ÞINGROFIÐ 14. APRÍL 1931 EFTIR HARALD MATTHÍASSON Fáir atburðir í stjórnmálasögu landsins á þessari öld hafa vakið meira umrót en þingrofið 14. apríl 1931.

ÞINGROFIÐ 14. APRÍL 1931

EFTIR HARALD MATTHÍASSON

Fáir atburðir í stjórnmálasögu landsins á þessari öld hafa vakið meira umrót en þingrofið 14. apríl 1931. Þá hætti Alþýðuflokkur að veita ríkisstjórn Framsóknarflokks hlutleysi og náði samkomulagi við Sjálfstæðisflokk um breytingu á kjördæmaskipan, sem Framsóknarflokkur vildi ekki fallast á. Sjálfstæðisflokkur bar fram vantraust á stjórnina og Alþýðuflokkur lýsti stuðningi við það. Með samþykkt vantrauststillögunnar yrði stjórnin á fara frá. Þá gerðist það óvænt að Tryggvi Þórhallsson kvaddi sér hljóðs utan dagskrár í upphafi þingfundar og las upp konungsbréf um þingrof. Mikil háreysti varð í salnum, þingmenn spruttu úr sætum, stór orð féllu og stjórnarandstæðingar töldu þingrofið stjórnarskrárbrot. FUNDUR í sameinuðu Alþingi skyldi hefjast kl. 1. Ég kom inn nokkrum mínútum fyrr og settist í skrifarasætið. Sérstakur svipur hvíldi yfir þingsalnum. Hvert sæti var skipað. Þingmenn voru þarna allir, áheyrendapallar voru troðfullir, hliðarherbergi þéttskipuð, ráðherraherbergi, efrideildarsalur, lestrarsalur, einnig blaðamannaherbergi en þar voru útvarpsmenn með tæki sín en þetta var í fyrsta skipti sem útvarpa skyldi umræðum frá Alþingi.

Hér skal vitnað til frásagnar Morgunblaðsins á fremstu síðu daginn eftir, 15. apríl:

"Dagurinn í gær, 14. apríl, verður lengi í minnum hafður í sögu Reykjavíkur ­ og þingræðissögu lands vors.

Menn bjuggust við ýmsu merkilegu. Vantrauststillaga sjálfstæðismanna átti að koma til umræðu í þinginu. Tilkynnt var að útvarpa ætti umræðunum. Tilkynnt hafði verið eftir hvaða reglum útvarpa skyldi. Fregnir höfðu borist um það vítt og breitt út um sveitir landsins. Fjölmargir höfðu mælt sér mót þar sem viðtæki voru, til þess að fylgjast með umræðunum orði til orðs. ­ Umræðurnar um vantraustið áttu að standa yfir frá kl. 1­4 og frá kl. 9­12. En þingdeildarfundi átti að halda eftir kl. 5.

Enda þótt útvarpstæki séu nú allvíða í bænum og viðtæki hefðu jafnvel verið sett upp í samkomuhúsum, svo sem í Varðarhúsinu, til þess að sem flestir gætu fylgst með í umræðunum um vantraustið, var talsverð aðsókn að þinghúsinu. "Sjón er sögu ríkari", segir máltækið og var auðsætt að margir litu svo á að skemmtilegra væri að sjá hvernig allt færi fram á þingi þennan dag.

Þeir sem þangað komu urðu ekki fyrir vonbrigðum.

Því þótt fundurinn í sameinuðu þingi í gær yrði stuttur þá varð hann sögulegur og það að marki.

Í blaðamannaherberginu höfðu útvarpsmenn tæki sín. Er forseti sameinaðs þings, Ásgeir Ásgeirsson, hringdi bjöllu sinni og segir fund settan, tilkynna þeir útvarpsmenn að nú skuli útsending byrja.

Forseti tilkynnir þá þingheimi að forsætisráðherra óski þess að mæla nokkur orð utan dagskrár. Með öllu var varast að láta nokkuð á því bera frá hendi stjórnar og forseta að nokkuð óvenjulegt ætti fram að fara.

