14. mars 1999 | Sunnudagsblað | 1884 orð

ÞJÓÐGARÐURINN Á ÞINGVÖLLUM

Tæpt hundrað húsa á helgistað þjóðar

Í FRIÐHELGU landi þjóðgarðsins á Þingvöllum er fjöldi sumarbústaða, við vatnið suður af Valhöll, þar sem heitir Valhallarstígur og Rauðukusunes. Lóðum undir þá var úthlutað á tímabilinu 1930 til 1945, þrátt fyrir ákvæði laga frá 1928 um að Þingvellir skyldu vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.
ÞJÓÐGARÐURINN Á ÞINGVÖLLUM Tæpt hundrað húsa

á helgistað þjóðar

Innan vébanda þjóðgarðsins á Þingvöllum eru jarðir og sumarbústaðir og enn fleiri eru utan hins friðhelga lands, en þó innan vatnsverndarsvæðis. Ragnhildur Sverrisdóttir kynnti sér málið nánar í tilefni tveggja nýrra lagafrumvarpa um þjóðgarðinn á Þingvöllum og verndun vatnasviðs Þingvallavatns.

Í FRIÐHELGU landi þjóðgarðsins á Þingvöllum er fjöldi sumarbústaða, við vatnið suður af Valhöll, þar sem heitir Valhallarstígur og Rauðukusunes. Lóðum undir þá var úthlutað á tímabilinu 1930 til 1945, þrátt fyrir ákvæði laga frá 1928 um að Þingvellir skyldu vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Enn fleiri bústaðir standa á ríkisjörðum eða einkajörðum við vestur-, suður- og austurbakka Þingvallavatns. Alls eru bústaðirnir innan núverandi þjóðgarðsmarka 84 talsins og 4 að auki í landi Kárastaða heyra undir Þingvallanefnd. Innan þess svæðis, sem telst vera vatnasvið Þingvallavatns samkvæmt nýjustu rannsóknum Raunvísindastofnunar Háskólans og Landsvirkjunar, eru hins vegar hátt í 600 bústaðir.

Samkvæmt nýju frumvarpi um stækkun þjóðgarðsins falla tvær jarðir undir hið friðhelga land, ríkisjarðirnar Kárastaðir og Brúsastaðir. Þessar jarðir hafa heyrt undir lögin frá 1928 að því leyti, að þar var kveðið á um að ekkert jarðrask, húsabyggingar, vegi, rafleiðslur eða önnur mannvirki mætti gera í landi þeirra, fremur en annars staðar á friðlýstu svæði, nema með samþykki Þingvallanefndar. Nú er sauðfjárbúskapur stundaður á Brúsastöðum, en hefðbundinn búskapur hefur lagst af á Kárastöðum, en ábúendur þar hafa lifibrauð af rekstri verslunar í þjónustumiðstöðinni í þjóðgarðinum. Þar sem Kárastaðir og Brúsastaðir eru ríkisjarðir, sem leigðar eru til ábúenda, hafa þær heyrt undir landbúnaðarráðuneytið og um samninga við ábúendur fer samkvæmt reglum um ríkisjarðir. Með nýja frumvarpinu er lagt til að Þingvallanefnd leggi mat á hvernig hið friðhelga land verði varið fyrir ágangi búfjár og nefndin getur sett sérstakar reglur um búskap á jörðum innan hins friðhelga lands, að teknu tilliti til gildandi byggingabréfs ábúenda og heimilda til að nýta jarðirnar.

Fyrir setningu laganna árið 1928 voru fleiri jarðir á svæði þjóðgarðsins í byggð, en þær fóru fljótlega í eyði. Það voru Skógarkot og Vatnskot. Fljótlega eftir lagasetninguna var einnig hætt að búa í Svartagili, þegar hús þar brunnu. Þessar jarðir voru allar mjög litlar og því vafasamt að þær hefðu haldist í byggð fram á þennan dag, hvort sem þjóðgarðslögum var til að dreifa eða ekki, þrátt fyrir að bæirnir hafi notið veiðihlunninda í vatninu.

