Hún fór sem eldur í sinu um landið 23. dag ágústmánaðar 1946 fréttin um að KR-ingurinn Gunnar Huseby hefði orðið Evrópumeistari í kúluvarpi, fyrstur Íslendinga, á Evrópumeistaramótinu í Ósló. Hið unga lýðveldi sem aðeins hafði staðið á eigin fótum í rúm tvö ár hafði eignast íþróttahetju sem var fremst allra í Evrópu.

Afrek Huseby fylltu

unga þjóð stolti Á meðan frjálsíþróttadeild KR var og hét var deildin ein sú blómlegasta innan félagsins. Ívar Benediktsson kynnti sér sögu nokkurra fremstu sona KR og íslensku þjóðarinnar í tilefni 100 ára afmælis félagsins.

Hún fór sem eldur í sinu um landið 23. dag ágústmánaðar 1946 fréttin um að KR-ingurinn Gunnar Huseby hefði orðið Evrópumeistari í kúluvarpi, fyrstur Íslendinga, á Evrópumeistaramótinu í Ósló. Hið unga lýðveldi sem aðeins hafði staðið á eigin fótum í rúm tvö ár hafði eignast íþróttahetju sem var fremst allra í Evrópu. Þessi staðreynd fyllti þjóðina sem í lýðveldinu bjó stolti, þetta var einmitt það sem hana vantaði til þess að undirstrika þá staðreynd að hún átti fullt erindi í samfélag sjálfstæðra ríkja. Ekki skemmdi heldur fyrir að íþróttahetjan var eins og klippt út úr fornsögunum, heljarmenni að burðum, rammur að afli og varpaði 7 kg kúlu lengst allra evrópskra karlmanna. Sumir sögðu Gunnar vera tákngerving Íslendingasagna.

Gunnar var á 23. aldursári þegar hann varð Evrópumeistari í Ósló. Fjórum árum síðar varði hann titil sinn á Evrópumeistaramótinu í Brussel og er hann eini íslenski frjálsíþróttamaðurinn sem náð hefur þeim árangri.

Gunnar fór ungur að leggja stund á íþróttir og auk þess að verða fljótt liðtækur kastari þá náði hann einnig góðum árangri í spretthlaupum, enda bjó hann yfir feikilegum sprengikrafti sem endurspeglaðist þó best í kastgreinunum, kúluvarpi, kringlukasti og sleggjukasti þar sem Gunnar var einnig Íslandsmethafi um tíma.

Á Evrópumeistaramótinu í Ósló þurfti Gunnar aðeins eitt kast til þess að tryggja sér sæti í úrslitum, varpði 15,64 metra, en 14 metra þurfti til að komast í úrslitin. Hann varpaði 14,94 í fyrstu umferð úrslitana en aðalkeppinautur hans, Sovétmaðurinn Dimitri Goryanov, gerði betur, kastaði 15,25 metra. Í annarri umferð varpaði Gunnar 15,56 sem reyndist lengsta kast hans í keppninni. Við því átti Gorysinov ekkert svar. Gunnar Huseby varð Evrópumeistari og íslenski fáninn blakti við hún á Bislett-leikvanginum er Gunnar tók við gullverðlaununum. Kastsería Gunnars var: 14,95 ­ 15,56 ­ 14,82 ­ 15,49 ­ 14,98 ­ 15,22. Á ýmsu gekk hjá Gunnari næstu ár þar sem Bakkus hafði mikil áhrif á líf hans. Hann keppti því ekki á Ólympíuleikunum í Lundúnum 1948. Hann náði sér þó á strik aftur og 1949 var hann valinn í Norðurlandaúrvalið ásamt fleiri íslenskum íþróttamönnum, en það mætti Bandaríkjamönnum. Þar hafnaði Gunnar í 4. sæti, varpaði 15,84 metra, en sigurvegari varð Bandaríkjamaðurinn James Fuchs, setti glæsilegt heimsmet, 17,79 metra og sló aðra keppendur út af laginu.

Hátindi ferils síns náði Gunnar á Evrópumeistaramótinu 1950 á Heysel-leikvanginum í Brussel er hann varði titil sinn, varpaði 16,74 metra, 158 cm lengra en Ítalinn Angiolo Profeti. Árangur Gunnars var ekki einungis Íslandsmet heldur einnig Norðurlanda- og Evrópumeistaramótsmet og þriðji besti árangur mótsins samkvæmt alþjóðlegri stigatöflu sem þá var stuðst við til að bera saman keppnisgreinar. Íslandsmet Gunnars stóð í 17 ár. Kastserían á EM var: 16,18 ­ 16,74 ­ 16,00 ­ 16,09 ­ 14,91 ­ 16,12. Gunnari gekk vel í keppni 1950 og einnig 1951 þegar hann kastaði m.a. 16,69 í landskeppni við Norðmenn á Bislett. Var hann vinsæll og eftirsóttur íþróttamaður í Evrópu og keppti víða á þessum árum, m.a. á breska meistaramótinu.

Eftir þetta tók að halla undan fæti hjá Gunnari í baráttunni við Bakkus og aftur missti hann af tækifæri til að keppa á Ólympíuleikum þegar kom að leikunum 1952. Síðar vann Gunnar fullnaðarsigur í glímunni við áfengisbölið og kom til keppni á ný og varð síðast Íslandsmeistari í kúluvarpi 1962. Þess má geta að lengsta kasti sínu á Meistaramóti Íslands náði hann 1958, 16,03 metrum.

Gunnar varð átján sinnum Íslandsmeistari í kúluvarpi, kringlukasti og sleggjukasti, þar af 10 sinnum í kúluvarpi. Hann varpaði fyrstur Íslendinga yfir 15 og 16 metra í kúluvarpi og þeytti kringlu fyrstur yfir 50 metra. Þá vann hann Konungsbikarinn fyrir besta afrek 17. júní-mótsins oftar en nokkur annar, 1941, 1944­46 og 1948­51.

Sænska Idrottsbladet skrifaði m.a. svo um Gunnar eftir sigurinn á EM 1950: "Það er enginn leyndardómur að afrek sín á Huseby fyrst og fremst þakka hraða sínum og yfirnáttúrulegu afli handleggja og úlnliða."

Góður árangur íslenskra íþróttamanna í keppni við aðrar þjóðir og á stórmótum frá 1946­52 varð til þess að styrkja þjóðareiningu Íslendinga. Hlutur Gunnars Huseby var ekki lítill í því sambandi.

VERÐLAUNAHAFARNIR þrír í kúluvarpi á Evrópumeistaramótinu 1946, f.v., Finninn Yrjö Lehtil¨a (15,23 m), Gunnar Huseby, Evrópumeistari, (15,56 m) og Rússinn Simitri Goryanov (15,25 m).