Forsætisráðherra rís nú úr sæti sínu. Tekur hann vélritað blað úr vasa sínum og les upp. Útvarpsmenn sem þarna voru vissu ekki betur en að útvarpað væri.

En svo var ekki.

Þetta "utandagskrár-atriði" sem forseti sameinaðs þings talaði um að forsætisráðherrann vildi koma fram með var sem sé hvorki meira né minna en það að landsstjórnin hefði gert tillögu um það til hans hátignar konungsins að hann þegar á þessu augnabliki ryfi þingið svo umboð kjördæmakosinna þingmanna væri burtu fallið, þeir væru ekki lengur þingmenn samkvæmt konungs boði, ekkert þing lengur á Íslandi."

Þessi frásögn er að sjálfsögðu samin þingrofsdaginn sjálfan því að hún kom út næsta morgun. En af því að menn lýsa einatt sama atburði hver frá sínum sjónarhóli set ég hér líka mína lýsingu, er samin var þennan dag, sennilega um svipað leyti dagsins og Morgunblaðsgreinin var samin:

Jón Þorláksson kom inn í salinn og settist í sæti sitt. Jón var fyrsti flutningsmaður vantrauststillögunnar. Hann tók upp blaðasyrpu. Hefur þar vafalaust verið ræðan sem hann ætlaði að flytja á hendur stjórninni.

Þegar klukkan var rétt um eitt kom inn forseti sameinaðs Alþingis, Ásgeir Ásgeirsson. Hann gekk til forsetastóls og setti fundinn. Mér virtist loftið þrungið af spenningi og allir biðu þess með eftirvæntingu að forseti gæfi Jóni Þorlákssyni orðið og hann hæfi vantraustsræðu sína, fyrstu ræðu sem útvarpað væri frá Alþingi.

Þá tilkynnir forseti að forsætisráðherra tali utan dagskrár. Ég leit upp og vissi ekki hvað í vændum var. Ég renndi augum yfir til ráðherranna. Þeir sátu allir í sætum sínum og virtust svo rólegir sem framast gat verið. Ráðherraborðið var þá og löngum áður og síðan til hægri við borð forseta. Sat forsætisráðherra í miðið en til hægri handar honum sat fjármálaráðherra, Einar Árnason, en til vinstri sat dómsmálaráðherra, Jónas Jónsson.

Til vinstri við forseta var þriggja manna borð. Þar sátu þingmenn en inn af því var annað borð sem sneri eins. Það var þingskrifaraborðið. Þar sat ég í þetta sinn.

Þá er forsætisráðherra hafði verið gefið orðið reis hann á fætur og flutti eftirfarandi ræðu:

"Þar eð borin hefir verið fram í sameinuðu Alþingi vantraustsyfirlýsing til núverandi stjórnar, flutt af hálfu Sjálfstæðisflokksins og vafalaust við fylgi alls þess flokks og hins vegar er fullvíst og yfirlýst, að Jafnaðarmannaflokkurinn á Alþingi, sem veitt hefir ríkisstj. hlutleysi til þessa þings, hefir nú tekið ákvörðun um að greiða vantrauststillögu atkv., þá er það fyrirfram vitað, að vantraustsyfirlýsingin nær samþykki meiri hluta sameinaðs Alþingis.

­ Þar eð samvinna á víðtækara sviði milli Jafnaðarmannaflokksins og Sjálfstæðisflokksins verður að teljast í fullu ósamræmi við alþingiskosningarnar er fram fóru 9. júlí 1927 og ákváðu í aðalatriðum skipun núverandi þings.

­ Þar eð það er þó fram komið, að slík samvinna milli Jafnaðarmannaflokksins og Sjálfstæðisflokksins er þegar hafin, m.a. um það að leiða í lög víðtækar breytingar á kjördæmaskipun landsins.

