Kapteinn Kjærnested Guðmundur Kjærnested varð frægur fyrir að bjóða stórveldunum birginn í þorskastríðunum. Nú stendur sonarsonur skipherrans og alnafni einnig í brúnni; hefur stofnað tvö skipafélög, sem sjá um alla sjóflutninga fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli milli Íslands og Bandaríkjanna.

Kapteinn

Kjærnested

Guðmundur Kjærnested varð frægur fyrir að bjóða stórveldunum birginn í þorskastríðunum. Nú stendur sonarsonur skipherrans og alnafni einnig í brúnni; hefur stofnað tvö skipafélög, sem sjá um alla sjóflutninga fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli milli Íslands og Bandaríkjanna. Alríkisdómstóll í Washington kvað sl. miðvikudag upp þann dóm að bjóða beri flutningana út aftur, en enn er ekki ljóst hvort Bandaríkjaher áfrýjar þeim úrskurði. Skapti Hallgrímsson hitti hinn unga athafnamann að máli, en Guðmundur yngri nam frumkvöðlafræði vestanhafs og starfaði í sjö ár hjá skipafélaginu Van Ommeren ­ þar sem hann stýrði m.a. flutningum fyrirtækisins til Íslands fyrir Bandaríkjaher.

GUÐMUNDUR er 31 árs. Hann varð stúdent frá Verslunarskóla Íslands 1988, hélt eftir það til Bandaríkjanna þar sem hann var við nám í Babson College í Boston. Aðalfag hans þar var Entrepreneurship , það sem kalla mætti frumkvöðlafræði. "Þá hlógu margir félaga minna; skildu ekki hvernig hægt væri að læra að verða frumkvöðull," segir Guðmundur. Hann lauk prófi frá Babson 1991.

"Ég var snemma ákveðinn í því að stofna eigið fyrirtæki einn góðan veðurdag. Lokaverkefni mitt og Björns Kristjánssonar, félaga míns, frá Babson College var viðskiptaáætlun um að stofna skipafélag, reyndar með siglingar milli Íslands og annarra staða í Evrópu í huga. Þeir hjá Eimskip og Samskip aðstoðuðu okkur svolítið. Við sýndum þeim planið en ég held reyndar að þeim hafi ekki fundist það merkilegt. Töldu að þetta gæti ekki gengið."

Eftir að Guðmundur lauk námi í Babson hóf hann fljótlega störf hjá hollenska skipafélaginu Van Ommeren í Bandaríkjunum. "Alfred heitinn Jolson, kaþólski biskupinn yfir Íslandi, sem var guðfaðir minn, vissi að ég ætlaði að fá mér vinnu úti og hann hjálpaði mér; kom mér í samband við vin sinn í Greenwich í Connecticut sem kom mér í samband við nokkra aðila, meðal annars framkvæmdastjóra Van Ommeren í Stanford, Connecticut."

Sjö ár hjá Van Ommeren

Guðmundur var í eitt ár hjá fyrirtækinu áður en það hreppti samning um flutning fyrir bandaríska herinn milli Bandaríkjanna og Íslands. Samkvæmt milliríkjasamningi Íslands og Bandaríkjanna frá 1986 ber að bjóða út flutninga fyrir varnarliðið og skipta þeim milli lægstbjóðenda frá hvoru landi, þannig að 65% flutninga komi í hlut þess félags sem lægst býður, en 35% í hlut þess sem býður lægst í hinu landinu.

"Frá 1986 hafa íslensku félögin verið með 65% flutninganna en þau bandarísku með 35%. Ástæðan er sú að talsvert dýrara er að reka skip á bandarískum fána en öðrum. Því má segja að íslensku félögin keppi í raun um 65% hlutinn en þau bandarísku um 35% hlut flutninganna, en bandaríska félagið fær greitt nærri þrefalt hærra verð fyrir hverja gámaeiningu en það íslenska," segir Guðmundur.

