Fræðastarfsemi Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups var mikil og áhrifarík eins og fram kemur í nýlegu ritverki eftir greinarhöfundinn: Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða. Ritin samdi Jón lærði að beiðni Brynjólfs biskups Sveinssonar til skýringar á Eddunum. Hér er gerð stutt grein fyrir ævi biskupsins og fræðastarfsemi hans.

BRYNJÓLFUR BISKUP

OG FRÆÐA STARFSEMI Á 17. ÖLD

EFTIR EINAR G. PÉTURSSON

Fræðastarfsemi Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups var mikil og áhrifarík eins og fram kemur í nýlegu ritverki eftir greinarhöfundinn: Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða. Ritin samdi Jón lærði að beiðni Brynjólfs biskups Sveinssonar til skýringar á Eddunum. Hér er gerð stutt grein fyrir ævi biskupsins og fræðastarfsemi hans.

FÁIR Íslendingar á 17. öld hafa orðið mönnum jafnhugstæðir og Brynjólfur biskup Sveinsson, sem sat á Skálholtsstóli frá 1639- 1674. Hann hefur einkum orðið minnisstæður sem strangur heimilisfaðir og hefur sú saga oft orðið efni í skáldverk. Fyrst reið þar á vaðið Torfhildur Hólm, sem skrifaði skáldsögu um Brynjólf biskup Sveinsson árið 1882 og hefur hún verið tvívegis endurprentuð. Guðmundur Kamban skrifaði mikið rit í fjórum bindum um Brynjólf biskup og var einnig gert úr því leikrit, sem sýnt hefur verið á sviði. Guðmundur byggði skáldverk sitt á mikilli heimildarvinnu og birti grein um Daða og Ragnheiði í Skírni 1929 og var hún endurprentuð í sérstöku kveri árið 1969. Árið 1941 var gefin út skáldsagan Dóttir Brynjólfs biskups eftir Jóhönnu S. Sigurðsson. Síðasta verkið af þessu tæi er Ragnheiður Brynjólfsdóttir frá miðilssambandi Guðrúnar Sigurðardóttur, sem kom út í tveimur bindum á árunum 1973-74.

Hver var Brynjólfur biskup Sveinsson? Nákvæma ævisögu hans er mikil þörf á að skrifa. Sjálfur skrifaði hann ekki ævisögu sína, en hana skrifaði fyrstur Torfi Jónsson, bróðursonur hans. Þegar Björn Jónsson á Skarðsá hafði lokið við annál sinn 1640 var ritið sent í Skálholt, þar sem það var skrifað upp veturinn 1641-42. Uppskriftin er enn varðveitt, Lbs. 40, fol., og á auðar síður þar skrifaði Brynjólfur sjálfur viðauka um eigið lífshlaup til 1640, sem eru prentaðir neðanmáls í útgáfu Skarðsárannáls í I. bindi af Annálaútgáfu Bókmenntafélagsins. Við árið 1605 er með hans hendi svohljóðandi viðaukagrein:

