Það var sérstök upplifun að koma til þeirra Barb og Dans, fólks sem ég hafði aldrei áður talað við hvað þá hitt. Barb tók á móti mér á flugvellinum í Milwaukee og þegar við ókum út úr borginni blasti við fallegt landslag með mörgum býlum sem ekki þættu stór á íslenskan mælikvarða.
Íslenskir hestar launa gott atlæti í Milwaukee Þjálfa fatlaða og lækka blóðþrýsting Barb og Dan Riva búa skammt fyrir utan borgina Milwaukee í Wisconsin. Þau eru gott dæmi um fólk sem fyrir tilviljun kynntist íslenskum hestum og er nú gjörsamlega fallið fyrir þeim. Þau sögðu Ásdísi Haraldsdóttur frá því hvernig líf þeirra hefur breyst á síðustu árum og snýst nú að miklu leyti í kringum íslensku hestana þeirra og annarra.

Það var sérstök upplifun að koma til þeirra Barb og Dans, fólks sem ég hafði aldrei áður talað við hvað þá hitt. Barb tók á móti mér á flugvellinum í Milwaukee og þegar við ókum út úr borginni blasti við fallegt landslag með mörgum býlum sem ekki þættu stór á íslenskan mælikvarða. Barb sagði að á þessum slóðum hefðu aðallega verið kúabú en nú væri borgin sífellt að teygja anga sína lengra út í sveitirnar. Edna og Katur verða aftur Auðna og Kátur Skilti sem á stóð Winterhorse Park Icelandics gaf til kynna að við værum komnar á leiðarenda. Fyrst var komið að tveimur stórum rauðmáluðum hlöðum eins og sjást svo víða. Í stóru tvískiptu gerði voru nokkur íslensk hross og Barb spurði strax hvort mér fyndist þau of feit. Mér sýndust þau vera í fínu standi, nema ef vera skyldi ein hryssa sem var ofurlítið þrifaleg en samt í góðu lagi. Nokkuð stórt beitarhólf var við gerðin en hrossin voru ekki höfð í því á meðan blautt var um, eins og gjarnan er fyrst á vorin. Yfirleitt eru hrossin þó í haganum. Á meðan hann er að þorna er hrossunum gefið út í gerðið eða inni í rúmgóðum hesthúsum. Hesthúsin eru eingöngu notuð þegar þegar mjög kalt er í veðri, sérstaklega ef hrossin hafa verið í notkun og svitnað. Þegar komið var heim í nýlegt bjálkahús fjölskyldunnar hittum við Dan, Pat, systur Barb og Söru Lyter sem býr í Chicago en hafði merina sína Aldísi hjá Barb um stundarsakir. Spjallið barst strax að hestamennsku þeirra. Pat er vanur reiðmaður og hefur hjálpað systur sinni og mági að þjálfa hrossin. Sara hefur verið með hryssuna sína með íslenskum hrossum bróður hennar og mágkonu skammt fyrir utan Chicago. Henni hefur þótt heldur langt að fara til að ríða út og er að leita sér að betri stað. Þrátt fyrir að þau Barb og Dan hafi aðeins stundað hestamennsku í nokkur ár eru þau komin á bólakaf, sérstaklega Barb, og Dan er á góðri leið. Það er greinilegt að þessu fólki þykir vænt um hestana sína. En þeim finnst nöfnin þeirra erfið. Hvernig berðu fram Auðna og Kátur?" spurðu þau. Og strax var byrjað að æfa þessi undarlegu nöfn með skrítnum hljóðum sem þau höfðu aldrei heyrt áður. Venjulega voru hrossin bara kölluð Edna og Katur. Íslenskir hestar eins og hnetur Eiginlega má segja að þau hafi kynnst íslenskum hestum af tilviljun. Sonur þeirra Vincent, sem nú er níu ára, er mikið fatlaður. Hann fæddist löngu fyrir tímann og var vel innan við kíló að þyngd. Þegar hann var nokkurra ára langaði Barb til að fá hest til að þjálfa hann upp. En úr vöndu var að ráða. Hún var ekki vön hestum svo hesturinn mátti ekki vera ógnvekjandi í hennar augum. Til þess að létta henni erfiðið við að koma Vincent á bak mátti hesturinn heldur ekki vera of stór. Og hún hóf leitina. Þá benti einhver henni á grein um íslenska hesta í tímaritinu Western Horseman. Þar með var teningunum