Gjábakki var einnig nefndur til sögunnar í upphaflegu lögunum og þar var Þingvallanefnd veitt heimild til að kaupa jörðina eða taka hana eignarnámi. Af eignarnáminu varð á sjötta áratugnum og færðist Gjábakki þá undir þjóðgarðinn, sem nær tvöfaldaðist að stærð. Fyrir rúmu ári stækkaði þjóðgarðurinn enn, þegar allt land Arnarfells við austurströnd vatnsins færðist undir hann. Áður tilheyrði helmingur jarðarinnar þjóðgarðinum, en landbúnaðarráðuneytið leysti hinn hlutann til sín frá leigutökum, sem ekki höfðu nýtt jörðina, og afhenti Þingvallanefnd.

Sumarbústaðir á friðlýstum helgistað

Árið 1999 þykir það undarleg ráðstöfun að úthluta sumarbústaðalöndum á svæði, sem lög kveða á um að sé þjóðgarður, "friðlýstur helgistaður allra Íslendinga". Lóðum var hins vegar úthlutað við vatnið suður af Valhöll og hafa Þingvallanefndir án efa sætt miklum þrýstingi, enda þótti snemma mikið stöðutákn að eiga þar bústað. Valhöll hafði reyndar áður staðið á Neðri völlum, en var dregin á ís á núverandi stað fyrir alþingishátíðina 1930. "Á Íslandi var engin hefð fyrir þjóðgörðum og ég býst við að það hafi ráðið miklu," segir Sigurður Oddsson, framkvæmdastjóri Þingvallanefndar. "Frá 1928 og fram yfir síðari heimsstyrjöld var þessum sumarbústaðalöndum í þjóðgarðinum úthlutað. Þá var úthlutað landi undir sumarbústaði á Gjábakka í byrjun áttunda áratugarins, en vegna mikilla mótmæla risu aðeins átta bústaðir þar og úthlutanir voru dregnar til baka. Til að fría sig skaðabótakröfum bauð Þingvallanefnd þeim sem höfðu fengið úthlutað lóðum nýjar lóðir á Kárastaðanesi. Margir tóku þann kostinn, en frá árinu 1974 hefur ekki verið úthlutað sumarbústaðalóðum í þjóðgarðinum."

Á því landi, sem upphaflega var afmarkað sem þjóðgarður, eru 25 sumarbústaðir sunnan Valhallar og 4 að auki í Rauðukusunesi.

"Í núgildandi fjárlögum er í fyrsta skipti að finna heimildarákvæði fyrir Þingvallanefnd að kaupa upp sumarbústaði í landi þjóðgarðsins og taka til þess nauðsynleg lán," segir Sigurður. "Það er mjög til bóta. Ef bústaðir eru til sölu hefur nefndin heimild til að ganga inn í hæsta tilboð samkvæmt gildandi lóðaleigusamningum og þegar hefur Þingvallanefnd notað forkaupsrétt sinn í einu tilviki. Hingað til hefur nefndin ekki getað gert það. Áður hefur verið reynt að fá heimild til að kaupa bústaði sem hafa verið seldir, en þar sem ekkert ákvæði um það hefur verið að finna í fjárlögum hefur það verið of þungt í vöfum að sækja um fjárveitingu og nefndin hreinlega misst af tækifærinu."

Sigurður segir ekki algengt að bústaðir fyrir sunnan Valhöll séu seldir. "Það gerist þó af og til og Þingvallanefnd hefur áhuga á að kaupa upp þá bústaði sem eru næst Valhöll til að byrja með. Ef hins vegar kæmi til greina að kaupa alla bústaðina, eða taka þá eignarnámi á matsverði, þá eru þetta gríðarlegar upphæðir. Engin áætlun hefur verið gerð á vegum Þingvallanefndar um kostnaðinn við að kaupa upp alla sumarbústaði við vatnið og þær jarðir sem eru í einkaeign. Ef allir bústaðirnir í landi þjóðgarðsins, 88 að tölu, væru keyptir upp, þá myndi það líklega ekki kosta undir hálfum milljarði króna. Bústaðirnir eru mjög misjafnir, en staðsetning þeirra er auðvitað metin til fjár."