Fæddur Brynjólfur Sveinsson vestur í Holti í Önundarfirði, yngstur sona og barna séra Sveins Símonarsonar prests í Kálfholti og Hruna, Jónssonar, og Ragnheiðar Pálsdóttur Jónssonar Svalberðings Magnússonar Þorkelssonar prests frá Laufási, Guðbjartssonar Magnússonar [leiðr. með annarri hendi ... Ásgrímssonar] Vermundarsonar kögurs Færeyings, og reikna þeir ætt sína til Þrándar í Götu og Götuskeggja. Móðir séra Sveins, Halla Bjarnadóttir Þorleifssonar. En móðir Ragnheiðar var Helga Aradóttir lögmanns Jónssonar biskups Arasonar. Brynjólfur fæddist þann 14 Septembris, sem er krossmessa í sæluviku. Bar þann dag þá á föstudag um miðaptansbil að kveldi. Og var á fóstri á Hóli í Önundarfirði hjá Bjarna Ólafssyni og Margrétu Guðmundardóttur, góðra manna. Þar var hann þrjú fyrstu aldursár, og kom síðan heim aptur, og ólst þar upp síðan til 13. árs. Séra Sveinn hans faðir hafði lengi þá haldið Holtsstað og haft prófastsdæmi í Ísafjarðarsýslu. En þau bæði Brynjólfs foreldrar voru áður öðrum eigingipt. [Sleppt er upptalningu á börnum Sveins.] Ragnheiður hafði áður átt Gissur Þorláksson Einarssonar Sigvaldasonar langalífs, og bjó að Gnúpi í Dýrafirði. Þeirra börn voru: Jón, er í Danmörk lærði silfursmíði, og bjó síðan að Núpi, og Magnús, er einninn lærði útlands bartskera handverk, og bjó að Laugabóli í Ísafirði, og síðar að Lokinhömrum í Arnarfirði. En þau bæði, séra Sveinn og Ragnheiður, áttu sín í millum séra Gissur, er hélt Álptamýri í Arnarfirði, og Brynjólf.

Samkvæmt þessu hefur Brynjólfur talið sig geta rakið föðurætt sína til landnámsmanna í Færeyjum. Aftur á móti átti hann í móðurætt kyn sitt að rekja til þjóðkunnra manna: Staðarhóls-Páll var móðurfaðir hans og móðuramma Helga dóttir Jóns Arasonar, seinasta kaþólska biskupsins á Íslandi. Athygli vekur að hann var í fóstri á bernskuárum, en slíkt virðist hafa verið fremur algengt lengi fram eftir öldum.

Þegar Brynjólfur var 12 vetra gamall eða 1617 var hann settur í Skálholtsskóla og var þar til 1623. Árið eftir sigldi hann til Kaupmannahafnar og var fimm ár við Hafnarháskóla og getur þess hjá hvaða prófessorum hann lærði. Árið 1629 kom Brynjólfur til Íslands, var hann næstu tvö ár hjá foreldrum sínum og lagði sig einkum eftir grísku. Sumarið 1631 fór hann á Alþing og sóktist eftir biskupskjöri eftir Odd Einarsson látinn, en þá var kosinn Gísli, sonur Odds. Brynjólfur sigldi þá samsumars aftur til Hafnarháskóla með tilstyrk Þorláks Skúlasonar Hólabiskups og mágs hans og nam nú m.a. læknisfræði hjá Ole Worm, er síðar getur. Árið 1633 hlaut hann meistaranafnbót og varð konrektor eða aðstoðarskólameistari við latínuskólann í Hróarskeldu.

Sumarið 1638 kom Brynjólfur til Íslands "eptir sína tólf ára veru utanlands að öllu, sex í Academíinu og sex ár í dómsskólanum í Roskild, og ætlaði að selja sína arfa og eignir hér á landi, og reisa í framandi lönd til meiri iðkunar, hvar upp á hann hafði og fengið styrk capitula af Roskild". Gísli biskup Oddsson dó á Alþingi þá um sumarið og var Brynjólfur kosinn til biskups í stað hans. Brynjólfur var ekki fús að taka við biskupsdómi, en var skikkaður af konungi til þess, sat hann síðan að stóli til 1674, er hann fékk eftirmanni sínum, Þórði Þorlákssyni, embættið í hendur.