"Ég var enn blautur á bak við eyrum þegar ég byrjaði hjá Van Ommeren; var að læra þetta og átti að vera aðstoðarframkvæmdastjóri Íslandssiglanna, en svo fór að ég sá alfarið um þær. Ári seinna settum við upp áætlun til Azoreyja fyrir herinn og árið þar á eftir stofnuðum við félag um siglingar milli Norfolk og Bermúda. Þetta rak ég allt en 1996 leitaði hugurinn til þess að fara í MBA-nám, sem ég hafði lengi hugsað mér að gera. Þegar ég tilkynnti forráðamönnum fyrirtækisins hvað ég hefði í huga, buðust þeir til að borga svokallað Executive MBA- nám fyrir mig við Colombia-háskólann sem ég gæti sinnt samhliða starfinu. Þar nam ég svo á hverjum föstudegi í tvö ár og kláraði MBA-námið í maí á síðasta ári."

Guðmundur hætti störfum hjá Van Ommeren snemma árs í fyrra. "Þá var rekstur fyrirtækisins í Stanford í Connecticut seldur og ég átti að fara í olíuskipadeild fyrirtækisins í Frakklandi um leið og ég hafði lokið námi. Ég er góður vinur forstjórans í Evrópu og hugsaði málið, en niðurstaðan varð sú að stofna heldur mitt eigið fyrirtæki. Það skipti líka máli að kærasta mín, sem er bandarísk, er í góðu starfi í New York; er sjóðstjóri hjá Metropolitan Museum og var ekki sérlega hrifin af því að fara til Evrópu."

Tók fyrrverandi herbergisfélaga á orðinu

Þegar þarna var komið sögu bar Guðmundur gamalt loforð upp á fyrrverandi herbergisfélaga sinn úr Babson College, Brandon Rose. Það var þess efnis að þegar (ekki ef) Guðmundur færi út í eigin viðskipti myndi Rose og fjölskylda hans aðstoða við það verkefni.

"Ég var búinn að vinna við rekstur skipafélags í sjö ár og búinn að setja upp siglingar á þremur leiðum. Ég leit þannig á málið að ég væri orðinn sérfræðingur í þessu og gat sýnt fram á að ég hefði staðið mig vel. Það eina sem fyrirtækið lét mig hafa var fjármagn og það gat ég fengið annars staðar." Þar af leiðandi fannst honum orðið tímabært að láta gamla drauminn rætast; að stofna sitt eigið fyrirtæki.

Guðmundur tjáði sig lengi vel ekki um hvernig eignasamsetningu fyrirtækjanna væri háttað.

"Ég gerði það ekki, vegna málaferlanna, en það er ekkert leyndarmál. Við byrjuðum með fyrirtækið í Bandaríkjunum, Brandon og ég, og ég naut mjög góðra kjara hjá fjölskyldu hans. Ég talaði einnig við aðra fjárfesta og það hefði ekki verið neitt mál að fá einhverja aðra með sér. Ég var hins vegar búinn að þekkja Brandon í tíu ár, hafði búið með honum og vissi hvar ég hafði hann og tók hann því umfram aðra sem höfðu áhuga." Fjölskylda þessa fyrrverandi herbergisfélaga Guðmundar rekur að hans sögn verktakafyrirtæki, og veltir líklega um 200 milljónum dollara á ári. "Þau voru mjög sanngjörn, vegna þess að ég er vinur Brandons." Bandaríska skipafélagið, Transatlantic Lines, var stofnað í febrúar í fyrra og var upphaflega í eigu þeirra tveggja, Brandons Rose og Guðmundar, sem áttu sín 50% hvor. Nú á bandaríska siglingafyrirtækið American Automar 51 en Brandon og Guðmundur 49% í sameiningu.

Brandon Rose á svo 50% í íslenska félaginu, Atlantsskipum ehf., Guðmundur á 49% og Símon faðir hans á 1%.

Guðmundur hætti hjá Van Ommeren í byrjun febrúar og segist hafa gengið frá boði í siglingarnar fyrir herinn í byrjun mars. "Í apríl var nokkuð ljóst að við værum lægstbjóðendur og fengjum samninginn. Þá byrjaði vinna við að fara mjög nákvæmlega í gegnum öll gögn málsins. Passað var upp á að allt væri rétt, því þeir hjá hernum vildu hafa allt á hreinu. Guðmundur segir her lögfræðinga hafa komið að málinu ytra, fyrir herinn, fyrir varnarmálaráðuneytið (Pentagon) og bandaríska utanríkisráðuneytið ­ eins og venjulega, vegna þess að umræddir aðilar vilja að allt sé skothelt. Einnig hafi lögfræðingar skipafélagsins í Bandaríkjunum og lögfræðingur Atlantsskips hérlendis farið gaumgæfilega ofan í saumana á samningunum.