Menningar- og upplýsingamiðstöð

Frá fyrri tíð er heimild í fjárlögum til að kaupa Valhöll, sem er í eigu Jóns Ragnarssonar og fjölskyldu. Einhverjar viðræður hafa farið fram undanfarin ár um kaup ríkisins á Valhöll, en ekki hefur orðið af samningum enn. Valhöll er illa farin og þarf að ráðast í miklar framkvæmdir ef húsið á að standa og fjarlægja þarf skúrbyggingar sem standa við það. Til skamms tíma var talað um að fjarlægja Valhöll, en Sigurður segir að margir líti svo á að húsið sé orðið órjúfanlegur hluti af Þingvöllum. Hins vegar er ætlunin að reisa um 200 fermetra menningar- og upplýsingamiðstöð ofan við vesturbakka Almannagjár, skammt frá þar sem nú stendur hringsjá. Ef fjármagn fæst er miðað að því að hún verði tilbúin fyrir hátíðarhöldin á næsta ári, þegar kristnitökunnar verður minnst. Fyrir þann tíma verður einnig gengið frá bílastæðum, hinum stærstu í túni Brúsastaða, en þau verða að mestu fjarlægð að hátíðarhöldunum loknum.

Sumarbústaðir í landi þjóðgarðsins standa allir á leigulandi. Leigusamningar voru til mislangs tíma, en árið 1985 hóf Þingvallanefnd að fara yfir þá alla og samræma. Árið 1990 voru gerðir nýir samningar, allir til tíu ára og renna þeir því út á næsta ári. Í þeim er ákvæði um að ef samningshafar óska eftir því að þeir verði endurnýjaðir verði það einungis gert til tíu ára í senn. Sigurður Oddsson segir að samningarnir verði væntanlega endurnýjaðir að mestu leyti, því annars þurfi Þingvallanefnd að leysa til sín sumarhúsin á lóðunum á matsverði. Aðspurður hvort hugsanlegt væri að Þingvallanefnd leysti til sín lóðirnar smám saman, fyrst þær sem næstar eru Valhöll og svo koll af kolli, segir Sigurður að Þingvallanefnd geti ákveðið að endurnýja ekki leigusamninga við sumarbústaðaeigendur og leysa til sín eignir á matsverði. Hann segir að eðlilega sé það erfitt að framlengja suma samninga en aðra ekki, en engin áform séu uppi um slíkt hjá Þingvallanefnd.

Þrátt fyrir að Þingvellir hafi verið mjög eftirsóttir hefur þó komið fyrir að Þingvallanefnd hafi leyst til sín bústaði þar sem eigendur greiddu ekki lóðagjöld eða endurnýjuðu ekki leigusamninga.

Ríkisjarðir og einkajarðir

Nýtt frumvarp um vernd vatnasviðs Þingvallavatns nær til fleiri jarða en frumvarpið um þjóðgarðinn. Næsta jörð fyrir sunnan þjóðgarðsmörk, suður af Kárastöðum, er Skálabrekka, sem er í einkaeign. Þar hefur verið úthlutað sumarbústaðalöndum. Uppi í heiðinni er Stíflisdalur, sem er í einkaeign og Fellsendi, sem er ríkisjörð. Ef haldið er áfram suður með vatni eru næstar ríkisjarðirnar Heiðarbær I og II og enn eru sumarbústaðir við vatnið. Þá kemur jörðin Nesjar, sem er í einkaeign, Reykjavíkurborg á land Nesjavalla, næst kemur Hagavík, sem er í einkaeign, þá Ölfusvatn, sem er að hálfu í eigu Reykjavíkurborgar og að hálfu í einkaeign, Krókur er í einkaeign og er eina jörðin sem á ekki land að vatninu en veiðirétt þar eigi að síður og loks er svo Villingavatn sem er í eyði og einkaeign.

Austan við vatn eru einkajarðirnar Mjóanes, þar sem er búskapur og Miðfell, sem er komið í eyði, en mikill fjöldi sumarbústaða hefur risið þar. Sú jörð er til sölu og hefur verið boðin Þingvallanefnd til kaups, en nefndin ekki séð ástæðu til að kaupa hana, að sögn Sigurðar Oddssonar. Svæðisskipulag Grímsness-, Grafnings- og Þingvallahreppa gerir ráð fyrir að ekki verði byggðir fleiri bústaðir á þessum jörðum.