kastað. Síðar frétti hún af stúlku frá Kaliforníu sem hélt námskeið í reiðmennsku á íslenskum hestum og hún dreif sig af stað. Þegar hún kynntist íslensku hestunum var hún viss í sinni sök. Loks frétti hún af tveimur hrossum til sölu. Annað var geldingur en hitt níu vetra gömul brún hryssa. Hún valdi hryssuna Dömu og sér ekki eftir því. Dama var kjörin fyrir Vincent og fljótlega fór hún sjálf að æfa sig á henni. Hún sagðist ekki hafa kunnað neitt. Hún datt að minnsta kosti tvisvar af baki og vissi að það var ekki Dömu að kenna heldur henni sjálfri. Fljótlega fann hún þó að hún gæti alveg þolað viljugri hest og fékk Hæring frá Ölvaldsstöðum. Ef til vill var það nokkuð stórt stökk því Hæringur er ákveðinn og sjálfstæður hestur. Barb segist hafa lært mikið af honum, kannski einmitt vegna þess að hann var svolítið erfiður. Það gekk á ýmsu í byrjun en nú segir hún hann vera uppáhaldshestinn sinn. En eins og margir Ameríkanar segja er ekki hægt að eiga einn íslenskan hest. Þeir eru eins og hnetur. Ef þú færð þér einn verður þú að fá þér fleiri og fleiri og það er erfitt að hætta. Það tók þau hjónin ekki langan tíma að sanka að sér átta hrossum. Að læra meira og meira Þegar Barb er spurð að því hvernig hún hafi getað náð þetta góðum tökum á reiðmennskunni á fáum árum segist hún hafa þrætt öll þau námskeið sem í boði hafa verið og hún hefur komist á. Hún hefur einnig tekið þátt í að kynna íslensku hestana á sýningum og var einmitt nýkomin af einni og að fara að undirbúa aðra þegar ég heimsótti þau. Smám saman hafa þau verið að byggja upp aðstöðu fyrir hrossin og er hún öll til fyrirmyndar. Dan hefur innréttað hesthús inni í gömlu hlöðunum, girt rúmgóð gerði eins og áður var getið um og girt hagann. Þar hefur verið komið upp skýli sem hrossin geta farið inn í til að verjast flugunni og kæla sig þegar heitast er. Nýjasta framkvæmdin er æfingavöllur sem nota átti nokkrum dögum seinna þegar Baldvin Ari Guðlaugsson ætlaði að koma til að halda námskeið og hjálpa þeim að æfa fyrir næstu sýningu. Handlaginn heimilisfaðir með háan blóðþrýsting Dan Riva var nú ekkert sérstaklega hrifinn af þessu hrossabrölti frúarinnar til að byrja með. Hann sá þó kostinn við að Vincent fengi hest til að æfa sig á. Þrátt fyrir að reka tvö bílaréttingarverkstæði hefur hann varið miklum tíma í að koma upp þessari frábæru aðstöðu auk þess að byggja íbúðarhúsið sem er á þremur hæðum, með innisundlaug og tómstundaherbergi. Dan hefur þjáðst af of háum blóðþrýstingi og þurft að vera á lyfjum. Þegar hann fór smám saman að sinna hestunum meira fann hann að það hafði róandi áhrif á hann. Hann uppgötvaði hvað það var endurnærandi að komast í hesthúsið í gegningarnar og kembingarnar eftir annasaman dag. Dag einn bað Barb hann að koma með sér til að skoða veikan íslenskan hest sem virtist ekki hafa náð sér eftir flutninginn frá Íslandi. Dan segist hafa sagt þegar hann sá Kát í fyrsta skipti: Þessi hestur er kominn með annan fótinn í gröfina. Barb hefur líklega vitað hvað hún var að gera því auðvitað endaði með því að þau keyptu Kát til að sjá hvort þau gætu ekki hlúð að honum. Smám saman fór hann að hressast og Dan fór að skreppa á bak honum. Það fór vel á með þeim. Þegar Dan fór næst til læknisins var hann spurður hvað í ósköpunum hann hefði gert. Blóðþrýstingurinn væri orðinn eðlilegur og hann þyrfti ekki lengur að taka lyfin. Við þetta fékk Dan auðvitað ofurtrú á íslenskum hestum. Nú ríður hann Kát sem varð sífellt erfiðari eftir því sem hann náði sér betur. Það er