Og enginn sá neitt athugavert við samningana, segir Guðmundur.

"Við gerðum þetta allt eftir kúnstarinnar reglum. Það sem hefur breyst frá því að milliríkjasamningurinn var gerður 1986 er að þá voru höft á því að erlendir aðilar ættu fyrirtæki á Íslandi, en nú eru engin höft á því nema í sjávarútvegi. Í þeim samningi segir einungis að íslenskt skipafélag skuli eiga í hlut og Atlantsskip er íslenskt skipafélag. Því hefur enginn mótmælt. Einnig segir að skip á bandarísku flaggi skuli sjá um þann hluta flutninganna."

Guðmundur bauð síðastliðið vor í siglingar á vegum hersins frá Bandaríkjunum til Ascension-eyjar í Suður-Atlantshafi. "Það var í apríl eða maí, eftir að við buðum í siglingarnar til Íslands, en Van Ommeren bauð líka, ataðist í kerfinu úti við að setja út á okkur en á endanum hreppti reyndar þriðji aðili hnossið. Eftir á að hyggja er ég reyndar mjög feginn að við fengum ekki þann samning, vegna þess að ég var um það bil að klára Columbia- skólann og tíminn hentaði því ekki vel.

Það var í raun líka gott fyrir okkur að frestun varð á Íslandssamningnum. Það gerði það að verkum að við vorum enn sterkari og betur undir það búnir að takast á við verkefnið, meðal annars vegna verðlækkana á leiguskipum og gámum ­ en verðhrun varð á markaðnum vegna kreppunnar miklu í Asíu."

Knappur tími

Það var ekki fyrr en í haust að endanlega var ákveðið að úthluta fyrirtækjum Guðmundar, Atlantsskipum og TransAtlantic Lines (LLC) margumræddum siglingum milli Íslands og Bandaríkjanna.

"Úthlutunin var tilkynnt í lok september, en eftir að okkur er úthlutað er keppinautunum gerð grein fyrir niðurstöðunni. Þá geta þeir fengið að setjast niður með þeim sem úthluta og fá síðan tíu daga til að áfrýja ­ sem bæði Eimskip og Van Ommeren gerðu. Eftir það fer málið til Ríkisendurskoðunar Bandaríkjanna [General Accounting Office] og tekur einhvern tíma í meðferð þar, en á meðan erum við með samninginn, með því skilyrði að málið falli okkur í hag. Þegar keppinautar okkar sáu að Ríkisendurskoðunin væri sammála þeim sem úthlutuðu okkur flutningunum og myndi engu breyta ákváðu þeir að fara með málið í dómskerfið."

Það var síðustu vikuna í október að Guðmundur og félagar fengu endanlega á hreint að þeir hrepptu samninginn; eftir að hershöfðingi í landhernum hafði skrifað upp á hann. "Áður en ég fékk samninginn undirritaðan af honum gat ég ekki leigt skip. Við höfðum því nánast engan tíma til þess að koma hlutunum af stað."

Eitt af því sem forráðamenn Van Ommeren hafa gagnrýnt er að Guðmundur hafi ekki verið kominn með skip til siglinganna strax í upphafi; þeir túlka samninginn svo að staðfesting um að þau séu til reiðu verði að vera fyrir hendi strax og tilboðið er gert.

"Það er eins og fyrir Odda að kaupa pappír áður en hann fær samninginn um að prenta símaskrána," segir Guðmundur þegar þetta ber á góma. "Það varð svo ekki endanlega öruggt að við fengjum samninginn fyrr en skömmu áður en við áttum að byrja að sigla. Það er eins og Oddi fengi að vita með viku fyrirvara að hann ætti að prenta símaskrána, og þá væri pappírinn einhvers staðar í Kanada!"

