ÓLÖF BJARNADÓTTIR Ólöf Bjarnadóttir fæddist í Reykjavík 11. nóvember 1919. Hún lést á Droplaugarstöðum 31. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin séra Bjarni Jónsson dómkirkjuprestur og vígslubiskup, f. í Reykjavík 21. október 1881, d. 19. nóvember 1965, og Áslaug Ágústsdóttir, f. á Ísafirði 1. febrúar 1893, d. 7. febrúar 1982. Ólöf átti tvö systkini, Ágúst, f. 30. apríl 1918, d. 22. júlí 1994, og Önnu, f. 23. júlí 1927. Ólöf giftist 29. janúar 1944 Agnari Klemens Jónssyni, sendiherra og ráðuneytisstjóra, f. í Reykjavík 13. október 1909, d. 14. febrúar 1984. Foreldrar hans voru hjónin Klemens Jónsson landritari, f. 27. ágúst 1862, d. 20. júlí 1930, og Anna María Schiöth, f. 1. júní 1879, d. 8. nóvember 1961. Börn Ólafar og Agnars eru: 1) Bjarni, f. 26. nóvember 1945, d. 24. mars 1946. 2) Anna sagnfræðingur, f. 14. maí 1947. Maki hennar er Ragnar Árnason hagfræðingur. Dætur þeirra eru: Ásgerður og Anna Guðrún. 3) Áslaug bókavörður, f. 9. maí 1949. Fyrri maki hennar var Viktor Maslennikov. Dóttir þeirra er Ólöf. Þau skildu. Maki hennar er Óskar Árni Óskarsson, skáld og bókavörður. Dætur þeirra eru: Álfrún og Nína. 4) Bjarni Agnar læknir, f. 5. ágúst 1952. Maki hans er Sigríður Jónsdóttir meinatæknir. Börn þeirra eru Agnar, Ólöf og Kjartan Jón. Ólöf varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1938. Eftir að hún gifti sig dvaldist hún lengi erlendis vegna starfa eiginmanns síns í utanríkisþjónustunni og var sendiherrafrú í London, París, Ósló og Kaupmannahöfn. Eftir að Ólöf fluttist heim var hún um árabil sjálfboðaliði á bókasafni Rauða kross Íslands á Landspítalanum. Árið 1996 veiktist Ólöf og naut umönnunar á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum síðustu tvö ár ævinnar. Útför Ólafar Bjarnadóttur fer fram frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.