Brynjólfur kvæntist sumarið 1640 Margréti Halldórsdóttur lögmanns og fór brúðkaupið fram á Skriðu í Hörgárdal "30. Ágústi með mikilli röggsemd og kostnaði". Eignuðust þau alls sjö börn, en aðeins tvö komust upp: Ragnheiður, sem fædd var 8. sept. 1641 og Halldór fæddur 8. des. 1642. Margrét, kona Brynjólfs, lést 1670, en áður voru bæði börn þeirra látin. Halldór sonur hans var ekki hneigður fyrir bóknám, fór hann til Englands og lést þar 15. des. 1666, en Ragnheiður dó 23. mars 1663. Hún eignaðist son með Daða Halldórssyni sem fæddist 15. febr. 1662, "barn það sem einna mestum ósköpum hefur valdið allra íslenzkra hvítvoðunga", eins og Jón Helgason komst að orði. Drengurinn var skírður Þórður, en ekki varð hann langlífur, dó 14. júlí 1673. Hér verður ekki um mál Ragnheiðar rætt, sbr. upptalninguna á bókum í upphafi greinar. Brynjólfur biskup lést 5. ágúst 1675 og segir Torfi Jónsson í fyrrnefndri ævisögu hans að í kistuna hafi farið bók, sem Jón Arason biskup lét prenta, en ekki er annað um vitað. Mikið hefur eðlilega verið skrifað um hana, en engin niðurstaða fæst fyrr en bókin finnst.

Brynjólfur átti því enga afkomendur á lífi er hann lést og má af þessu sjá, að í einkalífi var hann ekki hamingjumaður. Aftur á móti var hann mikill fjáraflamaður og auðugur vel. Kirkjustjórn hans hefur jafnan verið viðbrugðið og eru til frá hans hendi miklar embættisbækur. Elsta varðveitta prestastefnubók er frá honum komin og meira og víðar fór hann um biskupsdæmi sitt en næstu fyrirrennarar hans. Eru því frá honum komnar miklar og merkilegar vísitasíubækur. Þar voru taldar upp af meiri nákvæmni en áður eignir kirkna, stórar og smáar, fastar og lausar, og einnig eru taldar upp allar jarðir í hverri kirkjusókn með nafni og dýrleika og eru þar elstu heimildir um sumar jarðir. Í Árnastofnun eru nú varðveitt 14 bindi bréfabóka Brynjólfs biskups Sveinssonar, en upphaflega voru þær 21. Glataðar eru bækurnar sem eldri eru en 1652, en á þessum fyrstu árum eignaðist hann öll sín merkustu handrit. Svo þóttu bréfabækurnar merkilegar, að í byrjun aldarinnar voru þær í heild skrifaðar upp af Guðmundi Þorlákssyni og Páli Eggerti Ólasyni, sem að auki gerði brúklegt registur. Jón Helgason gaf út úrval úr bréfabókunum 1942, og valdi m. a. það sem lýtur að bókmenntum. Eru þessar embættis- og bréfabækur allar vannýttar mjög af sagnfræðingum, en þar er margvíslegur fróðleikur um 17. öldina.

Upphaf fræðastarfsemi

Áhrifamikill maður í íslensku menntalífi á 17. öld var Daninn Ole Worm. Arngrímur lærði hóf skrif um söguleg efni á latínu fyrir aldamótin 1600, en áhrif Worms á skrif Íslendinga á móðurmáli eru veruleg. Hann var fyrst og fremst læknir og prófessor við Hafnarháskóla og eins og fyrr sagði hlýddi Brynjólfur biskup á fyrirlestra hans. Worm var prófessor í læknisfræði til dauðadags 1654, þótt fyrst væri hann prófessor í grísku og eðlisfræði. Um Worm mætti hér skrifa langt mál, enda hafa verið skrifaðar um hann margar bækur. Hann stóð fyrir því, að í Danmörku voru á 17. öld samdar sóknalýsingar svipaðar og hér var safnað upp úr 1840 af hálfu Hins íslenska bókmenntafélags. Hann rannsakaði rúnir einna fyrstur manna og þykja skrif hans um efnið nú mjög merkileg. Ole Worm átti í bréfaskiptum á latínu við marga Íslendinga og gaf Jakob Benediktsson þau bréf út með skýringum, en öll bréfaskipti Worms hafa verið þýdd á dönsku.