Guðmundur segist aldrei hafa óttast að áðurnefndur hershöfðingi staðfesti ekki samninginn með því að skrifa undir hann. "Þetta er hefðbundið; allt eftir kúnstarinnar reglum. Kerfið athugar allt svona mjög vel áður en endanlega er gengið frá. Á meðan voru svo Eimskip og einhverjir aðrir, sjálfsagt utanríkisráðuneyti Íslands, að róa í Pentagon og öllum öðrum sem þeir gátu í þeirri von að niðurstaðan yrði önnur. Allan tímann reyndar, frá því í maí eða júní í fyrra og þangað til núna."

Greint hefur verið frá bréfi (sem Morgunblaðið hefur undir höndum), sem íslenska utanríkisráðuneytið sendi varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna sem trúnaðarmál í september síðastliðnum, þar sem þeirri skoðun er m.a. lýst að Atlantsskip hafi ekki burði til að annast flutningana. Guðmundur var spurður hvernig hann brást við þegar hann komst að þessum afskiptum íslenskra stjórnvalda?

"Ég þekki fullt af fólki í utanríkisráðuneytinu og átti ekki von á að aðilar þar myndu bregða fyrir mig fæti. Ég er líklega svo góðhjartaður að ég trúði ekki að svona lagað væri gert. Umræddu bréfi var komið til mín þegar ég var á fundi Íslensk-ameríska verslunarráðsins í Washington í byrjun október. Þá vildi svo til að Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, var staddur þarna, ásamt Jóni Baldvin Hannibalssyni, sendiherra í Washington og mörgum öðrum úr utanríkisþjónustunni." Guðmundur segir að hann hafi orðið hoppandi reiður þegar hann las bréfið, en í því segir utanríkisráðuneytið m.a.: "Ríkisstjórn Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu, byggt á þeim upplýsingum sem liggja fyrir, að TransAtlantic Lines ­ Iceland ehf [TLI] og TransAtlantic Lines LLC [TLL] séu tengd fyrirtæki undir sameiginlegri stjórn, í eigu og/eða undir stjórn íslenskra ríkisborgara, og að [TLI] skorti nauðsynlega reynslu, tæknilega getu, fjárhagslega ábyrgð og efnisleg tengsl við Ísland." Jafnframt er sagt í bréfinu að ríkisstjórn Íslands túlki samning og viljayfirlýsingu ríkjanna á þann veg að Bandaríkjamenn geti ekki gengið að tilboði svo nátengdra fyrirtækja. Ég vil benda á að þegar ráðuneytinu var bréflega skýrt frá því að fyrirtækin væru tengd hafði það ekkert út á það að setja."

Fer aðeins fram á hlutleysi

"Ég ræddi fyrst við starfsmenn í utanríkisþjónustunni, sem bentu mér á að málið væri komið úr þeirra höndum. Þá spurði ég Jón Baldvin að þessu og hann benti mér á að ræða við mann sem réði þessu, ráðherrann, fyrst hann væri staddur þarna. Og þegar mér var runnin mesta reiðin ræddi ég við Halldór."

Guðmundur segir Halldór hafa játað að vita af bréfinu en sagst ekki hafa séð það. Hann hefði ætlað að kanna málið, "en síðan hef ég ekki heyrt í honum. Ég hef engar skýringar fengið, þrátt fyrir skriflega beiðni lögmanns míns þar um, vegna fullyrðinga ráðuneytisins í bréfinu." Guðmundur segist í raun ekki fara fram á annað en ráðuneytismenn séu hlutlausir. "Ég er ekki hræddur um að keppa á markaðnum, en ég á ekki að þurfa að vera með ráðuneytið á bakinu líka. Ef ég væri diplómat myndi ég aldrei skrifa svona hluti. Þetta er algjörlega óverjandi; hvers vegna þarf bréf frá þeim að vera trúnaðarmál? Hvers vegna ekki að vera stoltur af því sem sent er og leyfa öllum að sjá það? Sú staðreynd að svo var ekki held ég segi meira en mörg orð."

Hvaða skýringar telurðu á því að ráðuneytið blandi sér í málið með þessum hætti?