­ Þar eð því annars vegar er yfir lýst í aðalmálgagni Jafnaðarmannaflokksins, að sá flokkur muni hvorki styðja Sjálfstæðisflokkinn til stjórnarmyndunar né veita honum hlutleysi til þess, og af því er ljóst, að þessir tveir flokkar geta nú ekki myndað pólitíska stjórn, og hins vegar er því yfir lýst af þingmanni úr miðstjórn Sjálfstæðisflokksins á fundi í neðri deild Alþingis í gær, að það væri með öllu óráðið hvað við tæki eftir samþykkt vantraustsyfirlýsingarinnar.

­ Þar eð telja má fullvíst, að mesta truflun yrði á störfum þingsins vegna samþykktrar vantraustsyfirlýsingar, þannig að málum þingsins yrði aðeins fáum lokið en þingtíminn eigi að síður mundi dragast mjög úr hófi fram, en hins vegar mætti hafa full not af störfum þessa þings á mörgum sviðum á nýju þingi síðar á árinu.

­ Þar eð kjörtímabil er nálega liðið og senn liðin fjögur ár síðan þjóðin hefir haft tækifæri til að láta vilja sinn koma fram við almennar kosningar

­ þá þykir að öllu þessu athuguðu stjórnskipulega rétt og í fyllstu samræmi við reglur í öðrum þingræðislöndum að leita dómsúrskurðar þjóðarinnar með því að áfrýja nú þegar þeim málum, sem milli bera hinna pólitísku flokka, til dómstóls kjósendanna í landinu og efna til nýrra kosninga.

Skal það tekið fram, að frá þessum degi og til kosninganna lítur stjórnin á aðstöðu sína sem stjórnar, er starfar til bráðabirgða. Og undireins og kunnugt er orðið um úrslit hinna nýju kosninga mun Alþingi stefnt til nýs fundar í samráði við formenn andstöðuflokkanna.

Í samræmi við allt það, sem nú hefir verið tekið fram, hefi ég af ráðuneytisins hálfu borið fram tillögu um þetta efni við H. H. konunginn.

Í gærkvöldi veitti ég viðtöku símskeyti frá konungsritara um að konungur samdægurs hefði undirritað bréf, er svo hljóða:

"Vér Christian hinn Tíundi, af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Slésvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þéttmerski, Láenborg og Aldinborg,

Gjörum kunnugt: Með því að forsætisráðherra af hálfu ráðuneytis Vors þegnlega hefir borið upp fyrir Oss tillögu um að rjúfa Alþingi það, sem nú er, og þar sem Vér höfum í dag allramildilegast fallist á tillögu þessa, þá bjóðum Vér og skipum fyrir á þessa leið:

Alþingi það, sem nú er, er rofið.

Eftir þessu eiga allir hlutaðeigendur sér þegnlega að hegða.

Gjört á Christiansborg 13. apríl 1931.

Undir Vor konunglega hönd og innsigli.

Christian R.

Tryggvi Þórhallsson. Opið bréf um að Alþingi, sem nú er, sé rofið.""Vér Christian hinn Tíundi, af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Slésvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þéttmerski, Láenborg og Aldinborg,

Gjörum kunnugt: Með því að Vér höfum með opnu bréfi, dagsettu í dag, rofið Alþingi, sem nú er, þá er það allramildilegastur vilji Vor að nýjar almennar óhlutbundnar kosningar skuli fara fram 12. júní næstkomandi.

Fyrir því bjóðum Vér og skipum svo fyrir, að almennar óhlutbundnar kosningar til Alþingis skuli fara fram nefndan dag.

Eftir þessu eiga allir hlutaðeigendur sér þegnlega að hegða.

Gjört á Christiansborg 13. apríl 1931.

Undir Vor konunglega hönd og innsigli.

Christian R.

Tryggvi Þórhallsson Opið bréf um nýjar óhlutbundnar kosningar til Alþingis."Samkvæmt þessu lýsi ég því yfir að þetta Alþingi Íslendinga, sem háð er eitt þúsund og einu ári eftir að hið fyrsta Alþingi var háð að Þingvöllum, er rofið."