Á 17. öld höfðu stúdentar einhvern prófessor fyrir einkakennara og fyrstur Íslendinga til að hafa Worm sem einkakennara var Þorlákur Skúlason síðar biskup á Hólum, sem var við Hafnarháskóla frá 1616-19. Sumarið 1622 hófu þeir bréfaskipti sem héldust meðan báðir lifðu. Þegar árið 1623 var Worm farinn að skrifa Þorláki um rúnir. Um það leyti var Jón lærði á Snæfellsnesi og skrifaði þar Grænlands annál fyrir Hólamenn. Líklegt er, en ekki vissa, að Þorlákur hafi á þessum árum fengið rúnastafróf frá Jóni lærða, sem síðar var birt í rúnabók eftir Worm, sem kom út 1636 og aftur 1651. Hér verður ekki farið nánar út fornfræðaiðkanir Þorláks Skúlasonar, þótt á því væri full þörf, en hann hefur mjög staðið í skugga starfsemi Brynjólfs biskups í Skálholti, sem átti þær bækur íslenskar er frægastar hafa orðið.

Brynjólfur Sveinsson er einkum þekktur okkar á meðal fyrir mikinn lærdóm, en um hann sagði Jón Helgason í Handritaspjalli:

Brynjólfur biskup var kallaður lærðastur maður á Íslandi um sína daga, og er líklegt að það hafi satt verið, en helzti mikið kveður þó að því í því tiltölulega litla sem hann hefur látið eftir sig, að lærdómurinn sé mest í því fólginn að vefja viðhafnarmiklar umbúðir um lítinn kjarna.

Vitaskuld var Brynjólfur einkar vel að sér í latínu og orti meira að segja á því máli. Áður var getið að Brynjólfur hafði mjög lagt sig eftir grísku og þekkt er einnig saga af Grikkjanum, sem kom til Kaupmannahafnar og Brynjólfur ræddi við á grísku, því að enginn fannst þar lærðari honum í því tungumáli.

Torfi Jónsson, bróðursonur Brynjólfs biskups, sagði um lærdóm hans í merkri ævisögu frænda síns, að hann hefði

líka nokkurn gustum fengið hebraicarum [nasasjón af hebreskum fræðum], vildi hann ei vera hospes domi [gestur í heimahúsum], heldur lagði sig þá einninn eptir antiquitatibus normannicis [norrænni fornfræði], svo ekkert til vantaði til solidam & perfectam eruditionem [í staðgóða og fullkomna menntun], hvað honum varð auðvelt og opið pro stupenda ingenii dexteritate & judicii acumine [vegna furðulega liðugra gáfna og skarprar dómgreindar]. Var þess vegna út um það alls staðar um landið.

Bréfaskipti Brynjólfs og Ole Worms hófust ekki fyrr en árið 1648, og fyrsta bréfið skrifaði Worm, en í svari segir Brynjólfur að Worm hafi vakið hjá sér áhuga á fornum norrænum fræðum. Fyllstu líkur eru á að Brynjólfur fari þarna með rétt mál; ýki a.m.k. fremur lítið í kurteisisskyni eins og þá var oft venja.

Það má með sanni segja, að Worm hafi komið víða við, því að árið 1633 gaf hann út Heimskringlu Snorra Sturlusonar í danskri þýðingu og aftan við er prentað Skáldatal úr Snorra-Eddu. Í formálanum segir Worm að menn taki ekki mark á neinu sem sagt er um Norðurlönd nema það finnist hjá grískum og latneskum sagnariturum, sem aldrei hafi þangað komið. Þeir eigi að vita betur hvað gerst hafi á Norðurlöndum en þeir sem þar eigi heima. - Lengi og víða hafa menn borið mikla virðingu fyrir erlendum sérfræðingum.

Samband Worms og Brynjólfs virðist hafa verið með þeim hætti, að Brynjólfur hafi fengið áhugann á fornum norrænum fræðum frá Worm. Á þessum tíma var alls ekki sjálfgefið að menn hefðu áhuga á fornum íslenskum fræðum, t.d. hafði Guðbrandur biskup Þorláksson lítinn áhuga á þeim.

