Axel Pihl
Látinn er sænskur vinur og samstarfsmaður margra Íslendinga,
Axel Pihl, á 88. aldursári.
Axel Pihl hóf störf við niðursuðuiðnað 1928 hjá Abba A/B sem hét þá reyndar Bröderne Ameln. Til Íslands kom hann fyrst árið 1952 en hafði þá verið fimm til sex ár í Noregi við síldarkaup.
Okkar fyrirtæki hafði þá lengi flutt út sykursöltuð hrogn til Svíþjóðar og höfðum við þá ekki alltaf tök á að skoða allt fyrir afskipun. Það kom því fyrir að við fengum kvartanir um gæðin á litlum hluta. Þetta varð aldrei að neinu stórmáli og leystist jafnan með góðu samkomulagi. Við höfðum því hug á að hrognin væru tekin út endanlega hér fyrir afskipun.
Axel Pihl kom þá til sögunnar og beið hans hér ærið og vandasamt verkefni. Bæði var hann ábyrgur gagnvart Abba, að það sem hann samþykkti hér reyndist góð og gild vara, því mat hans var endanlegt gagnvart okkur.
Þá þurfti að hafa góða samvinnu við saltendur sem á þessum tíma voru oft um 50 á okkar vegum. Axel heimsótti þá alla og leiðbeindi við framleiðsluna þar sem þess þurfti. Hann var hér venjulega um tvo mánuði á vertíðinni og átti mikinn þátt í því að framleiðslan batnaði og menn gerðu sér betur grein fyrir því að verið var að framleiða matvöru. Árangurinn varð sá að víðast hvar þurfti ekki að fylgjast með söltun að staðaldri. Hrognin voru svo endanlega tekin út við afskipun.
Það var ekki á allra færi að segja mönnum til, sem töldu sig kunna sitt fag, en Axel var hjálpsamur og velviljaður og aldrei smásmugulegur. Hann eignaðist því vini og kunningja um allt land.
Samvinna okkar Axels stóð um áratugi með gagnkvæmu trausti og vináttu og ugglaust hafa þær skipt tugum þúsunda þær tunnur sem fóru um okkar hendur þessi árin.
Þegar hann hætti störfum hjá Abba 1980 eftir 52 ár vorum við dálítið uggandi um hvað við tæki. Þetta reyndist ástæðulaust því sonur Axels, Torsten Pihl, tók við af föður sínum og hefir með ágætum haldið merki hans á loft, enda greinilegt hvar hann hefir lært fræðin.
Axel sinnti ekki eingöngu hrognum hér. Öllu stærra verkefni hafði hann við úttöku á síld fyrir Abba. Ekki þekkti ég til starfa hans á þeim vettvangi, en hann var af mörgum talinn sá maður sem mesta þekkingu hafði á síld á Norðurlöndum.
Veri hann kært kvaddur.
Gunnar Petersen.