Þannig hljóðaði þingrofsboðskapurinn. Bernharð Stefánsson segir í endurminningum sínum (I. 152) að enginn flokksfundur hafi verið haldinn um málið en þingmenn verið látnir vita af því fyrir fram. Ingólfur Bjarnarson sagði Bernharði frá þessu er þeir mættust á götu. Einhverjir nánir flokksmenn utan þingflokksins hafa fengið að vita um þessa ákvörðun. Þannig segir Eysteinn Jónsson (I. 70).

"Yfir þingrofinu hvíldi mikil leynd og þingmönnum Framsóknarflokksins var sagt í trúnaði hvað til stæði, einum og einum utan fundar. Þessi leynd kom í veg fyrir að fréttir af því hvað til stæði bærust út til andstæðinganna. Mun það hafa verið gert til þess að fyrirbyggja hugsanlegan mótleik af þeirra hálfu sem ég sé þó raunar ekki hver hefði átt að vera. Mér var trúað fyrir hvað til stæði, e.t.v. til þess að ég yrði vitni að sögulegum atburði. En ég hafði þá um skeið unnið margvísleg trúnaðarstörf fyrir ráðherrana."

Fullvíst er að þessi leynd tókst algerlega og enginn af stjórnarandstæðingum hafði minnstu hugmynd um hvað fram undan var enda segir í Morgunblaðinu 15. apríl í frásögn um þingrofið: "Líklegt hefði verið að boðskapur þessi hefði komið þingheimi á óvart svo um munaði." Þetta sést líka á öðru. Jón Þorláksson bíður með blöð í höndum eftir að fá orðið og hefja mál sitt. Bernharð Stefánsson segir svo um Ólaf Thors: "Ólafur Thors kom ekki inn á fundinn fyrr en nokkuð var liðið á ræðu Tryggva. Held ég, að hann hafi orðið einna fyrstur til að skilja, hvað Tryggvi var að fara. Leit hann í fyrstu allt í kringum sig mjög undrandi á svip, svo fór andlit hans að roðna, en að lokum sló á það fölva miklum. Magnús Jónsson prófessor sat við hlið mér. Sá ég að hann gaf mönnum nánar gætur, ekki síst Ólafi Thors, og var nokkuð kíminn á svip."

Vafalaust hafa stjórnarandstæðingar ekki séð upphaflega að hverju stefndi. Bernharð Stefánsson segir svo: "En auðsætt var að andstæðingarnir skildu ekki fyrst lengi vel hvert hann stefndi en héldu að hann ætlaði að segja af sér án vantrausts. Heyrðist t.d. Sigurður Eggerz tauta: "Þetta er alveg rétt af honum, að segja bara af sér.""

Þannig segir Bernharð frá. Þetta er auðskilið, ef litið er á ræðu forsætisráðherra. Fyrri hluti hennar er sex langar greinar og hefst hver þeirra á "þar eð", orsakarsetningar, óvíst lengi hver afleiðingin yrði, mátti halda að þar væri afsögn, og svo hefur Sigurði Eggerz virst og áreiðanlega fleirum. Er komið fram í miðja ræðu þegar aðalatriðið loksins birtist: þingrof.

Alger þögn og kyrrð var í salnum meðan forsætisráðherra flutti ræðu sína, einnig eftir að ljóst var orðið að þing var rofið og þingmenn á svipstundu sviptir umboði. En að ræðu lokinni var kyrrðin skyndilega rofin. Menn spruttu úr sætum, æddu um, og hver talaði upp í annan. Var því líkast sem ógurleg skriða félli með gný og hávaða. Hef ég aldrei séð slíka ólgu brjótast svo skyndilega fram upp úr slíkri þögn. Héðinn Valdimarsson varð fyrstur til máls. Sæti hans var fram af dyrum ráðherraherbergisins, rétt hjá borðum ráðherra. Héðinn reis upp og hrópaði: "Niður með konunginn og íslensku stjórnina. Stjórnin þorir ekki að láta samþykkja stjórnarskrána." Magnús Guðmundsson hrópaði: "Niður með íslensku stjórnina." Margir flokksmenn þeirra hrópuðu: "Heyr, heyr."

