5. mars 1999 | Aðsent efni | 619 orð

Sólborgarmál

Tími Sólborgar er kominn

ÞEGAR ég sá jólaleikritið Dómsdag í sjónvarpinu kveikti ég strax á því að svipaða sögu heyrði ég fyrir 40 árum. Því var haldið fram á heimili foreldra minna að presturinn hefði átt barnið. Einar Benediktsson hefði tekið sér skáldaleyfi og eignarréttur hans á jörðunum Kollavík,
Sólborgarmál Tími Sólborgar er kominn Ég tel sjónvarpsmynd Egils Eðvarðssonar, segir Eiríkur Kristjánsson , engan hneykslanlegan skáldskap. ÞEGAR ég sá jólaleikritið Dómsdag í sjónvarpinu kveikti ég strax á því að svipaða sögu heyrði ég fyrir 40 árum. Því var haldið fram á heimili foreldra minna að presturinn hefði átt barnið. Einar Benediktsson hefði tekið sér skáldaleyfi og eignarréttur hans á jörðunum Kollavík, Borgum og Kollavíkurseli væri beint tengdur Sólborgarmálinu og þetta hefði gengið upp vegna meinleysis og einfeldningsháttar Hjartar hreppstjóra, og var þá sagt frá því hvernig fór fyrir Hirti þegar hann fór að kveða niður Hvammsundrin.

Pabbi sagði mér þá sögu að Eiríkur Kristjánsson afi minn hefði keypt jarðirnar Kollavík, Borgir og Kollavíkursel af Einari Benediktssyni og við samningsgerðina hefði hann notið aðstoðar Bakkusar konungs og kaupsamningurinn verið þannig að engin leið hefði verið fyrir afa að eignast jarðirnar, enda hefðu afi og amma flutt öreigar úr Kollavík í Nes þremur árum síðar.

Einar Benediktsson eignaðist þessar jarðir í Sólborgarferðinni. Langafi minn Guðmundur Þorvaldsson flutti úr Klifshaga í Kollavík vorið 1893. Hann virðist hafa haft það hlutverk að fela eignarrétt Einars á jörðunum, eins og fram kemur í bókinni "Móðir mín húsfreyjan", þar sem Auður föðursystir mín lýsir móður sinni Þorbjörgu dóttur Guðmundar og veit Auður ekki betur en að Guðmundur eigi jarðirnar.

Eins var það talið einkennilegt að Guðmundur vildi alls ekki láta jarðsetja sig á sama stað og Sólborgu.

Hjalti Jóhannesson, sem fæddur er og uppalinn í Flögu, hefur sagt mér það að þegar þeir Þorvaldur á Völlum, Guðjón á Sævarlandi, Kristján á Hermundarfelli og Jón í Garði voru komnir í Flögu til Jóhannesar hafi þeir allir verið sammála um það að presturinn hafi átt barnið og ekki síst ef Ólína á Kúðá var komin, hún fullyrti það nú bara.

Eiríkur Guðmundsson heyrði þá Gunnlaug Benediktsson, Guðmund Jónasson, Guðmund Eiríksson og Stefán Guðmundsson vera að tala um Sólborgarmálið og töldu þeir allir að presturinn hefði átt barnið og Einar Benediktsson dæmt Sigurjón, vinnufélaga þeirra í Síldarverksmiðjunni á Raufarhöfn, sekan þótt hann væri saklaus. Ég tel sjónvarpsmynd Egils Eðvarðssonar engan hneykslanlegan skáldskap, heldur lýsingu á atburði er átti sér stað hér í sveit. Egill hefur sagt mér það að hann hafi ferðast hér um fyrir 3­4 árum, þá tel ég að hann hafi heyrt þá sögu er höfð er eftir Birni á Brekknakoti, að þegar Hjörtur hreppstjóri hafi farið að eldast hafi hann fengið samviskubit og honum orðið órótt út af Sólborgarmálinu og farið að sjá í gegnum klæki Einars og sagt það að prestsfrúin hefði látið hann skrifa bréf til sýslumanns, er hún vildi koma Sólborgu burt af heimilinu, og hann hefði einfaldlega treyst henni. Eitrið taldi Hjörtur frá lækninum á Sævarlandi komið. Hjörtur taldi prestinn eiga barnið.

Í Morgunblaðinu 3.2. sl. á bls. 32, í greininni "Hennar tími er liðinn", vill Guðjón Friðriksson eyða öllu tali um að tengsl séu á milli Sólborgarmálsins og jarðakaupa Einars í ferðinni, megi telja líklegt að þarna hafi Einar verið að versla í umboði föður síns og jarðirnar síðan komist í eigu Júlíusar Sigurðssonar úr dánarbúi Benedikts.

Hér sýnist mér að Guðjón Friðriksson sé að falla í sömu gryfjuna og Einar virðist hafa gert í Sólborgarmálinu, það er að segja að grípa til skáldskapargáfunnar.

Hvernig gat Júlíus erft tengdaföður sinn tveimur árum áður en hann dó? Mér virðist Júlíus tekinn við hlutverki Guðmundar langafa míns 1897, Júlíus leigir Eiríki afa mínum jörðina Borgir 1897, en ég veit ekki betur en að Benedikt dæi 1899.

Pabbi var með leigusamninginn þegar hann sagði mér frá því að pabbi hans hefði keypt Kollavík, Borgir og Kollavíkursel af Einari Benediktssyni 1905.

Höfundur er bóndi á Borgum í Þistilfirði. Eiríkur Kristjánsson Upphaf leigusamningsins frá 12. september 1897, þar sem Eiríkur Kristjánsson, afi greinarhöfundar, leigir Borgir í Svalbarðshreppi.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.