka og mun að öllum líkindum lækka nokkuð næstu ár þar sem útflutningur Perú og Chile er farinn að taka við sér (búast má við 40% aukningu á árinu). Þessi lönd eru með yfir 80% af útflutningi mjöls í heiminum. Við eigum því von á lækkandi hlutfallslegri framlegð í bræðsluiðnaðinum. Loðnufrysting lítur ekki vel út fyrir vetrarvertíð. Veiðar á rækju gengu illa á árinu 1998 en misjafnar skoðanir eru um framtíðina. Það er þó líklegt að kvótinn verði dregið nokkuð saman á árinu. Verð á rækju hefur verið tiltölulega lágt og ekki útlit fyrir miklar verðhækkanir á næstunni. Útflutningsverðmæti frystrar rækju hefur minnkað um 16%. Út frá ofansögðu má vera ljóst að við búumst við lækkandi eða svipuðum hagnaði sjávarútvegsfyrirtækja, ef frá eru taldar þorsk- og karfaveiðar, sem gætu gefið aukinn hagnað," segja Tómas og Heiðar hjá Íslandsbanka. Eiríkur M. Jensson í greiningardeild Kaupþings segist telja að aðstæður í sjávarútvegi séu þokkalegar. "Góðar fréttir bárust af veiðum á loðnu og síld sem gaf sjávarútvegsfyrirtækjum á borð við SR-mjöl og Síldarvinnsluna byr undir báða vængi en viðskipti með sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið stopul að undanförnu, sérstaklega eftir dóm Hæstaréttar í kvótamálinu svokallaða. Annars eru aðstæður í sjávarútvegi þokkalegar, aflabrögð hafa verið ágæt, þorskkvóti hefur verið aukinn og verðlag haldist hátt en hefur aðeins gefið eftir á síðustu vikum og verð á lýsi og mjöli lækkað talsvert." Áhrif banka á áhuga almennings

Mikil gróska var í fjármálageiranum á Íslandi á liðnu ári. Mikil spurn var eftir því að eignast hluti í íslenskum bönkum, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Enn er ólokið sölu á 51% hlutafjár í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins en sjóður í eigu sparisjóðanna og dótturfélaga hefur tryggt sér atkvæðisrétt yfir rúmum 24% atkvæða í FBA. Á markaði verða þær raddir æ háværari að síðar meir eigi FBA og Kaupþing eftir að renna saman en á síðasta ári sýndu sparisjóðirnir, sem eiga Kaupþing að fullu, áhuga á að kaupa FBA. Árni Oddur hjá Búnaðarbankanum bendir á að einkavæðing á síðari hluta ársins 1998 hafi aukið þátttöku almennings á verðbréfamarkaði og að 93 þúsund manns hafi tekið þátt í útboði á hlutafé í Búnaðarbankanum. "Með þessu og áframhaldandi einkavæðingu mun almenningur fylgjast betur með verðbréfamarkaðnum. Umfang og velta á markaði hefur aukist stórkostlega síðustu vikur og er nú í fyrsta sinn í takt við það sem gerist á mörkuðum annarra Norðurlandaþjóða sé miðað við höfðatölu. Kröfur um arðsemi fyrirtækja verða ákveðnari með aukinni markaðsvæðingu og rekstur fyrirtækja mun í vaxandi mæli taka mið af þessum arðsemiskröfum. Aðhald markaðarins mun leiða til betri rekstrar og bættra lífskjara," segir Árni Oddur. Albert hjá Fjárvangi sagðist telja að ef Íslandsbanki eignaðist Búnaðarbankann yrði hægt að ná fram auknum hagnaði. "Mikil gróska er einnig í verslun og þjónustu, sem nær t.a.m. til banka og fjármálastofnana, en gera má ráð fyrir mikilli uppstokkun í verslun og þjónustu á næstunni með frekari einkavæðingu ríkisbankanna, sameiningu banka og fjármálastofnana auk sameiningar og stækkunar verslunarfyrirtækja. Íslandsbanki hefur sýnt áhuga á því að kaupa Búnaðarbanka Íslands en með því væri hægt að hagræða verulega og ná þannig auknum hagnaði til lengri tíma. Íslandsbanki virðist vera kominn lengst í ýmissi hagræðingu innandyra, s.s. varðandi upplýsingamál og lánamál.

Ekki er ólíklegt að FBA og Kaupþing verði orðin eitt fyrirtæki á næstu misserum, sem mun leiða til aukinnar stærðarhagkvæmni á íslenskum fjármagnsmarkaði. Íslenskir bankar, fjármálastofnanir og matvörumarkaðir sem hafa verið að koma á markað að undanförnu eru smá í alþjóðlegum samanburði og möguleikar þeirra einskorðast að verulegu leyti við Ísland sem heimamarkað og samvinnu við stærri banka, fjármálastofnanir og matvörumarkaði í öðrum löndum. Miðað við þetta eru möguleikar Íslendinga á því að taka forystu í alþjóðlegum sjávarútvegi mun meiri en t.a.m. íslenskra banka, fjármálastofnana og matvörumarkaða á alþjóðlegum markaði." Eiríkur hjá Kaupþingi segir að innkoma FBA á markað í haust hafi hleypt nokkru lífi í markaðinn. "Gengi hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum hefur hækkað mikið að undanförnu, útlánavöxtur hefur verið mikill og gefa níu mánaða uppgjör Búnaðarbanka og Íslandsbanka fyrirheit um góða afkomu á þessu ári. Hins vegar er ekki fyrirsjáanleg veruleg hagræðing í bankakerfinu á næstu 1­2 árum. Ríkisstjórnin virðist ekki mjög áhugasöm um sölu á stærri hluta í ríkisbönkunum. Það er mat Kaupþings að eftirspurnarþrýstingur ráði verði bankanna í dag, og eru þeir almennt dýrari en bankar í nágrannalöndunum, t.d. er V/E (Markaðsvirði/Eigið fé) danskra banka 1,43 en er 1,86 á Íslandi." Tómas og Heiðar hjá Íslandsbanka eru bjartsýnir á afkomu bankanna á árinu. "Bankarnir munu sýna góða afkomu en níu mánaða uppgjör Búnaðarbanka og Íslandsbanka sýndu góðan hagnað og nokkuð góða arðsemi." Erfitt ár í iðnaði