Nú ruddust þingmenn upp úr sætum sínum og allt varð í uppnámi. Mest bar á Ólafi Thors. Sæti Ólafs var við borðsendann hægra megin við aðaldyrnar inn í þingsalinn. Ólafur æddi inn á gólfið allt upp að borði ráðherranna. Þeir voru nú staðnir upp og stóðu við vegginn bak við stólana og var þá borðið og stólarnir á milli. Ólafur hrópaði: "Þetta er sú svívirðilegasta misbeiting valds sem nokkurn tíma hefur þekkst." Tryggvi svaraði fáu.

Ringulreiðin fór sívaxandi, hver talaði upp í annan og margir voru æstir. Ólafur sneri sér að Tryggva og mælti: "Þessu hefði ég aldrei trúað á þig, Tryggvi. Maður hefði að vísu trúað því á Jónas því hann er vitlaus." Hann kallaði margsinnis stjórnina þjófa og sagði: "Það er algengt að þjófar séu dæmdir til dauða en að þeir hafi gert það sjálfir hef ég ekki vitað fyrr." Þá svaraði Tryggvi: "Við sjáum til um kosningarnar í sumar."

Þá sneri Ólafur sér að Jónasi Jónssyni og skammaði hann stórkostlega. Hann sagði m.a.: "Þú hefur reynt að troða þér í vinfengi við mig." Jónas svaraði: "Ég hef alltaf fyrirlitið þig og fyrirlít þig enn." Héðinn Valdimarsson var einnig mjög æstur og köstuðust þeir Jónas á nokkrum óþvegnum orðum.

Stundu síðar sá ég að komin var einhver harka fram undir dyrum þingsalarins. Ég fór þangað, eins nálægt og mér þótti hæfilegt og sá að þeir Hákon Kristófersson og Ólafur Thors stóðu þar gagnvart Jóni Jónssyni í Stóradal. Hafði Hákon í frammi stóryrði gagnvart Jóni, sagði m.a.: "Mér yrði ekki mikið fyrir að kasta svona hundum og skítseiðum út." Virtist mér þeir Ólafur báðir líklegir til að láta athafnir fylgja orðum.

Ég spurði Jón í Stóradal nokkru síðar hvert hefði verið tilefni reiði þeirra Hákonar og Ólafs. Hann sagðist hafa mætt þeim þar í þrönginni og hefðu báðir sýnilega verið reiðir mjög, og hefði hann þá sagt: "Það liggur eitthvað illa á ykkur núna, aumingjarnir." Þá hefðu þeir snúist gegn sér með hótunum að kasta sér út, en Pétur Ottesen hefði gengið á milli og sagt að best væri að láta ekki verða af því, enda naumast líklegt að til slíks hefði komið.

Ég man vel eftir Pétri Ottesen þarna inni, hann var alveg rólegur. Pétur vakti alltaf athygli mína hvar sem hann var. Þurfti ekki annað en sjá hann til að sannfærast um að þar fór maður sem bar mikið með sér.

Þess má geta að þeir Hákon og Ólafur sátu við borðsendana við innganginn í þingsalinn, hvor sínum megin en Pétur næstur Ólafi til hægri. Þeir þrír voru því sessunautar.

Bernharð Stefánsson hefur í endurminningum sínum lýst atburðum þingrofsins allrækilega og skemmtilega og ber honum að mestu saman við mína frásögn. Aðeins um eitt ber okkur ekki saman. Hann segir að það hafi verið Magnús Guðmundsson sem gekk á milli er Hákon hafði við orð að henda mönnum út en ég man ekki eftir honum í þessu sambandi.