"Þetta er góð spurning. Bandaríski herinn sá ekkert athugavert við að gera samning við Atlantsskip og TransAtlantic Lines eins og gert var. Hann gaf sér langan tíma til að grandskoða málið. Bandaríska utanríkisráðuneytið gerði engar athugasemdir við þau vinnubrögð. Lögfræðilegir ráðgjafar okkar telja samninginn einnig fyllilega standast milliríkjasamninginn. Íslenska utanríkisráðuneytið hins vegar hefur gengið mjög langt í afskiptum sínum af málinu. Það hefur leyft sér að vera með fullyrðingar um Atlantsskip sem það getur ekki staðið við. Getur verið að utanríkisráðuneytið sé að láta undan þrýstingi hagsmunaaðila í þjóðfélaginu?"

Ertu að segja að ráðuneytið sé að hygla Eimskipafélaginu?

"Blasir það ekki við þegar bréf ráðuneytisins er lesið? Ráðuneytið er að minnsta kosti ekki að hygla okkur."

Guðmundur segir Atlantsskip hafa sent utanríkisráðuneytinu spurningar í maí í fyrra, um nokkur atriði varðandi túlkun samnings og samkomulags milli Íslands og Bandaríkjanna um sjóflutningana fyrir varnarliðið. Það hefði tekið ráðuneytið tvo mánuði að svara. "Í svari ráðuneytisins kom fram að íslenska fyrirtækið gæti ekki notað skip sem sigldi undir bandarískum fána, en að öðru leyti taldi ráðuneytið sig ekki hafa forsendur til að fjalla um spurningarnar sem fram komu í bréfinu. Eftir að við höfðum fengið samninginn við herinn hafði ráðuneytið hins vegar allt í einu forsendur til að svara hinu og þessu og sendi þá bandarískum embættismönnum bréf, dagsett 28. september 1998, með áliti sínu á mér, Atlantsskipum og TransAtlantic Lines. Það jaðrar við að þeir segi að ég sé ekki góður og gegn Íslendingur, sem mér sárnar hvað mest í þessum bréfum. Utanríkisráðuneytið hefur svo neitað að gefa blaðamönnum afrit af þessum bréfum, ber fyrir sig að það varði varnir landsins en afhendir Eimskipum þau á silfurfati og vitnað hefur verið til þeirra í málflutningi Eimskipa og dómsorði."

Vill 10% af markaðnum

Guðmundur Kjærnested er búsettur vestanhafs, í Greenwich í Connecticut. Hann er framkvæmdastjóri TransAtlantic Lines (LLC), sem sér um 35% flutninganna. Framkvæmdastjóri Atlantsskipa ehf., sem sér um 65% flutninganna, er Stefán Kjærnested, bróðir hans. Atlantsskip sér jafnframt um markaðssetningu beggja félaga á almennum markaði hérlendis. Þeir segja hér skipafélag á ferðinni sem ætli sér að ná 10% af fraktsiglingum milli Íslands og Bandaríkjanna. "Við erum með aukapláss í skipunum til að taka um það bil einn þriðja af markaðnum, en ætlum okkur að ná um tíu prósentum. Við byrjuðum siglingar í nóvember og nú erum við að hefja markaðssetningu hérlendis af fullum krafti," segir Guðmundur, og bætir við að sér og Stefáni hafi verið vel tekið í þeim fyrirtækjum sem þeir hafi heimsótt.

Guðmundur þvertekur fyrir að Atlantsskip hafi fengið flutningana fyrir varnarliðið með undirboði. Atlantsskip flytur 65% af varningi hersins. "Við fáum um 2.400 dollara fyrir 40 feta gám frá Norfolk til Íslands en Eimskip fékk um 1.400 dollara. Bandaríkjaher er stærsti viðskiptavinurinn á þeirri leið og menn sem eru í viðskiptum hér vita að þetta er ágætis verð. Við buðum 38% hærra en Eimskip var með fyrir þremur árum. Fyrirtækið fékk þá 130 milljónir á ári, en við fáum 180 milljónir. Magnið hefur aðeins minnkað síðan Eimskip sá um þessa flutninga, en í heild fáum við samt meira."