Ef litið er til annarra atvinnugreina er misjafnt hljóðið í verðbréfamiðlurum. Almennt eru menn sammála um að árið eigi eftir að reynast iðnfyrirtækjum þungt í skauti.

Þeir Tómas og Heiðar höfðu þetta að segja um horfur annarra atvinnugreina á hlutabréfamarkaði í ár: "Fyrirtæki í sölu og þjónustu á sviði hugbúnaðar ættu að sýna batnandi afkomu en markaðurinn sem þessi fyrirtæki starfa á vex um 25­30% á ári.

Umsvifin í smásöluverslun hafa aukist almennt um 7%. Samkeppni er hörð en gera má ráð fyrir að afkoma margra fyrirtækja verði góð. Fá fyrirtæki á þessu sviði eru skráð á markaði en reikna má með fjölgun þeirra á þessu ári.

Iðnfyrirtæki hafa átt í erfiðleikum. Hækkandi laun og þensla á vinnumarkaði og hækkun krónunnar á fyrrihluta ársins hefur gert þessum fyrirtækjum erfitt fyrir. Hækkun krónunnar gagnvart norskri krónu hefur til að mynda gert samkeppnisstöðu plastiðnaðar gagnvart útlöndum erfiða."

Albert segir að fyrirtæki í iðnaði og framleiðslu, sérstaklega þau sem eru tengd sjávarútvegi á einhvern hátt, hafi aukið útrás sína á alþjóðlegum mörkuðum og gera megi ráð fyrir að meiri stöðugleiki náist í rekstri þeirra með slíkri alþjóðavæðingu. "Lyfjaiðnaður hefur verið í miklum vexti á Íslandi á undanförnum misserum og hafa fyrirtækin verið að sækja að hluta til á erlenda markaði. Burðarásar í lyfjageiranum eru Lyfjaverslun Íslands, Pharmaco og Delta. Ekki er ólíklegt að með tilkomu ýmissa fyrirtækja í heilbrigðisgeiranum, s.s. Íslenskrar erfðagreiningar o.fl., muni möguleikar fyrirtækja í þessari grein geta aukist verulega með samstarfi og frekari vöruþróun," segir Albert. 10­20 félög markaðshæf

Árni Oddur Þórðarson hjá Búnaðarbankanum á síðasta orðið í vangaveltum verðbréfamiðlara um íslenskan hlutabréfamarkað. "Þrátt fyrir að ég telji meðalávöxtun hlutabréfa ekki háa tel ég ávallt tækifæri vera fyrir hendi á verðbréfamörkuðum og fjárfestar geta með útsjónarsemi náð viðunandi ávöxtun. Fjárfestar þurfa þó að vera mun vandlátari á val sitt en áður. Ég tel að á slíkum örmarkaði sem íslenski markaðurinn óneitanlega er sé einungis hægt að horfa á 10­20 félög sem markaðshæf. Því tel ég að til að ná árangri megi ekki hafa meira en um fimm félög sem meginþunga í eignasafni hverju sinni til að ná árangri. Athyglisvert er að skoða í þessu ljósi þann slaka árangur sem sjóðsstjórar verðbréfafyrirtækjanna hérlendis hafa náð síðustu sex ár. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um ríflega 200% á síðustu sex árum en verðbréfasjóðirnir hafa einungis náð um helmingi af þeirri hækkun á sama tímabili. Vísitala hlutabréfasjóða hækkaði til að mynda einungis um 2% árið 1998. Þegar eignasamsetning þeirra er skoðuð kemur í ljós að stór hluti eigna þeirra er í skuldabréfum, sem ég tel almenning alls ekki hafa talið sig vera að kaupa, auk þess sem hlutabréfaeigninni er dreift á fjölda félaga sem sum hver eru algerlega óseljanleg og gefa litla sem enga arðsemi," segir Árni Oddur. Það er því ljóst að menn telja að engin lognmolla muni ríkja á íslenskum hlutabréfamarkaði í ár. Afar fróðlegt verður að fylgjast með einkavæðingu á árinu, enda ljóst að áhrif hennar á hlutabréfamarkaðinn á liðnu ári voru gífurleg. Það er hins vegar spurning um hvort íslenskur markaður geti skapað sér sérstöðu í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Má telja afar ólíklegt að áhugi erlendra fjárfesta á að koma inn á íslenskan markað verði mikill á meðan heimildir þeirra til fjárfestingar í sjávarútvegi og orkufyrirtækjum eru jafn takmarkaðar og raun ber vitni.

Helstu tækifærin liggja í tækni- og fjármálafyrirtækjum.

Fjárfestar þurfa að vera mun vandlátari á val sitt en áður