Auk orðaskipta í þingsalnum heyrðust ýmis hróp frá áheyrendapöllum: Niður með stjórnina, niður með konunginn, niður með Jónas og fleira af því tagi. Eitt hróp var mjög úr annarri átt: Burt með Kveldúlf.

Einn var sá maður sem mjög skar sig úr í öllu uppnáminu. Það var foringi sjálfstæðismanna, Jón Þorláksson. Bernharð Stefánsson segir svo frá: "Ekki datt né draup af Jóni Þorlákssyni. Sat hann kyrr í sæti sínu og sagði ekkert. Ég býst við, þó ég viti það ekki, að hann hafi orðið alveg lamaður af reiði því hann var víst þá farinn að kenna hjartabilunar."

Það er vissulega rétt, að Jón sat kyrr meðan á öllum ósköpunum gekk og lét sem ekkert væri en ég efast um skýringu Bernharðs. Mér er að vísu ókunnugt um heilsufar Jóns en ég hygg að ástæðan hafi verið hin einstaka stilling sem ætíð einkenndi manninn. Ég tel mig hafa þekkt Jón Þorláksson allvel sem ræðumann. Hann var fyrsti þingmaðurinn sem ég skrifaði eftir, er ég hóf þingskrifarastarf á Alþingi. Var það í Íslandsbankamálinu 1930. Ég skrifaði síðan oft eftir Jóni þau fjögur ár sem hann var þar eftir að ég hóf þar starf, árin 1930­1933, og þekkti því vel ræðusnið hans. Við fyrstu athugun virtist hann tala fremur seint en svo reyndist þó ekki við nánari kynni því að hann gerði aldrei hlé og setningar voru svo fastar að gerð að ekkert orð þurfti að lagfæra né setningu. Málrómur var mjög skýr og festulegur, framsetning afar glögg og því gott fyrir skrifara að fylgjast með honum. En þurfti þó að gæta sín því að ekkert orð mátti missast og flutningur var hraðari en virtist í fljótu bragði. [...]

Þegar Tryggvi Þórhallsson hafði staðið við stól sinn um stund, hugsi að því er virtist, leit hann allt í einu upp og mælti til flokksmanna sinna: "Við förum heim til mín." Þeir tóku vel undir það og síðan fóru þeir út, suður Tjarnargötu til forsætisráðherrabústaðarins þar sem Tryggvi bjó.

Tíðindin höfðu borist út í bæ og var fjöldi manna kominn að alþingishúsinu. Þessi mannfjöldi elti framsóknarmennina suður Tjarnargötu og gerði að þeim hróp. Höfðu einhverjir við orð að maklegt væri að þeim væri kastað í Tjörnina. Var því ekki síst beint að Jónasi Jónssyni en enginn sýndi sig í að gera neitt slíkt.

Jarðarför fór fram í Dómkirkjunni meðan þingrofið stóð og hefðu menn naumast komist þar út fyrir mannfjölda sem var þar fyrir utan í uppnámi, en líkfylgdin komst út meðan mannþyrpingin fór suður að bústað forsætisráðherra.

Brátt kom fólkið aftur. Menn söfnuðust að nýju fyrir framan þinghúsið og voru nú fleiri en fyrr. Þá komu sjálfstæðismenn og alþýðuflokksmenn enn inn í þingsalinn, en þeir höfðu verið á fundum í efrideildarsalnum og herberginu þar inn af (suðurstofu). Mannfjöldinn beið og vænti tíðinda af því sem gerst hafði. Þeir gengu síðan út á svalir og ávörpuðu fólkið hver af öðrum. Þar töluðu Magnús Jónsson, Sigurður Eggerz, Ólafur Thors, Jón Baldvinsson og Héðinn Valdimarsson. Aðalinntak í ræðum þeirra var að lýsa gerræði ríkisstjórnarinnar og ofbeldi með þingrofinu. Tók mannfjöldinn undir ræður þeirra með miklum fögnuði. Haraldur Guðmundsson var einn þeirra sem voru inni í þingsalnum. Þeir báðu hann að fara líka út á svalir, en hann var tregur til og sagði: "Mig klígjar við svona löguðu." Hann lét þó til leiðast, gekk út á svalir og sagði nokkur orð. Voru það einkum andmæli gegn orðum sem Sigurður Eggerz hafði mælt rétt áður að nú væri engin flokkaskipting til og höfðu menn tekið þeim orðum með miklum fagnaðarópum. Þessu sagðist Haraldur andmæla, flokkar væru eftir sem áður, og var þeim orðum einnig tekið með fögnuði. Þegar Ólafur Thors var úti á svölum ásamt Héðni Valdimarssyni og fleirum mælti Ólafur m.a.: "Nú tökum við Héðinn höndum saman."

