GEORG Kr. Lárusson, varalögreglustjóri í Reykjavík, sagði í gær að það væri mat manna að Logi Bergmann Eiðsson, fréttamaður Sjónvarps, hefði óhlýðnast fyrirmælum lögreglu á vettvangi brunans við hráefnislager Hörpu við Stórhöfða á sunnudagskvöld. Logi var handtekinn við fréttaöflun á vettvangi og færður í lögreglubíl.
Umdeilt atvik milli fréttamanns og lögreglu á brunastað Lögreglan kærir og fréttastofan kærir á móti

GEORG Kr. Lárusson, varalögreglustjóri í Reykjavík, sagði í gær að það væri mat manna að Logi Bergmann Eiðsson, fréttamaður Sjónvarps, hefði óhlýðnast fyrirmælum lögreglu á vettvangi brunans við hráefnislager Hörpu við Stórhöfða á sunnudagskvöld. Logi var handtekinn við fréttaöflun á vettvangi og færður í lögreglubíl.

Lögð hefur verið fram kæra á hendur Loga og er málið í frumrannsókn hjá lögreglunni. Fréttastofan hyggst einnig kæra aðgerðir lögreglunnar.

"Þótt málið sé ekki flókið þarf það að fara í gegnum ákveðið ferli. Það eru allir möguleikar uppi, að málið verði fellt niður og yfir í það að málið fari í þann farveg að honum verði gert að greiða sekt eða gefin út ákæra á hendur honum. Málið er í rannsókn og ekkert meira um það að segja," sagði Georg.

Kornið sem fyllti mælinn, segir fréttastjórinn

Bogi Ágústsson, fréttastjóri Sjónvarps, sagði að atvikið á sunnudagskvöld væri kornið sem fyllti mælinn og nú muni Sjónvarpið að öllum líkindum kæra lögregluna fyrir framgöngu lögreglumannsins sem tók Loga fastan og leggja myndbandsupptöku af atburðinum fram sem sönnunargagn. "Þetta er í þriðja skiptið sem þessi sami lögregluþjónn hindrar fréttamenn okkar í starfi að við teljum. Elsta dæmið er fimm ára gamalt og ég skrifaði Böðvari Bragasyni [lögreglustjóra] bréf vegna þess tilviks en fékk aldrei svar," sagði Bogi.

"Við viljum gjarnan eiga góð samskipti við lögregluna og höfum átt góð samskipti við hana með örfáum undantekningum. Það er óþolandi að geta ekki sinnt störfum sínum á opinberum vettvangi án slíkra afskipta einstakra lögregluþjóna." Bogi sagði að það væri örugglega ekki opinber stefna lögreglunnar í Reykjavík að hindra fréttamenn við fréttaöflun. "Ef það væri stefnan yrðum við varir við hana hjá fleirum en örfáum einstaklingum."

Lögregluþjónninn greip fyrir linsu myndatökuvélar tökumanns Sjónvarps er hann myndaði handtöku Loga og sagði Bogi að hann hefði ekkert leyfi til að skipta sér af myndatökunni. "Hafi menn talað um að ljós séu sterk þá verð ég að segja að þetta eru sömu ljós og við notum þegar við erum að taka viðtöl við menn úti við og þau hafa ekki truflað menn hingað til." Morgunblaðið/Jón Svavarsson LOGI Bergmann Eiðsson var handtekinn við fréttaöflun á sunnudagskvöld og hefur lögreglan lagt kæru á hendur honum. Sjónvarpið mun að öllum líkindum kæra á móti og leggja myndbandsupptöku af atburðinum fram sem sönnunargagn.