Guðmundur kveðst hafa orðið var við að forráðamenn sumra fyrirtækja hérlendis telji hann hafa boðið mjög lágt í samninginn fyrir herinn og verði því væntanlega gjaldþrota. "Ég held að besta sönnun þess að svo er ekki sé að Eimskip fór í mál. Þeir telja okkur ekki fara á hausinn. Ég veit að Eimskip er búið að verja óhemju fé í þessi málaferli. Þeir hafa því vafalaust talið sig hafa misst stóran spón úr aski sínum, enda þótt þeir hafi haldið því fram að fyrirtækið hafi haft lítið sem ekkert upp úr þessum flutningum síðustu þrjú árin.

Við erum með tvö skip í ferðum milli Íslands og Bandaríkjanna, á tveggja vikna fresti, og bjóðum því sambærilega þjónustu og Eimskip. Þar sem Samskip siglir ekki til Bandaríkjanna lítum við á Eimskip sem okkar aðal keppinaut. Samskip selur yfir í Eimskipafélagsskipin og er því flutningsmiðlun á þessari leið."

Það kann að vaxa einhverjum í augum að stofna eitt stykki skipafélag og hefja siglingar; Guðmundur var spurður að því hvort það væri ekkert mál fyrir ungan mann eins og hann.

"Ég ætlaði alltaf að gera þetta, eins og ég sagði; að stofna eigið fyrirtæki einn góðan veðurdag, og hlutirnir æxluðust þannig að ég gerði það núna. Þar sem ég er búinn að fást við þetta áður, vissi ég alveg hvað ég þurfti að gera. Að vísu bjóst ég ekkert frekar við að bæði félögin, Atlantsskip og TransAtlantic Lines, fengju bæði samninga samtímis. En það kom skemmtilega á óvart. Ætla mætti að Eimskip gæti boðið lægra verð þar sem fyrirtækið hefur verið með alla almenna sjófrakt milli Íslands og Bandaríkjanna."

Lítil samkeppni í raun

Guðmundur segist vera þeirrar skoðunar að Eimskip og Samskip séu í raun ekki að keppa á Ameríkumarkaði, enda sigli Samskip ekki á þeirri leið heldur kaupi gámapláss af Eimskipum. "Ef til vill átti Eimskip ekki von á samkeppni frá Atlantsskipum," segir hann.

Guðmundur segir það ekki tilviljun hvað hann bauð í umræddar siglingar.

"Ég var búinn að sjá hvernig þetta hefur gengið fyrir sig. Þegar samningurinn var boðinn út 1992 hafði Eimskip verið með hann í talsverðan tíma. Samskip fékk þá hins vegar íslenska hlutann ­ á rosalega lágu verði, því þá kepptu Eimskip og Samskip hart. Van Ommeren fékk 35% hluta flutninganna; bandaríska hlutann. Áður en útboðið fór fram ári síðar hafði Samskip keypt pláss í skipum Eimskipa og þá hækkaði verðið mjög aftur. Og Eimskip fékk. Aftur kepptu fyrirtækin tveimur árum seinna og verðið fór þá mjög niður á við. Eimskip náði samningnum og hefur verið með hann síðustu þrjú árin. En nú er Samskip búið að kaupa pláss af Eimskipum á nýjan leik og líklega átti verðið að fara upp aftur. Ætla mætti að þeir hafi ekki búist við neinni samkeppni og Eimskip bauð talsvert hærra en í síðasta útboði."

En hvað gerist næst í þessu máli? Telur Guðmundur að bandaríski herinn áfrýji niðurstöðu dómsins?

"Nú leggjast menn undir feld og hugsa málið. Mín reynsla er að það eru alltaf margar lausnir á hverju vandamáli. Listin er að velja þá réttu og fylgja henni eftir. Verði þetta endanleg niðurstaða verður það hinn almenni neytandi á Íslandi sem tapar á endanum með því að greiða hærra vöruverð, vegna skorts á samkeppni á þessari siglingaleið. Eimskip og Samskip munu þá njóta þeirra afskipta stjórnvalda, sem ég hef nefnt, í formi minni samkeppni. Það er mergurinn málsins."

Morgunblaðið/Árni Sæberg