Sextíu draumahögg Á grasfleti heilags Andrésar í samnefndum bæ á austurströnd Skotlands gerðist sá fáheyrði atburður á síðasta ári að óþekktur Íslendingur kom, sló og varð frægur á einhverjum frægasta golfvelli veraldar, sem oft hefur verið nefndur vagga golfíþróttarinnar ­ setti þar vallarmet sem jafnvel aldrei verður slegið.
Sextíu draumahögg Á grasfleti heilags Andrésar í samnefndum bæ á austurströnd Skotlands gerðist sá fáheyrði atburður á síðasta ári að óþekktur Íslendingur kom, sló og varð frægur á einhverjum frægasta golfvelli veraldar, sem oft hefur verið nefndur vagga golfíþróttarinnar ­ setti þar vallarmet sem jafnvel aldrei verður slegið. Enn í dag skrafa menn á teigum og flötum vallanna í St. Andrews um afrek Íslendingsins. Þeirra á meðal kylfusveinninn Dod, sem bar kylfur Arnar Ævars Hjartarsonar hinn 23. maí 1998 ­ "draumahringinn", eins og Dod sjálfur orðar það. Edwin R. Rögnvaldsson sótti draumavöllinn heim á dögunum og segir frá þeirri för í máli og myndum ­ og ræðir við kylfusveininn sem gengur með skorkort Arnar á sér, til að sýna hverjum sem vill að hann hafi verið með í för þegar vallarmetið var slegið.

Örn Ævar Hjartarson tók þátt í alþjóðlegu áhugamannamóti St. Andrews í Skotlandi síðastliðið vor ásamt fimm öðrum íslenskum ungmennum. Örn setti þá ótrúlegt vallarmet á "nýja vellinum" svonefnda, sem þó er orðinn 105 ára gamall. Þessi tvítugi Suðurnesjamaður lék þar átján holur í 60 höggum, ellefu höggum undir pari, og bætti þannig um hálfrar aldar gamalt met um þrjú högg.

Örn Ævar valdi sannarlega stað og stund til verksins, því í þessum litla háskólabæ á austurströndinni sleit golfíþróttin barnsskónum á fimmtándu öld og þar hefur æðsta ráð hennar á heimsvísu, hinn forni og konunglegi golfklúbbur St. Andrews, aðsetur og vakir stöðugt yfir þeirri öru þróun sem ríkir í golfheiminum.

Á hverju ári sækja þúsundir "pílagríma" velli St. Andrews heim, nokkuð sem hvern kylfing dreymir um að gera að minnsta kosti einu sinni um ævina. Þar verður elsta atvinnumannamót golfheimsins, opna breska mótið, haldið árið 2000.

Árangur Arnar Ævars er lygilegur. Minnsti höggafjöldi, sem nokkru sinni hefur náðst í keppni, er 59 högg. Sá síðasti sem það gerði var David Duval, sem er efstur á heimslista kylfinga um þessar mundir. Örn var grátlega nærri því að leika það eftir, en pútt hans á síðustu flötinni var ekki slegið af nægu afli og bolti hans náði ekki að holunni, en var á réttri leið.