Eins og áður sagði gaf Worm út bók á latínu um rúnir árið 1636 og eru þar prentuð í fyrsta sinn gömul íslensk kvæði, Höfuðlausn Egils Skallagrímssonar með skýringum Björns Jónssonar á Skarðsá og Krákumál með skýringum Magnúsar Ólafssonar í Laufási. Kvæðin voru prentuð með rúnaletri með latneskum skýringum og þýðingum og þótti sumum Íslendingum skrýtið og kölluðu "rúnsku". Þorlákur Skúlason Hólabiskup var til aðstoðar við þetta rit, en ekki var Brynjólfur biskup nefndur. Aftur móti segir Worm í bréfi til Brynjólfs að hann hafi skýrt fyrir sig Skáldatal í útgáfu Heimskringlu árið 1633 sem fyrr gat.

Fyrirhugað rit Brynjólfs um fornan norrænan átrúnað

Árið 1647 skrifuðu Brynjólfur biskup og Þorlákur Skúlason Hólabiskup álitsgerð um íslensk efni. Þar var m.a. spurt um álit Brynjólfs á draugum, en um þá sagðist hann ætla að skrifa meira í fyrirhuguðu riti sínu um fornan norrænan átrúnað. Í bréfi til Ole Worms fjórum árum síðar ræddi Brynjólfur um samband manna og álfa, en sagðist ætla að skrifa meir um það efni í riti sínu um fornan norrænan átrúnað. Síðar talar biskupinn stundum um bækur sem sig vanti til að geta skrifað þetta rit, en engar heimildir eru til um, að Brynjólfur hafi skrifað nokkur drög að því og þess vegna vita menn nú ekki hvaða hugmyndir hann hafði um álfa og drauga. Það þætti okkur samt mjög lærdómsríkt, því að vitað er að álfa- og draugatrú tók verulegum breytingum frá 17. öld og fram á þá 19. Engin leið er að vita, hvað Brynjólfur hefur hugsað sér að meira yrði í ritinu, en efni úr Eddunum virðist hafa átt að verða aðalheimildin.

Ekki er hægt að fullyrða hvenær Brynjólfur fékk þá hugmynd að skrifa rit um fornan norrænan átrúnað, en líklegast er að hann hafi verið farinn að hugsa um það þegar hann var í Danmörku í seinna sinnið. Getur þar vel verið að áhrifa gæti frá Ole Worm og einnig Dananum Stephanus J. Stephanius, sem vann lengi að skýringum á Danasögu Saxa. Átti Brynjólfur nokkurn hlut að skýringum Stephaniusar á Saxa, sem komu út 1645 og er svo að sjá að megináhersla Brynjólfs sé á fornum átrúnaði.

Áður en rætt verður um aðdrætti Brynjólfs biskups Sveinssonar að ritinu um fornan norrænan átrúnað, verður hér farið fáeinum orðum um ástæðu þess að ritið var aldrei samið, en hennar virðist helst vera að leita í skapsmunum hans sjálfs. Jón Halldórsson í Hítardal lýsti svo umsvifum hans:

M. Brynjólfur þótti heldur nýnæmur eður tilbreytíngarsamur í sumum efnum, sem honum sjálfum viðkomu, svo sem væri það kynfylgja nokkur frá móðurföður hans Páli bónda á Staðarhóli. Hann byrjaði mart með mikilli fyrirhyggju og stórum umsvifum og kostnaði, en hætti opt við verkið hálfunnið, svo ei leiddist til endalyktar eður var til lítillar nytsemdar.