óhætt að segja að hann sé orðinn nokkuð erfiður fyrir mann sem aðeins hefur riðið út í eitt og hálft ár og hefur átt það til að rjúka. Dan lætur það þó ekki á sig fá og er ekkert á því að gefast upp. Hann vill heldur læra meira svo honum gangi betur að takast á við gerbreyttan hest, sem nú virðist orðinn alheilbrigður og hraustur. Kannski er þetta bara allt út af því að ég get ekki borið nafnið hans rétt fram," sagði Dan. Við þurfum bara að komast yfir þessa tungumálaörðugleika." Himinlifandi yfir Blesa sínum Eftir að hafa fylgst með Vincent fara á bak Dömu skruppum við til þeirra Annette og Bill Mayfield sem búa í um hálftíma fjarlægð. Þau voru nýlega búin að fá nýjan hest sem Bill vildi kalla Blesa þótt hann væri skráður undir nafninu Gullfaxi. Fyrir áttu þau tvo Tennessee Walking hesta, einn Quarter hest og tvo íslenska, Skrauta frá Ölvaldsstöðum og annan sem þau skiptu fyrir Blesa. Þau Bill og Annette bjuggu áður í Chicago en hafa nýlega fest kaup á þessu býli í skógarjaðri, en í skóginum eru endalausar reiðgötur. Bill ekur á hverjum degi til vinnu í Chicago, um einn og hálfan tíma hvora leið. Þau sögðust vera ákaflega ánægð með íslensku hestana sína og þessir tveir sem þau eiga nú hentuðu þeim mjög vel. Það leyndi sér ekki að Bill var himinlifandi yfir Blesa sínum. Hann skrapp á bak honum til að sýna okkur hann og það var greinilegt að þarna var vanur hestamaður á ferð. Ágætlega fór á með íslensku hestunum og Tennessee Walker hestunum og voru þeir hafðir saman í gerði. Blesi hafði ekki verið lengi að aðlagast og virtist meira að segja vera orðinn foringi hópsins. Ekki þorðu þau að hafa gamla Quarter hestinn með þar sem hann er gríðarlega stór og mikill og frekur. Þau vildu ekki eiga það á hættu að hann færi að slást við hina og slasa þá. Bjóða fötluðum börnum á hestbak og í sund Þegar við komum til baka var ákveðið að skreppa á hestbak. Ég átti nú hálfpartinn von á að farið yrði rólega eins og búast mætti við af fólki sem ekki hefur stundað útreiðar nema í nokkur ár. Nei, það var öðru nær. Þau Barb, Dan, Pat og Sara ætluðu sér greinilega að fá sem mest út úr reiðtúrnum og var bara látið lúðra. Kannski lærði Barb þetta síðastliðið sumar þegar hún fór í hestaferð á Íslandi. Aftur er ferðinni heitið í hestaferð á Íslandi sumarið 2000 og í leiðinni ætlar hópurinn að skella sér á Landsmótið sem haldið verður í Reykjavík. Áhuginn hjá þessu fólki er gífurlegur og það eyðir öllum sínum frístundum í hestana og að læra meira um þá. Þau hugsa líka vel um hestana. Þeir voru vel fóðraðir og í ágætis þjálfun. Þeir eru járnaðir reglulega sem er því miður ekki algilt í Ameríku. Það er dýrt að láta járna og sumir spara sér það hreinlega með ýmsum afleiðingum. Gestrisni þeirra Barb og Dan var einstök enda eru þau vön að taka á móti fólki. Auk þess að taka vel á móti áhugafólki um íslenska hestinn bjóða þau nær daglega til sín fötluðum börnum og foreldrum þeirra til að börnin komist á hestbak eða í sund.

Morgunblaðið/Ásdís Haraldsdóttir Barb og Pat aðstoða Vincent sem ríður á hinni pottþéttu Dömu. HROSSIN hafa það gott í risastóru tvískiptu gerði þar sem þeim er gefið ef þau eru ekki í haganum. Hesthúsin í baksýn. BILL Mayfield sýnir okkur Blesa, öðru nafni Gullfaxa frá Flagbjarnarholti, á meðan Skrauti frá Ölvaldsstöðum slæst við Tennessee Walker hest. ALLIR komnir á hestbak. Frá vinstri: Barb Riva á Hæringi frá Ölvaldsstöðum, Pat Pfeiffer á Auðnu frá Ytra-Dalsgerði, Sara Lyter á Aldísi frá Suður-Nýjabæ og Dan Riva á Káti frá Garðsá.