Þessir menn sem þarna töluðu lýstu yfir að þeir myndu þá um kveldið boða til funda alls staðar þar sem við yrði komið og þeir gætu fengið fundarhús. Þeir gengu síðan burt og mannfjöldinn dreifðist. [...]

Æsingur var mikill í sumum mönnum innan veggja þinghússins öðrum en þingmönnum. Hitnaði einnig í sumum starfsmönnum. Jafnvel sumir þingsveinar voru uppveðraðir og vildu fara að tala við mig um málið en ég bað þá láta mig vera. Sumum þingskrifurum var einnig mikið í hug og tvo þeirra sá ég hnippast á enda voru þeir mjög á öndverðum meiði í stjórnmálum. Er það þá eina dæmið sem ég veit til í sambandi við þingrofið að orðið hafi hnippingar milli manna.

Nú er lokið að minnast á það helsta sem gerðist innan veggja þinghússins þingrofsdaginn sjálfan. En eins og vænta mátti drógu þessir stóratburðir allmikinn dilk á eftir sér. Stjórnarandstæðingar héldu sig mjög í Alþingishúsinu og réðu þar ráðum sínum en fjöldi manns kom einatt að þinghúsinu að heyra nýjustu fréttir sem stjórnmálaforingjar sögðu þá af svölum þinghússins.

Fundarhöld voru mikil bæði í Reykjavík og víða úti um land og margar ályktanir gerðar gegn þingrofinu. En einnig voru það blaðaskrif sem einkenndu þessa daga. Þessar blaðagreinar voru mjög fjörugar og lýsa vel hug manna og gerðum.

Bók um þingrofið 14. apríl 1931 kemur út um þessar mundir á vegum Sögufélagsins og skrifstofu Alþingis. Höfundurinn, dr. Haraldur Matthíasson, er landskunnur fræðimaður, sagnaþulur og ferðagarpur. Hann starfaði í áratugi á skrifstofu þingsins sem þingskrifari (hraðritari) og er eftir því sem best er vitað eini núlifandi Íslendingur sem viðstaddur var þennan sögulega stjórnmálaatburð í þingsalnum. Að ofan er birtur hluti úr 3. kafla.