Í framhaldi af þessu tekur Jón Halldórsson fáein dæmi af veraldlegum umsvifum Brynjólfs um fyrrnefnd einkenni á skapsmunum hans. Vitað er um tvö rit, skýringar á Saxa og íslenskt málsháttasafn, sem Brynjólfur byrjaði á en lauk aldrei. Þótt þessu riti um fornan norrænan átrúnað yrði aldrei lokið urðu aðdrættir til þess geysilega þýðingarmiklir eins og nú skal vikið að. Þótt hér á eftir séu talin upp mörg rit og merkileg er rétt að leggja þunga áherslu á, að Brynjólfur stóð einnig fyrir miklum og nákvæmum uppskriftum á fornum textum og átti mörg þau handrit sem áttu síðar eftir að vera talin hvað merkilegust, svo sem Flateyjarbók, Konungsbók Grágásar og Morkinskinnu. Brýn þörf er á að rannsaka fræðistarfsemi Brynjólfs alla og áhrif hennar betur en gert hefur verið til þessa.

Nú er rétt að skoða hvað biskupinn átti af handritum Snorra-Eddu, sem er aðalheimildin um fornan norrænan átrúnað. Fyrst vitum við að Brynjólfur biskup gaf "sínum góðum langvin" Stephaniusi, sem fyrr var nefndur, handrit Snorra-Eddu í seinasta lagi vorið 1639. Það er elsta handrit hennar og var síðar nefnt Uppsala-Edda. Í Oxford er nú uppskrift af Uppsala-Edda með hendi Jóns lærða, líklegast skrifuð þegar hann var í Kaupmannahöfn veturinn 1636-37 til réttingar mála sinna. Þegar 31. jan. 1640 keypti Brynjólfur annað handrit Snorra-Eddu, Konungsbók, sem er lagt til grundvallar í flestum útgáfum hennar. Þrjú brot eru kunn úr handritum Snorra-Eddu og er vitað að Brynjólfur átti tvö þeirra. Þriðja brotið er eina kunna, gamla Edduhandritið, sem vitað er um hér á landi á þessum árum og Brynjólfur átti ekki.

Ekki þótti Brynjólfi þetta nægileg vitneskja um Eddu, því að 1641 fékk hann Jón Guðmundsson lærða, sem fyrr var nefndur, til að skýra hana og varð þá til ritið Samantektir um skilning á Eddu, sem er uppskrift Snorra-Eddu með miklum viðbótum. Það rit er meginstofninn í fyrrnefndu riti mínu, Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða. Ekki er ástæða til að fjalla nákvæmlega um Jón lærða, sem á þessum efstu árum sínum dvaldist á Austurlandi og skrifaði margt fyrir Brynjólf biskup. M.a. fannst Jóni lærða mjög vel við hæfi hvað eftir annað í skrifum sínum til lúthersks biskups að líkja siðaskiptunum við ragnarökkur, enda var Brynjólfur kaþólskari en tíðkanlegt var á þeim tíma.

Ef athugaður er texti Snorra-Eddu í Samantektum sýnist hann ekki vera nákvæm uppskrift á neinu varðveittu handriti Eddu, heldur sjálfstæður gamall texti. Torvelt er að skýra, að orðamunur í Samantektum sýni ónákvæmni í uppskrift á varðveittum handritum. Annars er mikil þörf á að rannsaka pappírshandrit Snorra-Eddu frá 17. öld, því að mjög oft koma gamlir textar í ljós, þegar ung handrit eru rannsökuð.

Viðbætur Jóns lærða við texta Snorra- Eddu í Samantektum miðast einkum við að skýra efni um fornan norrænan átrúnað og jafnvel að tengja það við grísk-rómverka heiðni. Margt er úr handritum, m.a. Hauksbók sem Jón var vel kunnugur, en hann vitnar í margt eftir minni. Verulegur áhugi er á leiðslum og þar vísar Jón lærði til rita sem ekki eru lengur varðveitt í heilu lagi. Ýmislegt segir Jón af því sem hann hafði heyrt sjálfur, þ.e. úr munnlegri geymd. Má þar t.d. nefna, að hann talar um álfa, mann sem bjó með selkonu og uppruna útilegumanna.

