ÍÞRÓTTAFÉLAG stúdenta varð bikarmeistari karla í blaki í sjöunda skipti er liðið lagði KA 3:0 í úrslitaleik í íþróttahúsinu í Austurbergi á laugardag. Stúdentar voru ávallt skrefi framar og unnu fyrstu tvær hrinurnar, 25:20 og 25:20, af öruggi. Í þriðju hrinu bitu KA-menn frá sér og undir lokin var mjótt á mununum. En Stúdentar reyndust sterkari og unnu 25:23 og tryggðu sér bikarmeistaratitilinn.


BLAK / BIKARÚRSLIT KARLA

Stúdentar

meistarar

ÍÞRÓTTAFÉLAG stúdenta varð bikarmeistari karla í blaki í sjöunda skipti er liðið lagði KA 3:0 í úrslitaleik í íþróttahúsinu í Austurbergi á laugardag. Stúdentar voru ávallt skrefi framar og unnu fyrstu tvær hrinurnar, 25:20 og 25:20, af öruggi. Í þriðju hrinu bitu KA-menn frá sér og undir lokin var mjótt á mununum. En Stúdentar reyndust sterkari og unnu 25:23 og tryggðu sér bikarmeistaratitilinn.

Leikið var eftir nýjum stigareglum alþjóða blaksambandsins, veitt voru stig eftir hverja skorpu og leikið upp í 25 stig í hverri hrinu. Nýju reglurnar gerðu það að verkum að leikur liðanna var hraður og skemmtilegri fyrir áhorfendur, sem reyndar voru alltof fáir í íþróttahúsinu í Austurbergi.

Zravko Demirev, þjálfari ÍS, sagði að fátt hefði komið sér á óvart í leiknum og hann hefði reynst léttur fyrir sitt lið. "KA-liðið hafði ekki erindi sem erfiði gegn okkur og við kláruðum leikinn af krafti. Við höfum unnið KA í öllum viðureignum sem liðin hafa leikið í vetur og því vissum fyrir þennan leik að við værum betri. Það kom líka á daginn."

Zravko sagði að liðið hefði leikið mun betur nú heldur en gegn Þrótti í úrslitaleik Íslandsmótsins á dögunum. "Við vorum hreinlega ekki tilbúnir gegn Þrótti, enda tóku þeir titilinn." Zravko hefur þjálfað lið ÍS síðustu sex árin og kvaðst eiga von á að hann yrði áfram með liðið. Hann sagðist ekki eiga von á miklum breytingum á liðinu nú, ólíkt því sem hafði verið undanfarin ár. "Þjálfarastarfið hefur verið erfitt enda hafa orðið verulegar breytingar á mannskapnum ár frá ári. Sem dæmi má taka að frá 1994 eru aðeins þrír enn að leika með liðinu." Zravko sagði jafnframt að grípa yrði til einhverra ráða til þess að fjölga áhorfendum á leikjum í blaki. "Það eru alltaf sömu andlitin í stúkunni og í dag voru áhorfendur fáir. Ég tel að þessu verði ekki breytt nema með aukinni umfjöllun um íþróttina og tíðari sjónvarpsútsendingum."

Pétur Ólafsson, fyrirliði KA, sagði að alla leikgleði hefði skort í sína menn og þeir hefðu verið óþarflega spenntir í leiknum. "Við gerðum okkur alveg grein fyrir því að leikurinn gegn ÍS yrði erfiður, en ætluðum okkur sigur. ÍS-liðið er hins vegar með sterka útlendinga sem erfitt er að eiga við í leiknum."

Pétur sagði að KA-liðið hefði staðið sig vel fram eftir vetri, en hefði gefið eftir undir lok Íslandsmótsins og tapað fyrir Þrótti í undanúrslitum. "Við vorum á góðri siglingu fram í febrúar, eða um það leyti sem úrslitaleikurinn í bikarnum átti upphaflega að fara fram, en síðan hefur leiðin legið niður á við og leikmenn ekki náð sér almennilega á strik."

Pétur sagði að breytingar yrðu á KA-liðinu fyrir næsta leiktímabil, nokkrir leikmenn væru að fara utan í nám og einhverjir sem hygðust leggja skóna á hilluna. "Við ætlum hins vegar að byggja liðið á þeim leikmönnum sem eru fyrir hendi, enda hefur KA byggt upp ágætt yngri flokka starf," sagði Pétur Ólafsson, fyrirliði KA.

Morgunblaðið/Kristinn GUÐMUNDUR Helgi Þorsteinsson, fyrirliði ÍS, fagnaði ógurlega er hann tók við bikarnum Morgunblaðið/Sverrir Vilhelmsson ZRAVKO Demirev, þjálfari ÍS, fékk ókeypis flugfar frá lærisveinum sínum. Gísli Þorsteinsson skrifar