31. mars 1999 | Íþróttir | 605 orð

Stella endurtók leikinn eftir ellefu ár

STELLA Hjaltadóttir frá Ísafirði varð Íslandsmeistari í göngu kvenna fyrir ellefu árum, en mætti nú aftur til leiks og virtist engu hafa gleymt og endurtók leikinn. Hún kom fyrst í mark í 10 km göngu kvenna með hefðbundinni aðferð, var langfyrst, tæpum fimm mínútum á undan Söndru Dís Steinþórsdóttur, sem varð önnur, en báðar eru þær frá Ísafirði. Hanna Dögg Maronsdóttir frá Ólafsfirði varð þriðja.
Stella endurtók leikinn eftir ellefu ár STELLA Hjaltadóttir frá Ísafirði varð Íslandsmeistari í göngu kvenna fyrir ellefu árum, en mætti nú aftur til leiks og virtist engu hafa gleymt og endurtók leikinn. Hún kom fyrst í mark í 10 km göngu kvenna með hefðbundinni aðferð, var langfyrst, tæpum fimm mínútum á undan Söndru Dís Steinþórsdóttur, sem varð önnur, en báðar eru þær frá Ísafirði. Hanna Dögg Maronsdóttir frá Ólafsfirði varð þriðja. Ég get fullyrt að ég er í betri æfingu núna en þegar ég varð Íslandsmeistari á Akureyri 1988. Ég eignaðist barn fyrir níu mánuðum og ákvað að koma mér í góða æfingu með því að ganga. Skíðagangan er besta íþróttin til að koma sér aftur af stað eftir barnsburð," sagði Stella, sem er 31 árs. "Ég er búin að æfa mjög vel í vetur jafnframt því sem ég er að þjálfa hér unga ísfirska göngukrakka. Ég hefði ekki getað æft vel nema með aðstoð systur minnar, Diddu, sem sá um að passa barnið meðan ég æfði. Hún á því sinn þátt í þessum sigri."

Miklir yfirburðir Hauks Akureyringurinn Haukur Eiríksson varð Íslandsmeistari í 30 km göngu karla með nokkrum yfirburðum. Hann var tæpum fjórum mínútum á undan Þóroddi Ingvarssyni sem varð annar og rúmum fimm mínútum á undan Ólafi Björnssyni frá Ólafsfirði sem varð þriðji. Þetta var í þriðja sinn sem Haukur vinnur 30 km gönguna á Skíðamóti Íslands, áður sigraði hann 1989 og 1990. "Þetta var nokkuð erfið ganga vegna þess að það var mikil vinna í brautinni. Það var ekki mikið um rennsli og því ekki hægt að hvíla sig á milli. Það var smá barátta við Ólaf í byrjun en eftir þriðja hring fann ég mig vel á meðan Óli var að gefa eftir. Ég náði mér vel á strik á endasprettinum. Ég hef æft mjög vel í vetur, sérstaklega eftir jólin því ég var að undirbúa mig fyrir Vasa- gönguna," sagði Haukur, sem er 35 ára. Hann sagði ávallt gaman að keppa á Skíðamóti Íslands og það væri nokkuð undarleg tilfinning að vera að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn í 30 km göngu eftir tíu ár. "Árangur minn segir að aldur er afstæður í göngunni. Ég hef haft mjög gaman af þessu í vetur og á meðan ég hef það held ég áfram og hver veit nema ég mæti aftur til leiks næsta vetur til að verja titilinn," sagði Íslandsmeistarinn. Í fótspor bróður síns Baldur Helgi Ingvarsson frá Akureyri fetaði í fótspor bróður síns, Þórodds, er hann varð Íslandsmeistari í 15 km göngu pilta 17­19 ára. Baldur kom í mark 26 sekúndum á undan helsta keppinaut sínum í vetur, Ólafi T. Árnasyni frá Ísafirði. Helgi Heiðar Jóhannesson, Akureyri, varð þriðji. "Ég átti ekkert frekar von á sigri því við Ólafur höfum verið að skiptast á að vinna mótin í vetur með litlum mun. Ég er auðvitað ánægður með að hafa hitt á það á þessu móti," sagði Baldur Helgi. "Það var mjög gott að ganga, enda veður og allar aðstæður eins og best verður á kosið. Ég er búinn að æfa mjög vel í vetur eins og fimm aðrir í þessum flokki og keppni milli okkar hefur verið mjög hörð og spennandi," sagði Baldur Helgi, sem er 18 ára og á því eitt ár eftir í þessum flokki. Þóroddur bróðir hans vann þessa göngu í fyrra en er nú kominn í karlaflokk og varð þar í öðru sæti. Morgunblaðið/Golli HAUKUR Eiríksson fagnar sigri á Ísafirði í gær ­ varð Íslandsmeistari í 30 km göngu karla með nokkrum yfirburðum.

Morgunblaðið/Golli STELLA Hjaltadóttir frá Ísafirði varð Íslandsmeistari segist vera í betri æfingu nú en fyrir ellefu árum, en þá vann hún einnig í 10 km göngu kvenna.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.