Litlu munaði að Samantektir glötuðust algerlega, því að heilar eru þær aðeins varðveittar í einu handriti í Stokkhólmi, og var það skrifað í laumi fyrir Svía. Björn Jónsson á Skarðsá skrifaði Samantektir upp og stytti og sýnir það samvinnu milli lærdómssetranna í Skálholti og á Hólum. Árið 1977 var handrit þessarar gerðar Björns á Skarðsá keypt til Íslands, en það hafði verið í eigu sama Englendingsins, sem átti Skarðsbók postulasagna. Ekki er ljóst, hvort fleiri en Jón lærði fengust við að skýra Snorra-Eddu að frumkvæði Brynjólfs biskups, en þó gæti verið að Björn á Skarðsá hafi einnig skrifað handrit Snorra-Eddu fyrir Brynjólf í sama tilgangi.

Árið 1641 eignaðist Brynjólfur biskup eina kunna skinnhandrit Völsunga sögu og Ragnars sögu loðbrókar. Strax á eftir fékk biskupinn menn til að þýða söguna á latínu. Einnig fékk hann Jón lærða og Björn Jónsson á Skarðsá til að skýra kvæðið Brynhildarljóð, sem eru í sögunni og einnig í Konungsbók Eddukvæða, en nefnist þar Sigurdrífumál. Þar endar það óheilt næst á undan eyðu í handritinu. Í pappírshandritum frá 17. öld er kvæðið heilt til loka og hafa menn haft fyrir satt, að niðurlagið sé komið úr Konungsbók. Einsýnt er að einhverjir sem fengust við skýringar á Brynhildarljóðum eftir 1641 komust yfir Konungsbók Eddukvæða og skrifuðu upp úr henni lok kvæðisins, sem er ekki í Völsunga sögu. Síðan glataðist örkin, kverið, sem hefst seint í kvæðinu. Samkvæmt þessu hefur kverið glatast úr Konungsbók einu eða tveimur árum áður en Brynjólfur Sveinsson biskup fékk hana í hendur 1643.

Ritið sem Jón lærði skrifaði um Brynhildarljóð hefur fyrirsögnina: Að fornu í þeirri gömlu norrænu kölluðust rúnir bæði ristingar og skrifelsi og er það gefið út aftan við Samantekir í Edduritum Jóns Guðmundssonar lærða. Ritið var áður talið eftir Björn Jónsson á Skarðsá, þótt eftir hann sé til annað rit um sama efni samið 1642, Nokkuð lítið samtak. Rök fyrir því, að Jón lærði hafi skrifað Ristingar eru einkum þau, að mörg efnisatriði eru sameiginleg við rit sem sannanlega eru eftir hann. Einnig er fjarska ólíklegt að Björn á Skarðsá hafi um svipað leyti skrifað tvö ólík rit um sama efni. Bæði ritin voru skrifuð í sama tilgangi fyrir tilmæli frá Brynjólfi biskupi Sveinssyni vegna fyrirhugaðs rits hans um fornan norrænan átrúnað.

Árið 1867 þegar Sophus Bugge vann að grundvallarútgáfu sinni á Eddukvæðum leitaði hann pappírshandrita sem gætu verið með texta úr glötuðum skinnbókum. Niðurstaða hans var sú, að þá væri hvergi að finna, en þó væri í Ristingum lesháttur, sem væri athygli verður, "fortjener Opmærksomhed", en setti við spurningarmerki. Síðan hefur enginn skoðað ritið fyrr ég rannsakaði það fyrir útgáfuna í Edduritum Jóns Guðmundssonar lærða og virðast orð Bugges fá staðfestingu á fleiri stöðum. Eitthvað virðist því hafa verið til af ókunnum handritum með Eddukvæðum fram á daga Brynjólfs Sveinssonar og benda sum ummæli Jóns lærða til þess. Þess vegna hljóta menn að spyrja, er einhver von um að hægt verði að finna eitthvað meira sem bent gæti til annarra handrita Eddukvæða en Konungsbókar?