Hefðbundinn búskapur í Þingvallasveit er því á Brúsastöðum og Heiðarbæ I og II, í Stíflisdal og Fellsenda og eina bújörðin í byggð austan vatns er Mjóanes.

Á sumum einkajörðum, til dæmis á Miðfelli, hafa sumarbústaðalönd verið seld nýjum eigendum, en á ríkisjörðum eru mismunandi leigusamningar.

Loks má svo nefna, að innan vatnasvæðisins eru nokkrir skálar ferðafélaga og vélsleðamanna við Tjaldfell og Hlöðufell. Ragnar Jónsson, bóndi á Brúsastöðum, sagði í samtali við Morgunblaðið um síðustu helgi að athuga ætti hvort hið friðhelga land mætti ekki fremur teygja sig í átt að Skjaldbreið, inn í óbyggðir, en að stækka það sífellt við vatnið sjálft. Framkvæmdastjóri Þingvallanefndar segir hugmyndir Ragnars um að Skjaldbreiðarsvæðið verði hluti af þjóðgarðinum góðar og athygli verðar.

Sigurður Oddsson segir að heimamenn hafi atvinnu í þjóðgarðinum. Þrír heimamenn eru í fullu starfi og níu til viðbótar, aðallega unglingar, hafa haft þar sumarstörf. Launagreiðslur Þingvallanefndar til heimamanna voru 9,7 milljónir á síðasta ári og að auki sér einn bóndi um slátt og hirðingu á rusli sem verktaki og annar um tæmingu á safnþróm. Fyrir það eru greiddar samtals 2 milljónir á ári til viðbótar.

Þingvellir á heimsminjaskrá?

Árið 1996 var haldin ráðstefna hér á landi í tilefni samnings UNESCO, Menningar- og þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heims, en Íslendingar höfðu þá gerst aðilar að samningnum. Norrænn vinnuhópur hafði mótað tillögur um hvaða staðir á Norðurlöndum kæmu til greina á heimsminjaskrá UNESCO og voru Þingvellir þar á meðal, ásamt Mývatni og Laxársvæðinu, Surtsey, Snorralaug í Reykholti og Víðimýrarkirkju í Skagafirði.

Samkvæmt upplýsingum menntamálaráðuneytisins hefur ekki enn verið sótt formlega um að íslenskir staðir fái inni á heimsminjaskránni. Hins vegar er núna unnið að umsókn til þeirrar skrifstofu UNESCO sem sér um skrána, World Heritage Center í París, og er stefnt að því að tilnefna staði á Íslandi á þessu ári. Umsóknarferillinn er flókinn, t.d. þarf að sýna fram á að lagarammi gildi um staðinn, hann sé undir vernd stjórnvalda o.s.frv. og Parísarskrifstofan þarf að gera úttekt á honum. Endanleg afgreiðsla gæti tekið nokkur ár.

Á heimsminjalista UNESCO er hægt að tilnefna náttúruminjasvæði og menningarminjasvæði, en Þingvellir myndu flokkast undir hvort tveggja. Söguna þarf vart að rifja upp, þarna var alþingi Íslendinga, elsta löggjafarþing á Vesturlöndum, stofnað árið 930. Jarðfræðilega er staðurinn mjög merkilegur. Dr. Pétur M. Jónasson lýsir því svo í fylgiskjali með þjóðgarðsfrumvarpinu: "Af brún Almannagjár má sjá flestar þær gerðir eldstöðva sem finnast hér á landi, einnig jarðhitasvæðið á Nesjavöllum, og sé nánar að gáð ýmsar menjar um áhrif ísaldarjökulsins á mótun landsins. En frægastir eru Þingvellir þó vegna sigdældarinnar og sprungnanna sem eru hluti af alheimssprungukerfinu. Hér koma saman á einum stað þau margvíslegu náttúrufyrirbrigði sem örfáir staðir aðrir á jörðinni geta státað af og bera þögul vitni þeim frumöflum sem skópu Ísland í upphafi, en þau eru sprungukerfið, jarðeldar og jökulrof."Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.