Ljósmynd/Ólafur Magnússon snemma árs 1930. Þjóðminjasafn, Ljósmyndadeild ALÞINGISMENN ásamt skrifstofustjóra Alþingis og þingskrifurum í sal sameinaðs Alþingis og neðri deildar. Brugðið er frá sætaskipun í salnum vegna myndatökunnar. Ásgeir Ásgeirsson fræðslumálastjóri, Reykjavík, er í forsetastól (1), við hlið hans stendur Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi, skrifstofustjóri Alþingis (2). Skrifarar sameinaðs þings: Ingólfur Bjarnarson bóndi, Fjósatungu (3), (fyrir framan skrifstofustjóra) og Jón Auðunn Jónsson forstjóri, Ísafirði (4). Standandi aftast frá vinstri: Benedikt Sveinsson bókavörður, Reykjavík (5), forseti neðri deildar, Sveinn Ólafsson umboðsmaður, Firði í Mjóafirði (6), Lárus Helgason bóndi, Kirkjubæjarklaustri (7), Sigurjón Á. Ólafsson afgreiðslumaður, Reykjavík (8), Héðinn Valdimarsson forstjóri, Reykjavík (9), Jón Baldvinsson forstjóri, Reykjavík (10), Haraldur Guðmundsson ritstjóri, Reykjavík (11), Erlingur Friðjónsson kaupfélagsstjóri, Akureyri (12), Hannes Jónsson kaupfélagsstjóri, Hvammstanga (13). Sitjandi í aftari röð frá vinstri: Hákon Kristófersson bóndi, Haga á Barðaströnd (14), Einar Jónsson bóndi, Geldingalæk (15), Jóhann Þ. Jósefsson kaupmaður, Vestmannaeyjum (16), Ingibjörg H. Bjarnason forstöðukona Kvennaskólans, Reykjavík (17), Pétur Ottesen bóndi, Ytrahólmi (18), Halldór Steinsson héraðslæknir, Ólafsvík (19), Jón Sigurðsson bóndi, Reynistað (20), Bjarni Ásgeirsson bóndi, Reykjum í Mosfellssveit (21), Jörundur Brynjólfsson bóndi, Skálholti (22), Halldór Stefánsson forstjóri, Reykjavík (23), Magnús Jónsson prófessor, Reykjavík (24), Bernharð Stefánsson bóndi, Þverá í Öxnadal (25), Jón Ólafsson framkvæmdastjóri, Reykjavík (26), Gunnar Sigurðsson lögfræðingur, Reykjavík (27), Magnús Torfason sýslumaður, Eyrarbakka (28), Tryggvi Þórhallsson forsætis- og atvinnumálaráðherra, Reykjavík (29), Einar Árnason fjármálaráðherra, Reykjavík (bóndi, Litla-Eyrarlandi) (30), Jónas Jónsson dómsmálaráðherra, Reykjavík (31). Sitjandi í fremri röð frá vinstri: Jónas Kristjánsson héraðslæknir, Sauðárkróki (32), Ingvar Pálmason útgerðarmaður, Nesi í Norðfirði (33), Páll Hermannsson bústjóri, Eiðum (að mestu í hvarfi) (34), Jón Jónsson bóndi, Stóradal (35), Björn Kristjánsson fyrrv. bankastjóri, Reykjavík (36), Jóhannes Jóhannesson fyrrv. bæjarfógeti, Reykjavík (37), Magnús Guðmundsson hæstaréttarmálaflutningsmaður, Reykjavík (38), Ólafur Thors forstjóri, Reykjavík (39). Fjórir þingmenn voru fjarstaddir: Guðmundur Ólafsson bóndi, Ási í Vatnsdal, forseti efri deildar, Jón Þorláksson kaupmaður, Reykjavík, Sigurður Eggerz bankastjóri, Reykjavík, Þorleifur Jónsson bóndi, Hólum í Hornafirði. Þingskrifarar sitja gegnt forsetastól, talið frá vinstri: Helgi Tryggvason kennari, Reykjavík (40), Andrés Eyjólfsson bóndi, Síðumúla (síðar alþingismaður) (41), Svanhildur Ólafsdóttir síðar stjórnarráðsfulltrúi, Reykjavík (42). Ljósmynd/Magnús Ólafsson, Ljósmyndasafn Reykjavíkur MANNSÖFNUÐUR hlýðir á ræðumenn af svölum Alþingishússins, líklega sumarið 1930.

Ljósmynd/Magnús Ólafsson, Ljósmyndasafn Reykjavíkur GÓÐTEMPLARAHÚSIÐ þar sem Alþýðuflokkurinn hélt mótmælafund að kvöldi þingrofsdagsins. Ljósmynd/Magnús Ólafsson, Ljósmyndasafn Reykjavíkur VARÐARHÚSIÐ við Kalkofnsveg þar sem sjálfstæðismenn héldu almennan borgarafund kl. fimm þingrofsdaginn.