Víkjum nú að Eddukvæðunum sjálfum. Í fyrrnefndum skýringum Stephaniusar við Danasögu Saxa kvartaði Brynjólfur sáran um að glötuð væri Edda Sæmundar hins fróða, aðeins 1000. partur varðveittur í Eddu Snorra Sturlusonar. Þegar Brynjólfur biskup fékk Konungsbók Eddukvæða 1643 taldi hann sig vera búinn að fá í hendur Eddu Sæmundar. Nú er ekki vitað hvað safn Eddukvæða var kallað á fyrri öldum og eins víst, að það hafi alls ekki verið kallað Edda. Ýmsir hafa bent réttilega á, að nafnið sé óheppilegt, bæði merkingarlega og sögulega, því að nafnið Edda var frá fornu fari notað um Snorra-Eddu, en vonlítið er nú að stinga upp á nýju nafni sem gæti náð festu.

Elsta heimild um hugmyndina um Eddu kennda við Sæmund fróða, Sæmundar-Eddu, er að finna í fyrrnefndum Grænlands annálum Jóns lærða og er víst að sú klausa er örugglega frá honum runnin, því að hann endurtekur þetta mjög glögglega í Samantektum. Hugmyndin um Eddu kennda við Sæmund fróða, og því eldri en Snorra-Eddu, kemur á 17. öld fram meðal annars hjá Arngrími Jónssyni lærða og Brynjólfi biskupi í fyrrnefndum skýringum Stephaniusar á Danasögu Saxa og er þar upphaflega komin frá Jóni lærða. Hugmyndin um Sæmundar- Eddu verður ekki rakin lengra aftur en til 1623 og ekki er vitað hvort Jón lærði hafði hana úr bók eða þetta hefur verið sögusögn á þessum tíma.

Þegar litið er yfir þessi rit, sem Brynjólfur Sveinsson hafði áhuga á fyrir ritun sína á bók um fornan norrænan átrúnað, sjáum við að öruggt er að varðveist hefðu handrit Snorra-Eddu, þótt söfnun Brynjólfs á handritum þeirra hefði ekki komið til. Ekki er aftur á móti eins öruggt um handrit Völsunga sögu, því að aðeins er kunnugt um eitt handrit og til beggja vona hefði getað brugðið ef Brynjólfur Sveinsson hefði ekki klófest það. Mestur vafi um varðveislu og stærsta tap hefði orðið, ef Eddukvæðin hefðu glatast. Virðist þar litlu hafa munað, því að úr Konungsbók hefur glatast eitt kver rétt áður en Brynjólfur fékk bókina í hendur. Jón lærði virðist hafa þekkt eitthvað úr Eddukvæðum eftir öðru handriti en Konungsbók, svo að þar vaknar sú spurning sem aldrei verður svarað, hvort og hve mikið meira hefur verið til af handritum með Eddukvæðum. Ljóst er að við eigum Brynjólfi biskupi Sveinssyni og áætluðu riti hans um fornan norrænan átrúnað að þakka að sú bók, sem frægust er allra íslenskra bóka, Konungsbók Eddukvæða, er varðveitt.

Höfundurinn starfar í Árnastofnun og hefur fjallað um fræðastarfsemi Brynjólfs biskups í bók sinni, Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða.

BRYNJÓLFUR biskup Sveinsson. Myndina hafa landsmenn daglega milli handanna því hún er á þúsundkrónaseðlinum.BRYNJÓLFSKIRKJA í Skálholti. Gíslakirkja, kennd við Gísla biskup Jónsson hafði staðið frá 1567 þegar Brynjólfur varð biskup og hann hófst þegar handa um smíði nýrrar dómkirkju. Árið 1646 komu út tvö skip á Eyrarbakka með við til kirkjunnar sem reist var 1650 og stóð hún til 1802. Myndin er hluti úr vatnslitamynd eftir John Clevely sem var á staðnum 22. september 1772.BRYNJÓLFSKIRKJA. Pennateikning eftir ókunnan höfund.