Á SUMRI komanda er ráðgert að endurbyggja minnisvarða um Káinn, eða Kristján Níels Júlíus Jónsson (1860-1936), í bænum Mountain í Norður-Dakota, þar sem skáldið bjó lengst af í Bandaríkjunum. Minnisvarðinn verður vígður 2. ágúst, í lok íslensku þjóðernishátíðarinnar sem haldin verður dagana 30. júlí til 2. ágúst.
Minnisvarði Káins í Norður-Dakota endurgerður

Leitað eftir lið sinni á Íslandi

Á SUMRI komanda er ráðgert að endurbyggja minnisvarða um Káinn, eða Kristján Níels Júlíus Jónsson (1860-1936), í bænum Mountain í Norður-Dakota, þar sem skáldið bjó lengst af í Bandaríkjunum. Minnisvarðinn verður vígður 2. ágúst, í lok íslensku þjóðernishátíðarinnar sem haldin verður dagana 30. júlí til 2. ágúst.

Magnús Ólafsson, formaður hátíðanefndar á staðnum, segir minnisvarðann, sem reistur var 1940 fyrir utan Þingvallakirkjuna í Eyfordbyggð, svo illa farinn að ekki taki því að gera við hann. Vegna mikils kostnaðar við framtakið leitar undirbúningsnefnd hátíðarinnar nú hófanna á Íslandi eftir stuðningi. Í fréttatilkynningu undirbúningsnefndar hátíðarinnar kemur fram að "listhæfur maður úr byggðinni" hafi tekið að sér að endurgera minnisvarðann í upphaflegri mynd.

Að sögn Magnúsar eru ekki margir eftir í Norður-Dakota sem tala íslensku. "Það er ekki Íslendingafélag á staðnum en þó nokkuð af fólki sem er af íslensku bergi brotið." Engu að síður er búist við fjölmenni á hátíðinni og til stendur að forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, verði viðstaddur ásamt fjölmörgum öðrum gestum frá Íslandi.

Áætlaður kostnaður liggur nærri 15.000 dollurum, eða ríflegri milljón í íslenskum krónum, að sögn Magnúsar. Loforð fyrir nærri 8.000 dollara framlögum hafa þegar borist frá heimamönnum. Þá telur Magnús að Íslendingafélög víðs vegar um Bandaríkin muni gefa málefninu gaum. "Þegar minnisvarðinn var fyrst byggður árið 1940 kom stuðningur frá þeim."

Magnús segist líka bjartsýnn á að stuðningur berist frá Íslandi, Káinn, eða "kímniskáldið K.N. Júlíus" eins og hann er nefndur á minnisvarðanum, sé þar betur þekktur. "Ég treysti á að það komi hjálp að heiman. Hér eru mjög fáir eftir sem muna eftir skáldinu og geta lesið ljóðin hans. Ég man hins vegar eftir honum. Þeir sem ég talaði við síðasta sumar heima á Íslandi voru vongóðir um að fólk væri tilbúið til þess að rétta hjálparhönd."

Þeir, sem hafa áhuga, geta veitt framtakinu lið með því að greiða framlag sitt í "K.N. sjóðinn" í Búnaðarbankanum Melum, 0311-13- 700128, kennitala: 130227-4579.MAGNÚS Ólafsson, formaður undirbúningsnefndar íslensku þjóðernishátíðarinnar, Loretta Bernhoft, varaformaður og Curtis Olafson, fulltrúi Thingvalla Cemetary Association fyrir framan minnisvarðann um K.N. Júlíus.